Jæja, það hafa verið annasamir dagar undanfarið og ekki tekur betra við í næstu viku. Seinasta vikan sem ég er í skólanum fyrir æfingakennslu svo það verður nóg að gera. Það er orðið alveg ákveðið að við Ása förum saman í Áslandsskóla í Hafnarfirði í æfingakennslu. Það er óneitanlega kominn smá fiðringur í magann en ég vona nú að þetta eigi eftir að ganga vel hjá okkur.
Það er ótrúlegt hvernig allt getur gengið á afturfótunum hjá manni stundum. Ég átti svoleiðis dag á miðvikudaginn. Vaknaði allt of seint og fattaði þá að ég hafði gleymt að hafa til allt draslið mitt kvöldið áður. Náði svo að skalla bílinn minn þegar ég var að setja skólatöskuna inn - ekki spurja mig hvernig. Mér er búið að vera illt í augabrúninni síðan en bólgan er farin að hjaðna.
Ég fór svo á bókasafnið í Kringlunni seinnipartinn til að skila bókum. Skellti pokanum á borðið og gerði mig líklega til að labba út. Þá argar bókavörðurinn á eftir mér hvort ég ætli ekki að taka bækurnar úr pokanum. Mér varð nú bara um og sagðist nú ekkert þurfa þennan poka. Þá horfði hún á mig hvössum augum og sagði að ég skyldi sko taka bækurnar úr pokanum. Svo ég labbaði til baka að borðinu, tók bækurnar úr pokanum og skildi allt eftir á borðinu og sagði bara pent gjörðu svo vel og gerði mig líklega til að labba út aftur. Þá spurði kellan hvort að ég ætlaði ekki að standa þarna á meðan hún skannaði bækurnar. Ég hélt nú ekki og arkaði beinustu leið út, alveg búin að fá nóg af tuðinu í kellingunni.
Ég fór svo og hitti Öggu í Kringlunni og við festumst inn í Oasis í rafmagnleysinu. Við hefðum getað labbað út með allt í búðinnu því að stelpurnar sem voru að vinna þarna voru ekkert að spá í því að þjófavarnarhliðið virkaði ekki í rafmagnsleysi... Agga og Agnes björguðu svo deginum á Vegamótum þar sem við stöllurnar hittumst og fengum okkur gott að borða í tilefni af afmælinu hennar Agnesar :)
Ég er búin að reyna að horfa á seinustu tvo þætti af Íslenska bachelornum en ég hef aldrei enst allan þáttinn. Þetta eru alveg skelfilega glataðir þættir!!! Ég skil ekki af hverju þetta má ekki heita Piparsveinninn upp á góða íslensku og af hverju þarf allt að vera nákvæmlega eins og í Bandarísku útgáfunni þegar þetta er augljóslega engan vegin að gera sig í íslensku samfélag?? Ég þekki nokkra sem horfa á þetta og arga úr hlátri en mér finnst þetta meira sorglegt en hitt. Ég fæ svo mikinn ógeðishroll að ég bara slekk á sjónvarpinu.
Haldiði að mín hafi svo ekki verið stoppuð af löggunni á leiðina í vinnuna í morgun! Ég var að syngja með einhverju lagi og tók ekki eftir því að löggan var að mæla á Breiðholtsbrautinni. Ég var nú samt ekki að keyra það hratt, undir hundraðinu allavegana. Ég tók hins vegar eftir því að löggan fór að keyra á eftir mér og bremsaði snarlega niður í löglegan hraða. Löggan elti mig nánast alla leið upp í vinnu og stoppaði mig á endanum. Ég sagðist nú bara hafa verið að syngja hástöfum og ekki alveg litið á hraðamælinn. Mér var sleppt með áminningu og ég beðin um að syngja lægra og kæra hægar í framtíðinni.
En jæja, ég ætla að fara að koma mér heim. Hafið það gott elskurnar mínar!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli