23 október 2006

Í fréttum er þetta helst

Jæja, þá er heldur annasamri helgi lokið. Ég átti bara ljúfan afmælisdag sem var að mestu leyti eitt í vinnunni. Var ekki búin að vinna fyrr en að ganga 7 og átti svo bara rólegt kvöld heima, fór í ljós og horfði á Bráðavaktina ;)

Á föstudaginn fór ég á stofnfund samtaka kvenna með endometriosu eða legslímuflakk - sem þykir víst ekki huggulegt orð. Það var ágætt að mæta þangað og heyra reynslusögur annarra sem hafa gengið í gegnum svipaða lífsreynslu og ég. Sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margar af þeim hafa eignast börn þrátt fyrir ófrjósemisdóminn sem margar konur með þennan sjúkdóm fá oft að heyra ansi ungar. Sérstakur gestur var formaður dönsku endometriosusamtakanna og það var afar fróðlegt að heyra í henni. Það hefur mikill árangur náðst í Danmörku í kynningu á sjúkdóminum en samt hafa ca 15% kvenna með hann verið sagt upp störfum sökum hans. Það hljómar ótrúlega en ég hef alltaf verið með móral í gegnum tíðina þegar ég hef legið veik heima með túrverki. Maður fær ótrúlega oft það viðhorf að þetta sé bölvaður aumingjaskapur í manni og að maður hljóti nú að geta harkað þetta af sér. Þrátt fyrir að maður hafi venjulega notið skilnings yfirmanna þá náði hann ekki mjög langt. Kannski ekki skrýtið miðað við hvað þessi sjúkdómur er lítið þekktur hér á landi en nú verður vonandi bætt úr því. Það var allavegana frábært að hitta allar þessar konur og fá staðfestingu á því að það sem maður hefur verið að bögglast með síðan maður byrjaði á blæðingum sé ekki eðlilegt og að það sé hægt að lifa öðruvísi en að vera uppdópaður í hvert sinn sem maður fer á túr.

Eftir stofnfundinn rauk ég heim til að elda fyrir Geira og Rakel en Geiri ætlaði að hjálpa mér að setja saman nýja stofuskápinn minn. Það gekk hins vegar ekki betur en svo að þegar við opnuðum kassana sást að það hafði verið sendur rangur litur og við spjölluðum því bara fram eftir kvöldi. Alltaf gaman að taka svona rólegheitakvöld með vinum sínum :)

Laugardagurinn fór svo í að undirbúa kaffiboð fyrir familíuna. Afrekaði að baka vöfflur í fyrsta skipti og prófaði að gera tvo brauðrétti alveg sjálf og ég held að þetta hafi heppnast alveg ágætlega. Kolla kom svo í bæinn með hluta af púkunum og gelgjurnar fengu að gista hjá frænku sinni. Alltaf gaman að fá gesti :)

Svo var seinasta formúla ársins í gær. Ég ákvað nú að horfa á hana svona til tilbreytingar, hef ekki nennt að fylgjast mikið með undanfarið. Schumi hættur núna, Raikkonen farinn til Ferrari og Vodafone farið að sponsa McLaren. Þarf ég að segja meira? Sé svo sem ekki á eftir Schuma en öll mín formúluprinsipp eru farin fyrir bý eftir þessa keppni. Hef næstu sex mánuði til að sofa á þeim.

Annars eru heitustu pælingarnar að halda innflutningspartý 4. nóvember. Eruði geim?

Engin ummæli: