13 október 2006

Pælingar...

Fyrir rétt hálfu ári síðan fór af stað með látum sú rússibanareið sem hefur einkennt lífið mitt síðan. Ég veiktist, ef hægt er að segja svo, og þurfti óvænt að standa í þeim veikindum ein. Með hjálp fjölskyldunnar og góðra vina náði ég að fara ágætlega stemmd inn á spítalann og mínir nánustu stóðu sem klettur við hliðina á mér á meðan ég var að komast á fætur aftur. Og breytingarnar héldu áfram, ég útskrifaðist úr skólanum, Agga eignaðist Úlf og ég flutti. Ég ákvað að taka að mér smá kennslu og er núna búin að breyta heldur betur til í vinnunni. Þegar ég horfi til baka finnst mér eins og þessi örlagaríki dagur fyrir hálfu ári síðan hafi verið í öðru lífi. Það er varla að mér finnist það hafa verið í mínu lífi.

Og ekki vantar tímamótin þessa dagana. 27 ára afmælið nálgast eins og óð fluga þrátt fyrir að mér finnist það vera í margra ára fjarlægð. Á meðan systir mín, sem er ári eldri en ég, hugsar um drengina sína þrjá hef ég ekki hugmynd um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég bölva fólki í hljóði sem spyr mig hvenær ég ætli að koma með eitt lítið og speisa út í samræðum þar sem umræðuefnið er fæðingar og ungabörn. Kannski soldið kaldhæðnislegt með það í huga að ef ég ætla mér að eignast börn þá hefði verið best ef ég byrjaði að reyna í gær. En kannski ekkert skrýtið. Enda getið þið ímyndað ykkur svipinn á hugsanlegum vonbiðlum við að fá slíkar fréttir. Hver vill taka tímann þangað til rykið fer að þyrlast undan skónum þeirra?

En þrátt fyrir að þetta hljómi voða svartsýnislegt þá ligg ég ekkert í djúpu þunglyndi. Ég er sátt við lífið mitt eins og það er í dag og á vissan hátt finnst mér það skemmtilegt að hafa ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér. Að hafa nákvæmlega ekki neitt planað og bara njóta þess að vera til. Ég hefði viljað sleppa við pressuna frá læknunum og samfélaginu með þessar blessuðu barneignir. Þessi grey koma þegar þau eiga að koma og á þann hátt sem þau eiga að koma. Því trúi ég allavegana og ég er sátt við mitt hlutskipti. Aðgerðin gerði mig heldur ekki tilbúnari til að eignast börn. Afleiðingar hennar juku bara utanaðkomandi pressu á mig að eignast þau – alveg óðháð því að það vantar einn mikilvægan hlekk inn í mitt líf til að barneignir geti átt sér stað, þ.e. kærasta. Eina ástæðan fyrir því að ég velti þessu svona mikið fyrir mér er af því að allir aðrir virðast gera það.

Stundum finnst mér eins og það sé ætlast til þess að ég hlaupi beint út á djammið, snari einn myndarlegan og verði ólétt helst á fyrsta kvöldi. Eins og enginn skilji að ég hef engan áhuga á því. Eins og enginn skilji að þó svo mig langi til að eignast mína fjölskyldu í framtíðinni þá hafi ég engann áhuga á því að ana út í hlutina. Eins og enginn skilji hversu absúrd þetta hljómar allt saman í mínum eyrum.

Ég er mikið að spá í að sekta fólk um hundrað kall í hvert skipti sem ég er spurð út í barneignir. Já, eða út í kallamál. Þá kannski fer fólk að hætta þessu. Já, kannski ég geri það bara. Ekki samt hafa neinar áhyggjur, þið megið alveg leggja inn á mig ef þið eruð ekki með klink.

Engin ummæli: