31 desember 2006

Nú árið er liðið í aldanna skaut...

eða því sem næst. Ég ætla ekki að fara yfir helstu atburði ársins hér, ég ætla að sprengja stóru rakettuna mína á miðnætti í kvöld og kveðja það með látum svo það komi örugglega aldrei til baka. Ég vil þakka lesendum síðunnar samfylgdina á árinu og óska þeim öllum gæfu og hamingju á nýja árinu.

26 desember 2006

Gleðilega hátíð

og vonandi hafið þið sem flest haft það gott yfir hátíðina. Ég er aldeilis búin að hafa það huggulegt og borða góðan mat. Hef bara dandalast á náttfötunum þegar ég hef verið heima hjá mér og horft á Grey's Anatomy og svo dressað mig upp og farið að borða hjá mömmu. Ég fékk margt fallegt í jólagjöf og fallegar kveðjur og þakka bara kærlega fyrir mig!

22 desember 2006

Röggi bró mættur á klakann

eftir mikið basl. Lenti í Keflavík um klukkan 6 í morgun eftir miklar seinkanir á fluginu. Ég reif mig upp á rassgatinu til að sækja drenginn og nú fær hann að leggja sig á meðan beðið er eftir næsta flugi. Allir að krossa fingur að það verði flogið vestur í dag! Ég fékk hins vegar að mæta beinustu leið í vinnuna og er ekki lítið þreytt.

21 desember 2006

Hún elsku besta Agga mín er 25 ára í dag. Til hamingju með daginn krúslan mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :)

18 desember 2006

Endalaus veikindi..

Fékk aðra umgangspestina á stuttum tíma á helginni. Lá alla helgina og rétt meikaði vinnuna í dag. Það verður gott að komast í jólafrí og safna kröftum. Skráði mig annars í rope yoga í dag, á námskeið sem hefst eftir áramótin. Ég ætla ekki að eyða öðru ári í svona veikindarugl. Er enn að bíða eftir bókinni um endometriosu og mataræði sem ég pantaði á Amazon, held áfram að taka það í gegn um leið og hún kemur í hús.

14 desember 2006

Ég var að..

passa fyrir Dagnýju og Hauk í gærkvöldi. Ég var mjög fegin þegar mamma leit inn en þá var Arnar á skiptiborðinu, það var að sjóða í pottinum og Tómas Orri var byrjaður að gráta í vagninum. Horfði svo á hana með skelfingarsvip þegar hún sagðist vera að fara. En þetta gekk allt saman vel - en ég ætla ekki að eignast svona mörg börn sjálf....

11 desember 2006

Takk FM 957!!

Það hefur oft verið gert grín að mér fyrir að hlusta á FM en ég skammast mín nú ekkert fyrir það og tel tónlistarsmekk minn ekki verri fyrir vikið. Tel það nú bara merki um menningarsnobb að líta niður á þá sem fíla ekki sömu tónlist og maður sjálfur, hver svo sem hún er. En FM stóð aldeilis fyrir sínu í dag. Ég sendi inn bréf í leik hjá þeim og bað þá um að bjóða Rögga bró til Bolungarvíkur yfir jólin. Það var hringt í mig í dag og FM og Flugfélag Íslands ætla að bjóða Rögga alla leiðina heim yfir jólin. Þannig að það eru allir úber glaðir og sáttir í minni familíu núna og við segjum bara takk FM 957!

Á sama tíma að ári..

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Kominn desember og farið að styttast í nýtt ár. Ég held að ég sé ekkert ein um það að horfa til baka yfir árið sem er að líða þegar jólin nálgast en núna finnst mér eins og ég þurfi að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja upp seinustu áramót. Ef einhver hefði sagt mér þá hvað ætti eftir að ganga á í lífinu mínu þetta árið hefði ég sjálfsagt hlegið mig máttlausa og talið viðkomandi vera nett skrýtinn og þurfa á stórfelldri andlegri aðstoð að halda. En hlutirnir breyttust og þegar ég horfi til baka er ég ekki viss um að ég hafi raunverulega þekkt það fólk sem stóð mér hvað næst fyrir ári síðan. Ég veit ekki einu sinni hvort að mig hafi langað til að þekkja það. Stundum er ég meira að segja efins um að ég hafi þekkt sjálfa mig.

Fyrirgefning er líka ofarlega í huga mér þessa dagana, hvort það sé hægt að fyrirgefa allt. Þrátt fyrir mig langi ekki til að hverfa til hlutanna eins og þeir voru og ég hlakki til að kveðja fortíðina, ef hægt er að segja svo, og hefja nýtt ár, þá er ég ekki búin að fyrirgefa það sem var gert á minn hlut. Ég held að ég eigi aldrei eftir að skilja hvernig er hægt að koma svona fram við annað fólk og þá er erfitt að finna það hjá sér að fyrirgefa. Ég er samt hvorki reið né bitur, mig langar bara að vita af hverju. Fá það staðfest að það hafi ekki verið mér að kenna. Samt veit ég alveg að ég get aldrei borið ábyrgð á hegðun annarra og að það réttlæti ekkert svona framkomu. Stundum þarf bara sálartetrið að heyra að það hafi ekki gert neitt rangt. En þessa hluti ætla ég að sprengja út með gamla árinu, ég veit að tíminn sér um rest.

Ég er hins vegar að gera mér betur og betur grein fyrir því að veikindin eru komin til að vera og að ég verði að sætta mig við að þurfa að eiga í þeim næstu 20 árin, ef ekki um ókomna tíð. Ég er hins vegar viss um að ég geti gert mitt til að halda þeim sem mest niðri og það er eitthvað sem ég er ákveðin í að gera. Ég er komin á ný hormónalyf og þarf að taka pilluna samhliða þeim næstu 5-6 vikurnar. Það er því tvöfaldur hormónaskammtur í gangi og ég er strax farin að finna hvað þráðurinn hefur styst. Þetta er alveg árstíminn til að vera með hormónapirring í hámarki og ég vona bara að ég nái að anda djúpt í jólaösinni sem er framundan svo að ég eigi ekki eftir að hvæsa á fólk sem er svo óheppið að vera á röngum stað á röngum tíma.

En þrátt fyrir allt er ég sátt við lífið í dag og ég veit ekki hvort ég hefði viljað breyta þessu ári sem er að líða. Allt sem hefur gerst hefur gert mig að því sem ég er í dag og ég er allavegana ekki verri manneskja fyrir vikið. Ég gæti nú meira að segja verið betri ef eitthvað er. Það verður forvitnilegt að sjá hvað nýja árið ber í skauti sér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að spá fyrir um hvar ég verð stödd í lífinu á sama tíma að ári. Ég veit bara að ég hlakka til að takast á við það sem framundan er :)

10 desember 2006

Enn eitt slysið..

Það varð banaslys á Vesturlandsveginum í kvöld og núna bíð ég eftir reiðiöldu um að það verði að gera eitthvað til að bæta öryggið á veginum. Þetta er allavegana annað banaslysið á árinu á þessum vegi og það er ótrúlegt að aldrei skuli vera gerðar neinar almennilegar úrbætur á þessum vegi sem liggur þó í gegnum tvö bæjarfélög og hefur hæstu slysatíðni af öllum vegum á landinu. Já, hærri en bæði Suðurlandsvegur og Reykjanesbraut og hefur auk þess meiri umferðarþunga. Ég efast þó að um að þessi reiðialda muni koma, fólk hringdi bara í lögguna og kvartaði yfir því að vegurinn væri lokaður. Alveg ótrúlegt skeytingarleysi.

Ætli ég eigi eftir að lifa þá tíma að Ísland hafi stjórnvöld sem geri eitthvað af viti í samgöngumálum og vinni leynt og ljóst að því að fyrirbyggja slys og bæta umferðarmenningu en ekki plástra bara þar sem verstu slysin verða?

08 desember 2006

Flottasti skólinn


Tveir póstar í dag, bara fyrir Dagnýju. Stal þessari af víkarabloggi og verð að vera sammála því að þetta er flottasti skóli landsins. Ohh, mig langar heim....

Halló! Get ég fengið keypt egg?

Jæja, Dagný systir var að kvarta undan bloggleysi hjá mér og maður verður nú að bregðast við því svo að heimavinnandi húsmóðirin hafi eitthvað að gera þegar hún vafrar um á netinu. Annars er ekkert að frétta af þessum bænum, nema þið hafið voðalega gaman af því að heyra um bókhald. Það er spurning um að koma sér upp svefnaðstöðu í vinnunni og spara sér bara leiguna. Það er búið að vera alveg óendanlega mikið að gera undanfarið en sem betur fer er farið að hægjast um og aldrei að vita nema maður sjái einhverja af vinum sínum á aðventunni og fari jafnvel að hætta í vinnunni á eðlilegum tíma á daginn.

Kristinn Breki kom og skreytti hjá mér á seinustu helgi og fékk að gista líka. Það var voða notalegt hjá okkur og jólatréð er glæsilega skreytt eftir kappann að vanda. Annars er bara afslöppun framundan, eða allavegana minni vinna en undanfarið og planið er að vera í bænum yfir hátíðarnar. Röggi bró kemur til landsins 21. og verður fram yfir áramót og það verður öfga gaman að hafa hann hérna á þessum árstíma til tilbreytingar.

Annars er hausinn tómur og ég ætla að hætta áður en röflið nær nýjum hæðum. Ég heimta að Dagný kvitti fyrir póstinn og skrifi inn á síðurnar hjá púkunum svo ég hafi eitthvað að gera þegar mér leiðist í vinnunni ;)

02 desember 2006

Marmaris myndir

Við mæðgur vorum nú ekkert ofvirkar á myndavélinni í fríinu en það voru teknar myndir af okkur í seinasta skiptið sem við fórum í spa-ið á hótelinu. Ég fékk loksins diskinn hjá mömmu og hérna eru nokkrar myndir.


Mamma komin í þvottinn

Rakel á þvottaborðinu

Ég á tyrkneska marmaranum

Sætar mæðgur ;)



Frýnilegar með ískalda body maskið

Rakel fær góða gusu yfir sig