11 desember 2006

Á sama tíma að ári..

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt. Kominn desember og farið að styttast í nýtt ár. Ég held að ég sé ekkert ein um það að horfa til baka yfir árið sem er að líða þegar jólin nálgast en núna finnst mér eins og ég þurfi að fara mörg ár aftur í tímann til að rifja upp seinustu áramót. Ef einhver hefði sagt mér þá hvað ætti eftir að ganga á í lífinu mínu þetta árið hefði ég sjálfsagt hlegið mig máttlausa og talið viðkomandi vera nett skrýtinn og þurfa á stórfelldri andlegri aðstoð að halda. En hlutirnir breyttust og þegar ég horfi til baka er ég ekki viss um að ég hafi raunverulega þekkt það fólk sem stóð mér hvað næst fyrir ári síðan. Ég veit ekki einu sinni hvort að mig hafi langað til að þekkja það. Stundum er ég meira að segja efins um að ég hafi þekkt sjálfa mig.

Fyrirgefning er líka ofarlega í huga mér þessa dagana, hvort það sé hægt að fyrirgefa allt. Þrátt fyrir mig langi ekki til að hverfa til hlutanna eins og þeir voru og ég hlakki til að kveðja fortíðina, ef hægt er að segja svo, og hefja nýtt ár, þá er ég ekki búin að fyrirgefa það sem var gert á minn hlut. Ég held að ég eigi aldrei eftir að skilja hvernig er hægt að koma svona fram við annað fólk og þá er erfitt að finna það hjá sér að fyrirgefa. Ég er samt hvorki reið né bitur, mig langar bara að vita af hverju. Fá það staðfest að það hafi ekki verið mér að kenna. Samt veit ég alveg að ég get aldrei borið ábyrgð á hegðun annarra og að það réttlæti ekkert svona framkomu. Stundum þarf bara sálartetrið að heyra að það hafi ekki gert neitt rangt. En þessa hluti ætla ég að sprengja út með gamla árinu, ég veit að tíminn sér um rest.

Ég er hins vegar að gera mér betur og betur grein fyrir því að veikindin eru komin til að vera og að ég verði að sætta mig við að þurfa að eiga í þeim næstu 20 árin, ef ekki um ókomna tíð. Ég er hins vegar viss um að ég geti gert mitt til að halda þeim sem mest niðri og það er eitthvað sem ég er ákveðin í að gera. Ég er komin á ný hormónalyf og þarf að taka pilluna samhliða þeim næstu 5-6 vikurnar. Það er því tvöfaldur hormónaskammtur í gangi og ég er strax farin að finna hvað þráðurinn hefur styst. Þetta er alveg árstíminn til að vera með hormónapirring í hámarki og ég vona bara að ég nái að anda djúpt í jólaösinni sem er framundan svo að ég eigi ekki eftir að hvæsa á fólk sem er svo óheppið að vera á röngum stað á röngum tíma.

En þrátt fyrir allt er ég sátt við lífið í dag og ég veit ekki hvort ég hefði viljað breyta þessu ári sem er að líða. Allt sem hefur gerst hefur gert mig að því sem ég er í dag og ég er allavegana ekki verri manneskja fyrir vikið. Ég gæti nú meira að segja verið betri ef eitthvað er. Það verður forvitnilegt að sjá hvað nýja árið ber í skauti sér og ég ætla ekki einu sinni að reyna að spá fyrir um hvar ég verð stödd í lífinu á sama tíma að ári. Ég veit bara að ég hlakka til að takast á við það sem framundan er :)

Engin ummæli: