29 júlí 2007

Draumur um Þjóðhátíð í NYC

FM er farið að spila þjóðhátíðarlögin á milljón og árviss fiðringur farinn að gera vart við sig. Það verður þokkalega bannað að beila á Þjóðhátíð á næsta ári bara svo það sé á hreinu. Ég mun hins vegar stíga upp í flugvél á föstudaginn og halda til New York. Vænti þess að Klakinn taki á móti mér með flugeldasýningu þegar ég lendi að kveldi hins 18. ágúst. Óneitanlega er kominn spenningur og tilhlökkun en líka pínu kvíði yfir að vera að þvælast þarna ein. En þetta er hins vegar skemmtileg áskorun og ég efast ekki um að þetta verður skemmtileg ferð.

Bara tveir vinnudagar eftir fram að sumarfríi og ég verð að viðurkenna að það verður gott að fara í frí. Alveg svakalega gott meira að segja. Á eftir að eyða vikunni í að undirbúa ferðalagið og gera íbúðina mína klára fyrir gestina sem verða í henni á meðan ég er úti. Gera lista yfir allt það sem á að versla fyrir aðra og skoða á netinu það sem að ég ætla að versla fyrir mig ;-)

Ætla að fá mér amerískt gemsanúmer þegar ég kem út svo að símareikningurinn verði ekki himinhár þegar ég kem heim. Verð í tölvusambandi úti svo ég kem til með að pósta því hingað inn þegar það verður frágengið. Ætli maður reyni svo ekki að blogga eitthvað til að leyfa fólki að fylgjast með. Veit að sumir eru með hjartað í buxunum yfir því að maður sé að þvælast svona einn. En ég kem varla til með að gera meiri gloríur en sú þýska í Hornvík hérna í denn, sem að tjaldaði upp í vindinn og þvoði sér svo að neðan í læknum á tjaldstæðinu án þess að vera nokkuð feimin við það.

Næsta blogg kemur allavegana frá Stóra Eplinu svo ég segi bara skemmtið ykkur vel um versló krakkar mínir og bara svo það sé á hreinu Geiri og Pétur þá er skylda að taka extra gott djamm í Eyjum þetta ári. Ég drekk þig svo undir borðið Geiri minn að ári ;-)

23 júlí 2007

Að fylgjast með

Ég skoða alltaf strimilinn þegar ég er búin að versla og geymi alltaf kvittunina þegar ég borga með korti. Reyndar bara þangað til að upphæðin er farin út af kortinu en samt. Svo held ég heimilisbókhald svo að ég hafi einhverja hugmynd um í hvað peningarnir mínir fara. Það hefur oft verið hlegið að mér fyrir þetta en mér er slétt sama, maður á að fylgjast með. Í vinnunni í dag var ég að bóka gögn frá ónefndu fyrirtæki og kom þar niður á nótu frá Bónus á Akureyri, dagsetta 1. júní. Það er svo sem ekki frásögu færandi nema ég þurfti að horfa nokkurn tíma á sundurliðunina á vsk-inum neðst á strimlinum til þess að meðtaka það sem þar stóð. Þeir sem fylgjast eitthvað með íslensku samfélagi ættu að vita að þar eru í gangi tvö vsk þrep, annað 24,5% og hitt 7%. Á þessari ágætu nótu voru þrepin hins vegar þrjú, 24,5%, 14% og 7%. Þremur mánuðum eftir að 14% þrepið var fellt niður er Bónus ennþá að rukka 14% vsk af bónusbrauðum. Sjálfsagt er um einhver tæknileg mistök að ræða en mér finnst þau ekki bera fyrirtækinu gott merki. Lái mér hver sem vill.

22 júlí 2007

Harry Potter and the Order of the Phoenix - The Movie

Dreif mig í bíó í gær til að sjá þessa mynd. Ég elska bækurnar um Harry Potter en hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af myndunum. Maður verður samt alltaf að sjá þær. Ég sest yfirleitt niður í bíósalnum með litlar væntingar en í þetta skiptið varð ég samt fyrir vonbrigðum. Það er stiklað á stóru mestan part myndarinnar. Það er hins vegar langt á milli steina hjá leikstjóranum og mér fannst ekkert samhengi nást. Hann reynir að vera trúr bókinni framan af en ferst það ekki vel úr hendi. Hann nær þó inn ákveðnum húmor og þá sérstaklega í kringum Dolores Umbridge og persónusköpunin er mjög góð í myndinni eins og áður. Ég saknaði samt gamla Dumbeldore. Þessi nýji hefur svo sem lúkkið en það vantar ákveðna mýkt og þokka í karakterinn hjá honum. Emma Thompson er svo æði sem Trelawney.

Ég hélt svo að gaurinn væri að grínast með endinn á myndinni. Þar tapaði hann tengslum við bókina og myndin fór út í ameríska vellu. Mér fannst hann ekki spila vel úr þeim möguleikum sem að lokakaflar bókarinnar buðu uppá þrátt fyrir að tæknibrellurnar hafi verið flottar. Það er bara ekki hægt að treysta á tæknibrellur til að gera góða mynd og mín niðurstaða er því að þessi mynd var einfaldlega léleg og sú lélegasta af Harry Potter myndunum hingað til. Það er bara algjör óþarfi að breyta mikið út af söguþræðinum og ég tala ekki um að fara út í einhverja bölvaða væmni. Ég legg til að Baltasar Kormákur leikstýri næstu myndum. Hann sýndi það í Mýrinni hvernig á að gera góða bíómynd eftir góðri bók.

17 júlí 2007

Myndir

Jæja, hérna koma loksins Eyjamyndir.


Hildur og ég aaðeins að kíkja í bæinn


Kjartan og Hildur á Lundanum

Hildur alltaf sæt

Séð ofan af Heimakletti

Ég held að þetta sé Friðarhöfn..

Komnar á toppinn :)
Guðbjörg skvísa og Hildur í tuðrunni
yours truly

Flottur hellir, Kanarnir spyrja víst að því hvernig þetta sé búið til!
Skvísurnar klárar í djammkvöld nr. 2
Maggi og ég
Hildur og Ölli
Hildur og Guðbjörg
Alltaf sætar
Óli Svanur og Alda - alls staðar eru Bolvíkingar!
Stuðboltarnir

Og svo ein af Heimakletti í lokin

Hann Daníel frændi minn á afmæli í dag og er 12 ára púkinn. Hann er núna staddur á Mallorca með familíunni og ég sendi honum bestu kveðjur þangað í tilefni dagsins.

16 júlí 2007

Sjóveik í vinnunni

Góðviðrinu undanfarið fylgir margt slæmt. Það er til dæmis ekki líft í vinnunni hjá mér fyrir hita eftir hádegi á daginn og fyrstu klukkutímarnir eftir að maður kemur heim er maður að ná upp súrefni og koma heilastarfseminni aftur í gang. Það eru allir gluggar opnir og allar viftur í gangi samt sem áður. Sólin skín bara beint á gluggana hjá okkur og filmurnar í gluggunum og screen gardínurnar duga bara ekki til.

Eftir hádegi í dag vorum við beðin um að loka öllum gluggum því að það var mætt lið á staðinn til að þrífa fituna sem hefur sest á húsið eftir að American Style opnaði hérna niðri. Heilinn dó skömmu seinna. Ég freistaði þess að opna hjá mér á meðan gaurarnir væru ekki komnir að mínum glugga en það reyndist slæm hugmynd. Ég veit ekki hvaða efni þeir eru að nota en lyktin og andrúmsloftið hérna inni minnir mig einna helst á slæmar sjóferðir með Herjólfi og Fagganum jafnvel. Ef að það væri veltingur líka þá væri ég búin að æla.

Auðvitað er það frábært hjá American Style að þrífa upp eftir sig skítinn en ég held að það hefði enginn dáið ef það hefði verið beðið eftir kaldara veðri.

15 júlí 2007

Klukkedíklukk

Þeir eru nú misskemmtilegir þessir bloggleikir sem koma í hrinum. En þar sem ég er svo samviskusöm og hlýðin þá skorast ég ekki undan þegar stóra systir klukkar mig. Núna er málið að segja frá átta staðreyndum um sjálfan sig.

1. Ég er lærður kennari og vinn við bókhald en hef samt ekki hugmynd um hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór.
2. Ég á sumarfrí í sumar í fyrsta skiptið á minni ævi.
3. Ég er með 6 ör.
4. Mér finnst Íslendingar vera dónalegir og mig langar mikið að flytja til útlanda.
5. Mér finnst afskaplega gott að sofa út á helgum.
6. Á mánudögum hringi ég alltaf í ömmu mína og á við hana gott spjall.
7. Ég á mjög bágt með að þola fólk sem vorkennir sjálfu sér.
8. Ég er pjattrófa dauðans sem þýðir t.d. að ég kaupi aldrei rúmföt í Rúmfatalagernum eða Ikea og ég strauja viskustykkin mín.

Er þá ekki bara málið að klukka Önnu Þóru, Ásu, Hjördísi, Pétur og Ellu?

08 júlí 2007

En það er ekki Þjóðhátíð!

Komin til byggða eftir frábæra helgi í Eyjum. Sumir ráku upp stór augu þegar þeir sáu mig og létu út úr sér - en það er ekki Þjóðhátíð, hvað ert þú að gera hér? Spurning hvort þetta séu hint.. Kiddi var að vinna alla helgina og því sá ég allt of lítið af honum en við Hildur vorum duglegar að hafa það notalegt. Skáluðum í einni Amarone á föstudagskvöldinu og fengum okkur göngutúr niður í bæ. Ætluðum aðeins að kíkja og fara snemma heim. Enduðum hins vegar á pöbbarölti og skriðum heim undir morgun.

Vorum farnar út upp úr hádegi á laugardeginum og byrjuðum daginn á því að klífa Heimaklett. Hann er svo sem ekki hár, um 280 metrar, en öfga brattur og ég uppgötvaði þarna að ég er nú bara nokkuð lofthrædd. Við hlupum niður klettinn því að Hildur og Guðbjörg voru búnar að skipuleggja fyrir mig óvisuferð og við máttum ekki mæta of seint í hana. Það reyndist vera sigling á tuðru í kringum Heimaey og þvílíka tæra snilldin sem það var!! Siglingin tók 2 tíma og við kíktum inn í ótal hella og víkur. Þess á milli fleyttum við kellingar á sjónum og það er ekki laust við það að það séu strengir víða um líkamann í dag eftir ferðina.

Um kvöldið var farið í Skvísusundið og djammað fram undir morgun og svo var þynnkumaturinn borðaður á brakandi blíðu á pallinum hjá Magga og Sísí. Svo var drifið sig í Dallinn og haldið heim á leið. Góð ferð þar sem maður fékk smá útrás fyrir þjóðhátíðarfiðringinn. Það verður hins vegar engin Þjóðhátíð þetta árið en það styttist þeim mun meira í New York. Skemmtilegir ferðafélagara virðast ekki liggja á lausu svo ég ætla að spóka mig ein þar í 2 vikur, kaupa upp lagerinn hjá Victoria's Secret og sötra Cosmo. Er búin að skipta íbúðinni minni út fyrir íbúð á Upper West Side á Manhattan sem ættu að teljast ágæt býtti.

En jæja, þetta er gott í bili. Hendi inn nokkrum Eyjamyndum fljótlega - ef að ég fæ nógu mörg komment við færslunni. Maður verður að vita hvort það sé einhver að lesa vitleysuna í manni ;-)

02 júlí 2007

Hvar er allt fólkið?

Eru allir í sólbaði í góða veðrinu? Vill enginn kommenta hjá mér?

01 júlí 2007

Nýja myndavélin

Jæja, þá maður loksins myndavél. Hef ekki átt svoleiðis síðan minni var stolið á Sportkaffi forðum daga. Nýja vélin er voða fín og imbaproof svo það er góð von fyrir mig að læra á hana. Ég á eftir að æfa mig grimmt þangað til ég fer til Eyja á fimmtudaginn. Annars er mest lítið að frétta. Ég fór jú í útilegu á seinustu helgi og það var stór gaman alveg. Svo fórum við Kristinn Breki að horfa á Nico Rosberg keyra í Smáralindinni í vikunni og skemmtum okkur alveg konunglega. Gaman að heyra hljóðin í bílnum. Púkinn fékk kvittun hjá Rosberg og fannst merkilegt að þurfa að vera með eyrnapinna í eyrunum á meðan bíllinn var í gangi. Þeir virkuðu reyndar ekki alveg í seinna skiptið svo hann stóð bara og hélt fyrir bæði eyrun greyið.

Ég læt svo fljóta með fyrstu myndirnar sem voru teknar á nýju græjuna. Þórdís og Tommi komu með hana heim frá New York í dag svo það eru nokkrar myndir þaðan. Maður fékk bara alveg fiðring við að sjá þær - mikið svakalega hlakka ég til. Bara mánuður til stefnu! Svo er mynd af aðalpúkanum sem hefur frænku sína algjörlega í vasanum þessa dagana...