Harry Potter and the Order of the Phoenix - The Movie
Dreif mig í bíó í gær til að sjá þessa mynd. Ég elska bækurnar um Harry Potter en hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifin af myndunum. Maður verður samt alltaf að sjá þær. Ég sest yfirleitt niður í bíósalnum með litlar væntingar en í þetta skiptið varð ég samt fyrir vonbrigðum. Það er stiklað á stóru mestan part myndarinnar. Það er hins vegar langt á milli steina hjá leikstjóranum og mér fannst ekkert samhengi nást. Hann reynir að vera trúr bókinni framan af en ferst það ekki vel úr hendi. Hann nær þó inn ákveðnum húmor og þá sérstaklega í kringum Dolores Umbridge og persónusköpunin er mjög góð í myndinni eins og áður. Ég saknaði samt gamla Dumbeldore. Þessi nýji hefur svo sem lúkkið en það vantar ákveðna mýkt og þokka í karakterinn hjá honum. Emma Thompson er svo æði sem Trelawney.
Ég hélt svo að gaurinn væri að grínast með endinn á myndinni. Þar tapaði hann tengslum við bókina og myndin fór út í ameríska vellu. Mér fannst hann ekki spila vel úr þeim möguleikum sem að lokakaflar bókarinnar buðu uppá þrátt fyrir að tæknibrellurnar hafi verið flottar. Það er bara ekki hægt að treysta á tæknibrellur til að gera góða mynd og mín niðurstaða er því að þessi mynd var einfaldlega léleg og sú lélegasta af Harry Potter myndunum hingað til. Það er bara algjör óþarfi að breyta mikið út af söguþræðinum og ég tala ekki um að fara út í einhverja bölvaða væmni. Ég legg til að Baltasar Kormákur leikstýri næstu myndum. Hann sýndi það í Mýrinni hvernig á að gera góða bíómynd eftir góðri bók.
2 ummæli:
Sæl frænka.
Það er nú einu sinni þannig að kvikmyndir og bækur eru ólík listform. Það er nú varla hægt að ætlast til að bókinni sé varpað á hvíta tjaldið. Nálgun leikstjóra og handritshöfunda er öðruvísi en hjá rithöfundinum sjálfum.
Kv. frá Grenivík,
Valdi V.
Já það er alveg rétt. Það er mikil kúnst að gera góða mynd eftir góðri bók og ná þeirri upplifun sem lesendur ná í bókinni. Baltasar gerði það snilldarlega í Mýrinni, myndin er ekki algjörlega eftir bókinni en hann var trúr bókinni þar sem það þurfti.
Karaktersköpunin í Potter myndunum er æði, held að hún nái karakterunum eins og flestir sjá þá fyrir sér. Þessi mynd sökkaði hins vegar feitan einfaldlega af því að það var verið að sykurhúða söguþráðinn og reyna að búa til aðra ímynd. Sögurnar eru einfaldlega það sterkar að þær þurfa það ekki. Þess vegna vil ég fá Balta til að gera þetta, held að hann gæti gert góðar HP myndir.
Skrifa ummæli