Að fylgjast með
Ég skoða alltaf strimilinn þegar ég er búin að versla og geymi alltaf kvittunina þegar ég borga með korti. Reyndar bara þangað til að upphæðin er farin út af kortinu en samt. Svo held ég heimilisbókhald svo að ég hafi einhverja hugmynd um í hvað peningarnir mínir fara. Það hefur oft verið hlegið að mér fyrir þetta en mér er slétt sama, maður á að fylgjast með. Í vinnunni í dag var ég að bóka gögn frá ónefndu fyrirtæki og kom þar niður á nótu frá Bónus á Akureyri, dagsetta 1. júní. Það er svo sem ekki frásögu færandi nema ég þurfti að horfa nokkurn tíma á sundurliðunina á vsk-inum neðst á strimlinum til þess að meðtaka það sem þar stóð. Þeir sem fylgjast eitthvað með íslensku samfélagi ættu að vita að þar eru í gangi tvö vsk þrep, annað 24,5% og hitt 7%. Á þessari ágætu nótu voru þrepin hins vegar þrjú, 24,5%, 14% og 7%. Þremur mánuðum eftir að 14% þrepið var fellt niður er Bónus ennþá að rukka 14% vsk af bónusbrauðum. Sjálfsagt er um einhver tæknileg mistök að ræða en mér finnst þau ekki bera fyrirtækinu gott merki. Lái mér hver sem vill.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli