Ég er aðeins byrjuð að skrifa ritgerð um kenningar í alþjóðasamskiptum og nota Þorskastríðið sem dæmi. Ein af heimildunum mínum er greining á pólitískum viðbrögðum Ísland og Bretlands á þessum tíma. Það er eitt sem ég hef verið ansi hugsi yfir síðan ég las Þorskastríðsgreinina. Þegar bresk herskip fylgdu breskum togurum inn í íslenska landhelgi á Þorskastríðsárunum hótuðu íslensk stjórnvöld því að herstöðinni í Keflavík yrði lokað sem og að Ísland myndi segja sig úr Nató. Þá var því einnig hótað að skerða stjórnmálasamband ríkjanna verulega. Af hverju fór ekki svipuð maskína í gang þegar Icesave kom upp?
Mótmæli Íslands í Þorskastríðunum voru byggð á tveimur greinum í Nató sáttmálanum. Grein 2 segir að aðildarríki skulu efla efnahagslegt samstarf á milli ríkja og "seek to eliminate conflict in their international economic policies" á góðri íslensku. Grein 5 er þekkt sem trigger grein sáttmálans og segir að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll og að þau komi hvort öðru til hjálpar við slíkar aðstæður. Greinarhöfundur vitnar í óþekktan Íslending sem sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru prófmál. Þær myndu sýna hvort Nató væri eingöngu hernaðarbandalag eða hvort það væri eitthvað þar fyrir Ísland líka. Nató reyndar gerði ekki neitt í því að leysa deiluna en það er svo önnur saga. Hótanirnar virkuðu fyrir því.
Icesave er annar conflictin sem Natóbandalagsþjóðirnar Ísland og Bretland eiga sín á milli. Ég held að það megi alveg líkja saman mikilvægi Þorskastríðanna og Icesave fyrir Íslendinga þó svo að málin séu ólík. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að viðbrögð Breta við Icesave, t.d. með beitingu hryðjuverkalaganna, brjóti í bága við greinar Natósáttmálans sem eru nefndar hér að ofan, sérstaklega þá nr. 2. Sumir myndu jafnvel halda því fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi jafngilt árás á Ísland og þar með brotið gegn grein númer 5.
Hvað gera íslensk stjórnvöld? Þau lúffa, segja já og amen og semja um Icesave. Mótmæli eru veikburða og gefa ekki gott dæmi um góða samningatækni. Ég myndi allavegana ekki vilja að þeir sem sömdu fyrir Íslands hönd í Icesave myndu semja um nokkurn skapaðan hlut fyrir mig. Aldrei þessu vant er ég sammála Guðna Ágústssyni sem sagði einhvers staðar að Ísland hefði átt að reka sendiherra Breta úr landi og hóta úrsögn úr Nató. Það má vera að taktík Breta hafi verið lúaleg og beri Gordon Brown ekki fagurt vitni en það gera viðbrögð íslenskra stjórnvalda ekki heldur. Þau hefðu betur mátt líta til viðbragða forvera sinna á tímum Þorskastríðanna. Þá létu Íslendingar ekki valta yfir sig og báru sigur úr býtum. Við vitum hins vegar ekki ennþá hvað Icesave samningurinn á eftir að kosta þjóðina mikið. Það er uppskeran sem fæst með því að láta valta yfir sig.