Á heimleið
Þá er loksins komið að því að ég komist heim í jólafrí. Ég skilaði tveimur ritgerðum inn í dag og á þá bara eina eftir sem ég ætla að klára í fríinu. Allt að verða klárt og bara smotterís frágangur eftir sem ég klára í fyrramálið. Ég vona að ég eigi eftir að geta lokað töskunni og mér finnst að ég eigi að fá verðlaun ef ég kemst alla leið á leiðarenda án þess að borga krónu (eða evru) í yfirvigt. Ef ég væri uppfinningamaður myndi ég finna upp svona Harry Potter tösku. Tösku sem væri lítil og nett, tæki endalaust við án þess að það sæist utan á henni eða að hún þyngdist um eitt gramm. Mig vantar pottþétt svoleiðis.
Stelpurnar eru nýfarnar. Við fórum saman út að borða og svo heim í smá spjall. Verður skrýtið að hitta þær ekki á hverjum degi. En ég hitti þær aftur í janúar og þangað til fæ ég að hitta allt fólkið mitt sem ég er búin að sakna svo mikið. Ég verð lent á Íslandinu góða eftir tæpa 16 tíma. Þá mega jólin koma :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli