17 desember 2008

Lærilær

Er búin að standa á haus í lærdómi undanfarna daga. Er búin með 3 verkefni af 5 og stefni á að klára eitt enn áður en ég fer heim. Ef það gengur upp skila ég 2 ritgerðum á föstudaginn og á þá bara eftir að klára eina í fríinu. Held að ég geti verið sátt við það. Er núna orðin stútfull af kvefi og er að reyna að finna allann þann sjálfsaga sem ég á til að einbeita mér að því að klára Tíbetritgerðina. Stefni á að geta sent hana í yfirlestur á hádegi á morgun.

Á þriðjudaginn hringdi leigusalinn í mig og bað mig um að geyma fyrir sig sófa. Hún sagði að hann væri lítill svo ég hélt að ég kæmi honum örugglega fyrir. Þetta er hins vegar lítill tungusófi sem ekki er hægt að snúa hvernig sem er. Passar fínt fyrir framan sjónvarpið en þá var svefnsófinn sem ég var með fyrir orðinn að veseni. Svo ég er búin að spóla hérna um gólfið á ullarsokkunum mínum að reyna að ýta til húsgögnum og koma öllu fyrir og svei mér þá ef það er ekki búið að lukkast ágætlega. Læt Turi og Rosönnu dæma um það á föstudagskvöldið en þá ætlum við að hafa smá jólakveðjuhitting. Mamma sendi mér hangikjöt, graflax og íslenskt nammi sem þær fá að smakka. Sumt af namminu er reyndar búið ef ég á að segja alveg eins og er. Maður getur ekki haldið sig frá eldhússkápunum endalaust þegar maður veit af einhverju góðu þar...

Engin ummæli: