28 febrúar 2009
26 febrúar 2009
Victims of Group Thinking
Ég var í Foreign Policy Analysis í dag og þar var meðal annars fjallað um group thinking. Ég held að Bjarni Ármanns hafi íslenskað það ágætlega í Kastljósviðtali sem hjarðhegðun. Leiðtoginn leggur línurnar og þeir sem eru í kringum hann samsinna öllu sem hann segir. Ekki endilega gegn betri vitund, heldur "hrífast" menn með andrúmsloftinu og leiðtoganum og hugsa ekki á gagnrýnin hátt um stefnu hans eða það sem um er rætt. Eru svo fastir í eigin hugsun að þeim tekst ekki að hugsa út fyrir rammann og sjá önnur sjónarmið. Dæmi um slíka hjarðhegðun má sjá í Zimbabve hjá Mugabe. Þeir eiga væntanlega ekki auðvelt uppdráttar sem tala gegn stefnu hans þar í landi. Annað dæmi er Hugo Chavez í Venesúela og Bush í Bandaríkjunum.
Íslendingurinn í mér glotti undir þessum umræðum. Davíð Oddsson er gott íslenskt dæmi um hjarðhegðun sem og sú pólitík sem hefur verið stunduð á Íslandi síðustu 20 ár eða svo. Flokkarnir eru flestir ef ekki allir fastir í eigin hugsun, geta ekki hugsað út fyrir rammann sem þeir hafa sett sér og er fyrirmunað að setja sig í spor annarra og skilja sjónarmið þeirra. Íslensk stjórnmál eru victims of group thinking - á góðri íslensku. Fyrir þá sem vilja lesa sér meira um þetta er bent á bók eftir Irving Janis sem heitir einmitt Victims of Group Think.
Þegar ég kom svo heim úr skólanum sá ég það í fjölmiðlum að pabbi hefði sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Viðbrögð við því voru nokkuð fyrirsjáanleg og hafa sést áður. Flokkaflakkari sem á ekkert erindi í pólitík. Rekst ekki vel í flokki. Stendur á sinni sannfæringu. Í ljósi lærdóms dagsins þá spyr ég mig hvort það sé betra til eftirspurnar, miðað við stöðu íslenskra stjórnmála í dag, að hafa fylgt hjörðinni eftir gagnrýnislaust eða að hafa synt á móti straumnum og rekist illa í flokki? Hvort er auðveldara að láta sig fljóta með straumnum eða synda á móti honum og standa á sínu? Í mínum huga er það alveg ljóst að hjörðin má missa sín á Alþingi. Við þurfum hinsvegar á hinum að halda, sem þora þegar aðrir þegja, hvar í flokki sem þeir standa.
Pabbi hefur að mínu mati unnið vinnuna sína vel síðan hann fór inn á þing. Staðan hefur oft verið tæp en ég held að ástæðan fyrir því að hann hefur alltaf farið inn aftur sé sú að hann vinni vel fyrir sitt kjördæmi. Þegar fólk veit hvurra manna ég er fæ ég oft að heyra ýmsar sögur af pabba. Sú nýjasta sem ég heyrði var að hann hafi verið eini þingmaður kjördæmisins sem hafi svarað þeim málefnum sem send voru til hans (og allra annarra þingmanna kjördæmisins) og reynt að stuðla að framgangi þess málaflokks inn á þingi. Sá aðili sem sagði mér þetta hefur aldrei kosið pabba enda eiga þingmenn að vinna að hagsmunum fleiri en sinna eigin kjósenda. Eins og kjördæmaskipanin er í dag eiga þingmenn að vera málsvarar síns kjördæmis og ég held að það sé ekki hægt að taka það af pabba að þar hafi hann staðið sig vel.
Litlir fuglar hvísla svo að mér annað slagið að þeir hafi kosið pabba þó svo að það viti það enginn. Þeir koma undantekningalaust úr fjölskyldum þar sem allir eiga að kjósa sjálfstæðisflokkinn og það er nánast dauðasök að svíkja lit. Annað gott dæmi um hjarðhegðun. Þá verð ég alltaf voðalega fegin að eiga fjölskyldu sem dettur ekki í hug að segja mér hvað ég á að kjósa og þar sem virðing er borin fyrir mismunandi skoðunum. Ég hef sagt það áður að ég á ekki eftir að gráta þá stund þegar pabbi hættir í pólitík. Hinsvegar hefur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir fólk á þingi sem getur staðið á sínu og hugsað á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt. Þá er kannski bara ágætt að hafa aldrei verið fastur í viðjum hjarðhegðunar íslenskra stjórnmála. Flokkaflakkari er því ekki endilega það versta sem hægt er að vera.
Birt af Erla Perla kl. 4:31 e.h. 0 skilaboð
23 febrúar 2009
Amma og Bogga
Þær systur eru mjög nánar og eru hvor annarri mikill félagsskapur. Illa hefur það fram yfir ömmu og Boggu að eiga mest af börnunum sínum og barnabörnum ennþá í Víkinni. Bogga hefur hinsvegar bara Óla Svan og Öldu ennþá á staðnum en við erum öll flogin burt börnin og barnabörnin hennar ömmu. Það er því ómetanlegt fyrir þær að eiga hvor aðra að. Núna er Bogga að fara að flytja í Hvíta húsið til hennar ömmu. Ekki í sömu íbúð reyndar en núna verða þær undir sama þaki sem ég held að öllum sem að þeim standa finnist alveg frábært. Bogga er víst með svo fínan sturtuklefa í nýju íbúðinni að amma getur farið upp til hennar í sturtu. Þar er hinsvegar lítil aðstaða til þess að bjóða fólki í mat en þá er heppilegt að fara niður til ömmu og elda og borða þar. Ég efast ekki um að nýtingin á íbúðunum verður góð þó svo þær verði eflaust mikið inná gafli hjá hvor annarri.
Þegar ég verð gömul ætla ég að verða eins og amma og Bogga. Ég ætla að fara í sundið, göngutúrana og fara á böll á Ísafjörð eins og þær - þó svo þau séu um miðjan dag. Svo ætla ég að sauma, prjóna og elda og horfa á handboltann þegar landsliðið er að spila. Það er alveg pottþétt að mér á aldrei eftir að leiðast enda held ég að þeim leiðist sjaldan blessuðum. Ég skora á þá Bolvíkinga sem þetta lesa að gefa ömmu og Boggu gott knús frá mér næst þegar þeir rekast á þær. Bjóða þeim jafnvel upp í dans eða taka með þeim eins og eitt lítið lag. Þær hefðu bara gaman af því. Bestu kveðjur heim í Víkina til fjallanna minna og fólksins :-)
Birt af Erla Perla kl. 3:56 e.h. 1 skilaboð
22 febrúar 2009
Ritgerðir og aftur ritgerðir
Þá er enn ein vikan að líða undir lok hérna í borginni. Þessi var nú með eindæmum róleg. Ég þurfti bara að mæta í skólann á þriðjudaginn þar sem búið var að gefa frí í tímunum sem ég er í á miðvikudögum og fimmtudögum. Næsta vika verður þó bara lengri fyrir vikið. Það verður tvöfaldur tími á miðvikudaginn til að vinna upp það sem við misstum úr í vikunni og þá er ég líka að fara á málþing um Rússland og Evrópusambandið. Fór fyrir tæpum hálfum mánuði á málþing um Afganistan og Pakistan sem var mjög fróðlegt og málfundurinn um Rússland er hluti af sömu fyrirlestraröð sem fjallar um Asíu og tengd málefni. Seinasta miðvikudag fór ég svo á fyrirlestur um Human Trafficking (þýðist það ekki bara sem mansal?) og hvernig tekið er á þeim málum innan ESB og í Belgíu. Það var mjög fróðlegur fyrirlestur og væri gaman að heyra hvernig þeim málum væri háttað heima á Íslandi. Það er eitthvað sem segir mér að við gætum lært mikið af Belgum og hvernig þeir taka á þessum málum.
Ég er svo að fara að hitta leiðbeinandann út af mastersritgerðinni í vikunni. Við eigum að skila 10-12 bls uppkasti að ritgerðinni eftir tæpar 3 vikur svo það er ekki seinna vænna að komast almennilega af stað í þá vinnu. Ég ætla mér að skrifa um þróunaraðstoð, menntun og menningu í mastersritgerðinni en er ekki alveg búin að njörva niður rannsóknarspurningu eða þrengja efnið meira en það. Er núna að skoða skýrslu á netinu um verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda og ætla að velta því aðeins fyrir mér áður en ég hitti prófessorinn. Svo er ég farin að velta fyrir mér efni í ritgerðirnar fjórar sem planið er að skila áður en ég kem næst heim. Hef reyndar bara frjálst val í einni þeirra, fæ lista af efni til að velja úr í hinum sem getur verið ágætt. Ætla að vera búin að velja mér endanlega efni undir lok næstu viku. Þó svo ég sé með ákveðnar hugmyndir þá ætla ég að klára næstu fyrirlestra áður en ég ákveð mig endanlega.
Annars er farið að styttast í vorið hérna á meginlandinu. Allar búðir orðnar fullar af vor- og sumarvörum í öllum regnbogans litum. Þrátt fyrir að hér sé stundum kalt þá finnst mér ég varla hafa upplifað neinn vetur. Ég hristi bara hausinn þegar skólafélagar mínir kvarta undan veðrinu og verð að viðurkenna að mér finnst þeir ekki kunna gott að meta. Kannski það sé eitthvað íslenskt element í manni að kvarta ekki og kveina þó svo að ekki sé sól og sæla á hverjum degi. Eða eins og ég sagði við einn vin minn hérna um daginn þegar hann var að kvarta undan rigningunni; þú værir ekki þakklátur fyrir sólina ef það væri aldrei rigning. Segi ég sem hef haldið því fram síðan ég flutti suður að það væri ALLTAF rigning í Reykjavík. En mér til málsbóta þá er ekki íslenskt rok í Belgíu sem skiptir alveg ótrúlega miklu máli í þessu samhengi.
En jæja, lærdómurinn bíður óþreyjufullur eftir mér. Bestu kveðjur heim í bollurnar og maskafjörið.
Birt af Erla Perla kl. 2:45 e.h. 0 skilaboð
19 febrúar 2009
Þetta litla dýr, hann Arnar Páll, á afmæli í dag og er orðinn 5 ára púkinn. Hann fær risa knús og kossa frá Brussel í tilefni dagsins. Hafðu það svakalega skemmtilegt í dag litli kall!
Birt af Erla Perla kl. 12:09 e.h. 0 skilaboð
18 febrúar 2009
Hjördísin mín klára á afmæli í dag og er orðin þrítug stúlkan. Hún fær hamingjuóskir, kossa og knús frá Brussel í tilefni dagsins. Hafðu það svakalega gott í dag skvís!
Birt af Erla Perla kl. 11:12 f.h. 0 skilaboð
14 febrúar 2009
Án titils.
Lífið gengur sinn vanagang hér í Brussel. Vikan byrjaði ekki vel en ég fékk þær fréttir að heiman að Gunna, systir hans pabba, hefði látist úr krabbameini. Þrátt fyrir að samskiptin hafi ekki alltaf verið mikil þá er alltaf erfitt að fá svona fréttir því maður vill alltaf fólkinu sínu vel. Hugurinn hefur því verið mikið heima á Íslandi, sérstaklega hjá Kötu og Haffa sem eru búin að missa mikið. Það er svo dálítið sérstakt að vera einn í útlöndum þegar svona atburðir gerast. Ég hefði alveg verið til í að geta kíkt í gott spjall til ömmu og mömmu og fá að hafa fólkið mitt hjá mér. Það er jú það dýrmætasta sem maður á og maður er þakklátur fyrir það að eiga svona góða að. En síminn verður að duga fram að næsta fríi.
Skólinn gengur bara vel. Einkunnirnar fyrir ritgerðirnar sem ég skrifaði fyrir jól eru byrjaðar að detta inn og enn sem komið er er ég mjög sátt. Á eftir að fá fyrir tvær ritgerðir og krossa fingur að þær hafi líka gengið vel. Næsta vika fer mikið til í það að undirbúa þær ritgerðir sem ég á að skrifa þessa önnina og byrja á undirbúningsvinnu fyrir mastersritgerðina. Er búin að velja mér ritgerðarefni fyrir mastersritgerðina og er búin að fá úthlutað prófessor sem verður leiðbeinandi minn í gegnum ferlið. Sú er reyndar nýbyrjuð að kenna við skólann og ég hef ekki hugmynd um hver hún er en ég hef heyrt góðar sögur af henni. Það er sagt að það sé mikill kraftur í henni og það ætti að henta mér vel enda ég lítið í dútlinu þegar kemur að því að gera hlutina.
Þorrablót Íslendingafélagsins hérna í Brussel var í gær. Þetta var ágæt skemmtun og ég er fegin að ég dreif mig. Fékk nefnilegast móral um leið og ég var búin að borga miðann því þetta kostaði meira en ég er vön að eyða á viku í mat. Segi kannski ekki að þetta hafi verið hverrar evru virði en þetta var gaman. Það var einungis þorramatur á borðstólnum sem mér fannst nokkuð sérstakt enda hópur af útlendingum þarna. Ég gat borðað flatkökur, hangikjöt og harðfisk. Lagði ekki í sviðin enda nokkuð viss um að mamma eða amma hefðu ekki komið að matseldinni á þeim. Það var svo raðað til borðs og ég lenti alein á borði með fullt af fólki sem ég þekkti ekki neitt. Það reyndist þó vera söngelskasta borðið og þetta var ágætt þó svo ég hafi nú ekki átt mikla samleið með þessu liði að öðru leyti. Stebbi og Eyfi sungu svo nokkur lög og það var gaman af þeim eins og venjulega.
Á fimmtudagskvöldið var svo fyrsti hittingurinn hjá hóp sem einn doktorsneminn, hann Marty, er búinn að setja saman. Hann sá um umræðutíma í IRT og bauð okkur sem honum þótti virkust í þeim tímum til að hafa reglulega hittinga heima hjá sér til að skiptast á skoðunum á ýmsum málefnum. Mér fannst dáldið skondið að hann skyldi bjóða mér. Við vorum venjulega bara 3 í hópatímanum sem ég var í og höfðum lítið val um það hvort við vorum virk eða ekki. Við urðum einfaldlega að vera undirbúin og segja eitthvað. Þetta var hins vegar mjög gaman og það eiga eflaust eftir að vera mjög líflegar umræður í þessum hóp. Nógu mikið fóru þær á flug þegar við vorum að velja okkur efni til að tala um!
En jæja, ég fékk lánaða spennandi bók hjá konunni hans Marty og ætla að fara að hefja lesturinn. Þangað til næst, veriði góð hvort við annað.
Birt af Erla Perla kl. 10:19 e.h. 0 skilaboð
10 febrúar 2009
Kveðja
Ég sendi þér kæra kveðju
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði nú sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikindaviðjum
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár er ég hafði
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margt að minnast
svo margt um huga minn fer.
Þó þú sért horfin úr heimi
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
ÞS.
Hvíl í friði elsku Gunna og megi góður guð gefa börnunum þínum styrk til að takast á við sorgina.
Birt af Erla Perla kl. 3:29 e.h. 0 skilaboð
09 febrúar 2009
Kannski bara eitthvað annað...
Ég fór og hitti Monu í morgun. Við vorum alveg sammála um að sleppa bara bankastjórastöðunni. Ekki það að ég hefði ekki höndlað jobbið, ég hef bara engann áhuga á golfi og enn minni á laxveiðum. Svo finnst mér alveg agalega leiðinlegt að keyra jeppa þannig að við ákváðum að ég væri kannski ekki týpan í starfið. Ég er hins vegar komin með ágæta hugmynd um hvað mig langar að gera í framtíðinni og að sjálfsögðu er það á sviði sem verður einna verst úti í niðurskurði á ríkisfjármálum. Sniðug Erla. En Mona hjálpaði mér fullt og við skráðum niður ýmsar hugmyndir og settum niður áætlun sem ég ætla að fylgja á meðan ég er að fikra mig áfram í þessu. Ég klára ekki skólann fyrr en í ágúst svo það er nógur tími til stefnu.
Annars verð ég að nefna eina hugmynd sem Mona kom með. Þú getur svo alltaf sótt um að vera aðstoðarmaður þingmanns! Hósthóst. Í útlöndum þykir það nefnilega alveg eðlilegt að þingmenn séu með aðstoðarmenn í fullu starfi. Aðstoðarmenn sem eru tengiliðir við kjósendur og vinna að þeim málaflokkum sem viðkomandi sérhæfir sig í. Ég fór mjög pent í að útskýra það fyrir henni að á Íslandi væri þetta hálfgert tabú. Þetta væri nýtilkomið og væru aðeins 30% störf og yrði væntanlega lagt niður fljótlega. Hún horfði á mig steinhissa. Nú af hverju? Já góð spurning. Ætli það sé ekki út af því að margir halda að þingmenn hafi ekkert að gera þegar það eru ekki þingfundir. Ég ákvað að sleppa því að segja henni að þetta álit fólks væri væntanlega tilkomið vegna þeirra svörtu sauða sem hafa setið á Alþingi sem sinna vinnunni sinni ekkert svakalega vel. Eru ekkert að vinna fyrir kjósendur sína og eru í nokkurskonar áskrift að atkvæðunum sínum og dunda sér við ýmis gæluverkefni þess á milli. Hún hefði örugglega ekkert skilið það. Svoleiðis fólk er nefnilegast ekki endurkjörið í útlöndum. Merkilegur andskoti.
Birt af Erla Perla kl. 1:01 e.h. 0 skilaboð
05 febrúar 2009
Bankastjóri?
Mikið svakalega finnst mér það fallega gert af Landsbankamönnum að bíða með að auglýsa eftir nýjum bankastjóra þangað til í haust. Þá veit ég allavegana af einu djobbi sem verður á markaðnum þegar ég stefni á að koma heim og leita mér að vinnu. Ég hef svo sem ekkert svakalega reynslu af bankarekstri eða viðskiptafræði almennt en ég er réttsýn og heiðarleg og kem ekki til með að stela af þjóðinni. Held að það hljóti að teljast umtalsverður kostur. Það, með skvettu af almennri skynsemi og gagnrýnni hugsun, held ég að komi manni ansi langt. Forðar manni frá því að fjárfesta í einhverri vitleysu sem meikar engan sense og gambla með almannafé. Svo kem ég til með að útskrifast með master í alþjóðasamskiptum og það er ekki vanþörf á því þegar alþjóðleg ímynd bankans er rjúkandi rústir einar.
En að öllu gamni slepptu þá er víst rétt að byrja að íhuga það hvað maður ætlar að gera að loknu námi. Á tíma hjá ráðgjafa sem vinnur fyrir skólann við að aðstoða okkur í atvinnuleit og öðru á mánudaginn og ætla að reyna að nýta hann vel. Hún sérhæfir sig að vísu í atvinnumarkaðinum hérna í Brussel, sem ég er ekkert úber spennt yfir, en hún ætti samt sem áður að geta gefið mér góðar ráðleggingar varðandi atvinnuleit í fjöldaatvinnuleysi þegar maður er lítill fiskur í stórum sjó. Annars hef ég engar stórkostlegar áhyggjur af þessu. Gott fólk fær alltaf vinnu, maður þarf bara að undirbúa sig mjög vel. Annars er ég alveg á því að ég væri varla verri bankastjóri en hver annar. Ég mæti kannski bara með þá tillögu á fundinn með Monu á mánudaginn.
Birt af Erla Perla kl. 9:58 e.h. 1 skilaboð
04 febrúar 2009
Stjórn LÍN vikið frá
Katrín Jakobs byrjar af krafti og er búin að víkja stjórn LÍN frá völdum - og þó fyrr hefði verið segi ég nú bara. Hún var eina manneskjan innan menntamálanefndar Alþingis sem hlustaði á okkur námsmenn erlendis þegar bankahrunið dundi yfir í haust og sýndi okkur þá virðingu að svara þeim skilaboðum sem menntamálaráðherra og menntamálanefnd voru send. Nú hefur hún tök á að gera eitthvað í málunum og ég bíð spennt eftir að sjá hvað hún gerir. En hún byrjar vel stelpan.
Það er ekki mikill missir af Sigurði Kára úr þessum málaflokki. Hann þrumaði yfir okkur sem mættum á jólafund SÍNE og skildi ekkert í því yfir hverju við vorum að kvarta. Las upp tillögur menntamálanefndar sem áttu að vera til hagsbóta fyrir námsmenn erlendis - en nýttust að vísu öllum námsmönnum sem er bara gott. Við höfðum hins vegar öll rekið okkur á það að það tvennt sem átti helst að hjálpa námsmönnum, lækkun á tekjuskerðingu og neyðarlánin alræmdu, stóðu ekki undir nafni. Lækkun á tekjuskerðingu var bara fyrir þá sem hófu nám 2009 en ekki þá sem voru við nám fyrir og neyðarlánin voru náttla bara djók frá upphafi til enda. Við bentum honum á það og hann gat lítið sagt annað en já þetta er líklegast rétt hjá ykkur. Engar hugmyndir að úrbótum, engar lausnir og hann gerði ekkert í framhaldi af fundinum þrátt fyrir að þar hafi komið glögglega í ljós að tillögur nefndarinnar höfðu ekki staðist í framkvæmd eins og þær voru kannski hugsaðar. Hann var bara pirraður og var sjálfum sér ekki til sóma. Spurning hvort að flokkurinn hafi verið ánægður með hann samt. Er það ekki fyrir öllu?
En eins og áður sagði er ég ánægð með Katrínu. Það verður spennandi að fylgjast með þessari stjórn fram að kosningum og það er vonandi að það verði einhver samkeppni um atkvæðið manns. Það er varla að maður nenni að drattast á kjörstað ef stjórnmálamenn landsins fara ekki að haga sér eins og fólk og sýna að þeir eru þarna til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar en ekki til að fóðra sinn eigin flokk.
Birt af Erla Perla kl. 5:01 e.h. 0 skilaboð
02 febrúar 2009
Birt af Erla Perla kl. 12:31 e.h. 0 skilaboð