Stjórn LÍN vikið frá
Katrín Jakobs byrjar af krafti og er búin að víkja stjórn LÍN frá völdum - og þó fyrr hefði verið segi ég nú bara. Hún var eina manneskjan innan menntamálanefndar Alþingis sem hlustaði á okkur námsmenn erlendis þegar bankahrunið dundi yfir í haust og sýndi okkur þá virðingu að svara þeim skilaboðum sem menntamálaráðherra og menntamálanefnd voru send. Nú hefur hún tök á að gera eitthvað í málunum og ég bíð spennt eftir að sjá hvað hún gerir. En hún byrjar vel stelpan.
Það er ekki mikill missir af Sigurði Kára úr þessum málaflokki. Hann þrumaði yfir okkur sem mættum á jólafund SÍNE og skildi ekkert í því yfir hverju við vorum að kvarta. Las upp tillögur menntamálanefndar sem áttu að vera til hagsbóta fyrir námsmenn erlendis - en nýttust að vísu öllum námsmönnum sem er bara gott. Við höfðum hins vegar öll rekið okkur á það að það tvennt sem átti helst að hjálpa námsmönnum, lækkun á tekjuskerðingu og neyðarlánin alræmdu, stóðu ekki undir nafni. Lækkun á tekjuskerðingu var bara fyrir þá sem hófu nám 2009 en ekki þá sem voru við nám fyrir og neyðarlánin voru náttla bara djók frá upphafi til enda. Við bentum honum á það og hann gat lítið sagt annað en já þetta er líklegast rétt hjá ykkur. Engar hugmyndir að úrbótum, engar lausnir og hann gerði ekkert í framhaldi af fundinum þrátt fyrir að þar hafi komið glögglega í ljós að tillögur nefndarinnar höfðu ekki staðist í framkvæmd eins og þær voru kannski hugsaðar. Hann var bara pirraður og var sjálfum sér ekki til sóma. Spurning hvort að flokkurinn hafi verið ánægður með hann samt. Er það ekki fyrir öllu?
En eins og áður sagði er ég ánægð með Katrínu. Það verður spennandi að fylgjast með þessari stjórn fram að kosningum og það er vonandi að það verði einhver samkeppni um atkvæðið manns. Það er varla að maður nenni að drattast á kjörstað ef stjórnmálamenn landsins fara ekki að haga sér eins og fólk og sýna að þeir eru þarna til að vinna að hagsmunum þjóðarinnar en ekki til að fóðra sinn eigin flokk.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli