26 febrúar 2009

Victims of Group Thinking

Ég var í Foreign Policy Analysis í dag og þar var meðal annars fjallað um group thinking. Ég held að Bjarni Ármanns hafi íslenskað það ágætlega í Kastljósviðtali sem hjarðhegðun. Leiðtoginn leggur línurnar og þeir sem eru í kringum hann samsinna öllu sem hann segir. Ekki endilega gegn betri vitund, heldur "hrífast" menn með andrúmsloftinu og leiðtoganum og hugsa ekki á gagnrýnin hátt um stefnu hans eða það sem um er rætt. Eru svo fastir í eigin hugsun að þeim tekst ekki að hugsa út fyrir rammann og sjá önnur sjónarmið. Dæmi um slíka hjarðhegðun má sjá í Zimbabve hjá Mugabe. Þeir eiga væntanlega ekki auðvelt uppdráttar sem tala gegn stefnu hans þar í landi. Annað dæmi er Hugo Chavez í Venesúela og Bush í Bandaríkjunum.

Íslendingurinn í mér glotti undir þessum umræðum. Davíð Oddsson er gott íslenskt dæmi um hjarðhegðun sem og sú pólitík sem hefur verið stunduð á Íslandi síðustu 20 ár eða svo. Flokkarnir eru flestir ef ekki allir fastir í eigin hugsun, geta ekki hugsað út fyrir rammann sem þeir hafa sett sér og er fyrirmunað að setja sig í spor annarra og skilja sjónarmið þeirra. Íslensk stjórnmál eru victims of group thinking - á góðri íslensku. Fyrir þá sem vilja lesa sér meira um þetta er bent á bók eftir Irving Janis sem heitir einmitt Victims of Group Think.

Þegar ég kom svo heim úr skólanum sá ég það í fjölmiðlum að pabbi hefði sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Viðbrögð við því voru nokkuð fyrirsjáanleg og hafa sést áður. Flokkaflakkari sem á ekkert erindi í pólitík. Rekst ekki vel í flokki. Stendur á sinni sannfæringu. Í ljósi lærdóms dagsins þá spyr ég mig hvort það sé betra til eftirspurnar, miðað við stöðu íslenskra stjórnmála í dag, að hafa fylgt hjörðinni eftir gagnrýnislaust eða að hafa synt á móti straumnum og rekist illa í flokki? Hvort er auðveldara að láta sig fljóta með straumnum eða synda á móti honum og standa á sínu? Í mínum huga er það alveg ljóst að hjörðin má missa sín á Alþingi. Við þurfum hinsvegar á hinum að halda, sem þora þegar aðrir þegja, hvar í flokki sem þeir standa.

Pabbi hefur að mínu mati unnið vinnuna sína vel síðan hann fór inn á þing. Staðan hefur oft verið tæp en ég held að ástæðan fyrir því að hann hefur alltaf farið inn aftur sé sú að hann vinni vel fyrir sitt kjördæmi. Þegar fólk veit hvurra manna ég er fæ ég oft að heyra ýmsar sögur af pabba. Sú nýjasta sem ég heyrði var að hann hafi verið eini þingmaður kjördæmisins sem hafi svarað þeim málefnum sem send voru til hans (og allra annarra þingmanna kjördæmisins) og reynt að stuðla að framgangi þess málaflokks inn á þingi. Sá aðili sem sagði mér þetta hefur aldrei kosið pabba enda eiga þingmenn að vinna að hagsmunum fleiri en sinna eigin kjósenda. Eins og kjördæmaskipanin er í dag eiga þingmenn að vera málsvarar síns kjördæmis og ég held að það sé ekki hægt að taka það af pabba að þar hafi hann staðið sig vel.

Litlir fuglar hvísla svo að mér annað slagið að þeir hafi kosið pabba þó svo að það viti það enginn. Þeir koma undantekningalaust úr fjölskyldum þar sem allir eiga að kjósa sjálfstæðisflokkinn og það er nánast dauðasök að svíkja lit. Annað gott dæmi um hjarðhegðun. Þá verð ég alltaf voðalega fegin að eiga fjölskyldu sem dettur ekki í hug að segja mér hvað ég á að kjósa og þar sem virðing er borin fyrir mismunandi skoðunum. Ég hef sagt það áður að ég á ekki eftir að gráta þá stund þegar pabbi hættir í pólitík. Hinsvegar hefur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir fólk á þingi sem getur staðið á sínu og hugsað á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt. Þá er kannski bara ágætt að hafa aldrei verið fastur í viðjum hjarðhegðunar íslenskra stjórnmála. Flokkaflakkari er því ekki endilega það versta sem hægt er að vera.

Engin ummæli: