Án titils.
Lífið gengur sinn vanagang hér í Brussel. Vikan byrjaði ekki vel en ég fékk þær fréttir að heiman að Gunna, systir hans pabba, hefði látist úr krabbameini. Þrátt fyrir að samskiptin hafi ekki alltaf verið mikil þá er alltaf erfitt að fá svona fréttir því maður vill alltaf fólkinu sínu vel. Hugurinn hefur því verið mikið heima á Íslandi, sérstaklega hjá Kötu og Haffa sem eru búin að missa mikið. Það er svo dálítið sérstakt að vera einn í útlöndum þegar svona atburðir gerast. Ég hefði alveg verið til í að geta kíkt í gott spjall til ömmu og mömmu og fá að hafa fólkið mitt hjá mér. Það er jú það dýrmætasta sem maður á og maður er þakklátur fyrir það að eiga svona góða að. En síminn verður að duga fram að næsta fríi.
Skólinn gengur bara vel. Einkunnirnar fyrir ritgerðirnar sem ég skrifaði fyrir jól eru byrjaðar að detta inn og enn sem komið er er ég mjög sátt. Á eftir að fá fyrir tvær ritgerðir og krossa fingur að þær hafi líka gengið vel. Næsta vika fer mikið til í það að undirbúa þær ritgerðir sem ég á að skrifa þessa önnina og byrja á undirbúningsvinnu fyrir mastersritgerðina. Er búin að velja mér ritgerðarefni fyrir mastersritgerðina og er búin að fá úthlutað prófessor sem verður leiðbeinandi minn í gegnum ferlið. Sú er reyndar nýbyrjuð að kenna við skólann og ég hef ekki hugmynd um hver hún er en ég hef heyrt góðar sögur af henni. Það er sagt að það sé mikill kraftur í henni og það ætti að henta mér vel enda ég lítið í dútlinu þegar kemur að því að gera hlutina.
Þorrablót Íslendingafélagsins hérna í Brussel var í gær. Þetta var ágæt skemmtun og ég er fegin að ég dreif mig. Fékk nefnilegast móral um leið og ég var búin að borga miðann því þetta kostaði meira en ég er vön að eyða á viku í mat. Segi kannski ekki að þetta hafi verið hverrar evru virði en þetta var gaman. Það var einungis þorramatur á borðstólnum sem mér fannst nokkuð sérstakt enda hópur af útlendingum þarna. Ég gat borðað flatkökur, hangikjöt og harðfisk. Lagði ekki í sviðin enda nokkuð viss um að mamma eða amma hefðu ekki komið að matseldinni á þeim. Það var svo raðað til borðs og ég lenti alein á borði með fullt af fólki sem ég þekkti ekki neitt. Það reyndist þó vera söngelskasta borðið og þetta var ágætt þó svo ég hafi nú ekki átt mikla samleið með þessu liði að öðru leyti. Stebbi og Eyfi sungu svo nokkur lög og það var gaman af þeim eins og venjulega.
Á fimmtudagskvöldið var svo fyrsti hittingurinn hjá hóp sem einn doktorsneminn, hann Marty, er búinn að setja saman. Hann sá um umræðutíma í IRT og bauð okkur sem honum þótti virkust í þeim tímum til að hafa reglulega hittinga heima hjá sér til að skiptast á skoðunum á ýmsum málefnum. Mér fannst dáldið skondið að hann skyldi bjóða mér. Við vorum venjulega bara 3 í hópatímanum sem ég var í og höfðum lítið val um það hvort við vorum virk eða ekki. Við urðum einfaldlega að vera undirbúin og segja eitthvað. Þetta var hins vegar mjög gaman og það eiga eflaust eftir að vera mjög líflegar umræður í þessum hóp. Nógu mikið fóru þær á flug þegar við vorum að velja okkur efni til að tala um!
En jæja, ég fékk lánaða spennandi bók hjá konunni hans Marty og ætla að fara að hefja lesturinn. Þangað til næst, veriði góð hvort við annað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli