Kannski bara eitthvað annað...
Ég fór og hitti Monu í morgun. Við vorum alveg sammála um að sleppa bara bankastjórastöðunni. Ekki það að ég hefði ekki höndlað jobbið, ég hef bara engann áhuga á golfi og enn minni á laxveiðum. Svo finnst mér alveg agalega leiðinlegt að keyra jeppa þannig að við ákváðum að ég væri kannski ekki týpan í starfið. Ég er hins vegar komin með ágæta hugmynd um hvað mig langar að gera í framtíðinni og að sjálfsögðu er það á sviði sem verður einna verst úti í niðurskurði á ríkisfjármálum. Sniðug Erla. En Mona hjálpaði mér fullt og við skráðum niður ýmsar hugmyndir og settum niður áætlun sem ég ætla að fylgja á meðan ég er að fikra mig áfram í þessu. Ég klára ekki skólann fyrr en í ágúst svo það er nógur tími til stefnu.
Annars verð ég að nefna eina hugmynd sem Mona kom með. Þú getur svo alltaf sótt um að vera aðstoðarmaður þingmanns! Hósthóst. Í útlöndum þykir það nefnilega alveg eðlilegt að þingmenn séu með aðstoðarmenn í fullu starfi. Aðstoðarmenn sem eru tengiliðir við kjósendur og vinna að þeim málaflokkum sem viðkomandi sérhæfir sig í. Ég fór mjög pent í að útskýra það fyrir henni að á Íslandi væri þetta hálfgert tabú. Þetta væri nýtilkomið og væru aðeins 30% störf og yrði væntanlega lagt niður fljótlega. Hún horfði á mig steinhissa. Nú af hverju? Já góð spurning. Ætli það sé ekki út af því að margir halda að þingmenn hafi ekkert að gera þegar það eru ekki þingfundir. Ég ákvað að sleppa því að segja henni að þetta álit fólks væri væntanlega tilkomið vegna þeirra svörtu sauða sem hafa setið á Alþingi sem sinna vinnunni sinni ekkert svakalega vel. Eru ekkert að vinna fyrir kjósendur sína og eru í nokkurskonar áskrift að atkvæðunum sínum og dunda sér við ýmis gæluverkefni þess á milli. Hún hefði örugglega ekkert skilið það. Svoleiðis fólk er nefnilegast ekki endurkjörið í útlöndum. Merkilegur andskoti.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli