23 febrúar 2009

Amma og Bogga


Flestir þeir sem þekkja mig vita að ég og amma mín og nafna erum miklar vinkonur. Við spjöllum saman í síma að minnsta kosti einu sinni í viku og höldum góðu sambandi þó svo að langt sé á milli okkar. Amma hefur meira að segja afrekað það að koma með mér á Þjóðhátíð, sælla minninga, en ég hef haft það fyrir sið að hringja í ömmu í brekkusöngnum og syngja með henni í gegnum símann. Ég reyndi nokkrum sinnum að hringja í ömmu í seinustu viku og aldrei var kellan heima. Ég var farin að velta því fyrir mér að lýsa eftir henni á blogginu eða Facebook en svo fann ég hana hjá Boggu.

Þær systur eru mjög nánar og eru hvor annarri mikill félagsskapur. Illa hefur það fram yfir ömmu og Boggu að eiga mest af börnunum sínum og barnabörnum ennþá í Víkinni. Bogga hefur hinsvegar bara Óla Svan og Öldu ennþá á staðnum en við erum öll flogin burt börnin og barnabörnin hennar ömmu. Það er því ómetanlegt fyrir þær að eiga hvor aðra að. Núna er Bogga að fara að flytja í Hvíta húsið til hennar ömmu. Ekki í sömu íbúð reyndar en núna verða þær undir sama þaki sem ég held að öllum sem að þeim standa finnist alveg frábært. Bogga er víst með svo fínan sturtuklefa í nýju íbúðinni að amma getur farið upp til hennar í sturtu. Þar er hinsvegar lítil aðstaða til þess að bjóða fólki í mat en þá er heppilegt að fara niður til ömmu og elda og borða þar. Ég efast ekki um að nýtingin á íbúðunum verður góð þó svo þær verði eflaust mikið inná gafli hjá hvor annarri.

Þegar ég verð gömul ætla ég að verða eins og amma og Bogga. Ég ætla að fara í sundið, göngutúrana og fara á böll á Ísafjörð eins og þær - þó svo þau séu um miðjan dag. Svo ætla ég að sauma, prjóna og elda og horfa á handboltann þegar landsliðið er að spila. Það er alveg pottþétt að mér á aldrei eftir að leiðast enda held ég að þeim leiðist sjaldan blessuðum. Ég skora á þá Bolvíkinga sem þetta lesa að gefa ömmu og Boggu gott knús frá mér næst þegar þeir rekast á þær. Bjóða þeim jafnvel upp í dans eða taka með þeim eins og eitt lítið lag. Þær hefðu bara gaman af því. Bestu kveðjur heim í Víkina til fjallanna minna og fólksins :-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæ Erla
Mikið er gaman að lesa það sem þú ert að skrifa yndisleg, enda eru mamma og Bogga alveg yndislegar. Kannski prenta ég þetta út og sendi mömmu þetta í pósti.
Bestu kveðjur
Kolla