22 febrúar 2009

Ritgerðir og aftur ritgerðir

Þá er enn ein vikan að líða undir lok hérna í borginni. Þessi var nú með eindæmum róleg. Ég þurfti bara að mæta í skólann á þriðjudaginn þar sem búið var að gefa frí í tímunum sem ég er í á miðvikudögum og fimmtudögum. Næsta vika verður þó bara lengri fyrir vikið. Það verður tvöfaldur tími á miðvikudaginn til að vinna upp það sem við misstum úr í vikunni og þá er ég líka að fara á málþing um Rússland og Evrópusambandið. Fór fyrir tæpum hálfum mánuði á málþing um Afganistan og Pakistan sem var mjög fróðlegt og málfundurinn um Rússland er hluti af sömu fyrirlestraröð sem fjallar um Asíu og tengd málefni. Seinasta miðvikudag fór ég svo á fyrirlestur um Human Trafficking (þýðist það ekki bara sem mansal?) og hvernig tekið er á þeim málum innan ESB og í Belgíu. Það var mjög fróðlegur fyrirlestur og væri gaman að heyra hvernig þeim málum væri háttað heima á Íslandi. Það er eitthvað sem segir mér að við gætum lært mikið af Belgum og hvernig þeir taka á þessum málum.

Ég er svo að fara að hitta leiðbeinandann út af mastersritgerðinni í vikunni. Við eigum að skila 10-12 bls uppkasti að ritgerðinni eftir tæpar 3 vikur svo það er ekki seinna vænna að komast almennilega af stað í þá vinnu. Ég ætla mér að skrifa um þróunaraðstoð, menntun og menningu í mastersritgerðinni en er ekki alveg búin að njörva niður rannsóknarspurningu eða þrengja efnið meira en það. Er núna að skoða skýrslu á netinu um verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda og ætla að velta því aðeins fyrir mér áður en ég hitti prófessorinn. Svo er ég farin að velta fyrir mér efni í ritgerðirnar fjórar sem planið er að skila áður en ég kem næst heim. Hef reyndar bara frjálst val í einni þeirra, fæ lista af efni til að velja úr í hinum sem getur verið ágætt. Ætla að vera búin að velja mér endanlega efni undir lok næstu viku. Þó svo ég sé með ákveðnar hugmyndir þá ætla ég að klára næstu fyrirlestra áður en ég ákveð mig endanlega.

Annars er farið að styttast í vorið hérna á meginlandinu. Allar búðir orðnar fullar af vor- og sumarvörum í öllum regnbogans litum. Þrátt fyrir að hér sé stundum kalt þá finnst mér ég varla hafa upplifað neinn vetur. Ég hristi bara hausinn þegar skólafélagar mínir kvarta undan veðrinu og verð að viðurkenna að mér finnst þeir ekki kunna gott að meta. Kannski það sé eitthvað íslenskt element í manni að kvarta ekki og kveina þó svo að ekki sé sól og sæla á hverjum degi. Eða eins og ég sagði við einn vin minn hérna um daginn þegar hann var að kvarta undan rigningunni; þú værir ekki þakklátur fyrir sólina ef það væri aldrei rigning. Segi ég sem hef haldið því fram síðan ég flutti suður að það væri ALLTAF rigning í Reykjavík. En mér til málsbóta þá er ekki íslenskt rok í Belgíu sem skiptir alveg ótrúlega miklu máli í þessu samhengi.

En jæja, lærdómurinn bíður óþreyjufullur eftir mér. Bestu kveðjur heim í bollurnar og maskafjörið.

Engin ummæli: