17 febrúar 2003

Úff, ég er gjörsamlega búin að standa á haus í dag! Var að klára að setja saman seinustu prófin og þurfti svo að láta allt heila klabbið sem ég gerði yfir helgina í ljósritun. Ég var svo með 2 próf í morgun og þurfti að fara yfir annað prófið með Dóru Línu. Fyrir þá sem ekki vita þá sér hún um íslenskuna í 7. bekk með mér - og er gamli umsjónarkennarinn minn. Kenndi mér þegar ég var 8 ára! Það tók sinn tíma og ég á alveg eftir að fara yfir hitt prófið og ganga almennilega frá þeim prófum sem ég verð með á morgun.Verð með 3 próf þá - þannig að það er eins gott að ég nái að fara yfir allt í dag! Ég ætla að skrópa í leikfimi og vinna lengur. Fer kannski bara í hopputíma á morgun í staðin - ef ég næ því... Ég fer þá bara hinn daginn :p

Það er allavegana farið að sjást fyrir endan á þessari önn. Það er kúttmagakvöld á laugardaginn og kvennakórinn ætlar að sjá um konukvöld fyrir okkur konurnar svo við fáum eitthvað djamm. Kúttmagakvöld er skemmtikvöld karlanna í bænum. Undanfarin ár hafa verið haldin konukvöld á sama tíma og síðan hittist allt liðið á balli í félagsheimilinu. Við hérna ,,yngri" stelpurnar á kennarastofunni erum búnar að ákveða að hrynja í það! Ákváðum það í nammiferðinni áðan :p Verður eflaust geðveik stemming - maður verður að hita upp fyrir bæjarferðina ;) Það verður fróðlegt að sjá gamla liðið hérna á kennarastofunni á almennilegu djammi - það voru nefnilegast allir svo settlegir þegar við djömmuðum í haust.

Jæja, ég ætla að fara að halda áfram að vinna. Verð að vera búin fyrir kvöldmat því að amma var að koma heim og loksins fæ ég eitthvað almennilegt að borða! Ég var orðin svo spennt að fá gott að borða í gær - en amma ætlaði að koma þá - en þá var náttúrulega ekkert flogið. Ég skellti mér því inn á Ísafjörð og fór á Thai Koon. Fattaði reyndar þegar ég var komin inn að vita að það var bálhvasst og sjórinn gekk yfir veginn annað slagið.. En það reddaðist :p

Engin ummæli: