ÉG KOMST INN Í KENNÓ!!!!!!!
Það liggur við að ég byrji að pakka niður strax! Er ekkert smá ánægð :) Ég get allavegana byrjað að dunda mér við að pakka niður í kassa þegar ég á frí. Ætla líka að athuga hvort að bókalistarnir séu komnir inn á netið. Ætla að redda mér bókum og byrja að læra.
Annars er það helst að frétta af mér að mér leiddist alveg hrikalega hérna á föstudaginn. Var búin að þrífa allt sem hægt var að þrífa - fann meira að segja einnota myndavélina sem ég týndi á páskunum... Þegar ég var búin að þrífa hringdi ég í mömmu til að tékka á því hvort að Röggi væri á leiðinni vestur. Svo reyndist ekki vera svo ég hringdi í pabba til að tékka hvort hann væri farinn af stað suður og skellti mér með honum. Við keyrðum suður á föstudagskvöldið og aftur vestur í dag. Þetta var bara fínt. Ég kíkti aðeins á djammið á laugardaginn. Rölti um allan bæinn og skoðaði mannlífið. Mér fannst þetta djamm í bænum vera orðið heldur þunnt eitthvað. Sá það alveg að ég er ekki að missa af neinu með því að vera hérna fyrir vestan. Þetta var samt fínt en eitthvað fór lítið fyrir myndarlegum aðilum af hinu kyninu. Ég var allavegana ekkert að sjá þá!!
Annars hafði ég það bara gott heima hjá mömmu. Kíkti bara rétt aðeins í búðir og verslaði pínku lítið.
Ég hef nú ekki mikið fylgst með fréttum en heitasta málið í dag er víst einhver barnaníðingur skilst mér. Eitthvað er fólk að pirra sig á því að það skuli vera nafnleynd í svona kynferðisbrotamálum. Ég á að vísu ekki börn en þarna styð ég yfirvöld. Það er góð ástæða fyrir því að þetta er svona. Í Bretlandi voru nöfn og búseta barnaníðinga birt í fjölmiðlum og úr því varð mikil múgæsing. Reiðir foreldrar fóru að taka lögin í sínar hendur og barnaníðingarnir fóru í felur. Það erfiðaði starf lögreglunnar til mikilla muna því að fyrir þessa birtingu var þessi skrá til hjá yfirvöldum og þau fylgdust með þessum mönnum. Eftir að þessar upplýsingar láku út vissi ekki einu sinni löggan hvar barnaníðingarnir voru og það getur ekki verið til hagsbóta fyrir nokkurn mann. Ég held að það besta sem foreldrar geti gert sé að tala opinskátt um kynlíf við börn sín, þ.e. á þann hátt að þau skilji að þetta sé eðlilegur hlutur hjá FULLORÐNU fólki og ef einhver fullorðin vilji fá að snerta þau eða eitthvað álíka eigi þau að segja frá því. Ég held að það sé engin lausn að birta nöfn barnaníðinga því að fæstir af þeim hafa verið dæmdir. Það verður að gefa börnunum smá kredit og útskýra hlutina fyrir þeim á þann hátt að þau skilji. Þetta hugsa ég að fæstir - ef einhver - geri því að almennt finnst fólki óþægilegt að tala um kynferðismál. En ef foreldrarnir ræða ekki kynferðismál við börnin sín þá gerir það bara einhver annar - og hver veit hvaða hugmyndir sá aðili kemur inn hjá þeim..
Gunnar Smári, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði ansi fróðlegan leiðara í blaðið í síðustu viku. Þar var hann að fjalla um þá kröfu sem er vaxandi í samfélaginu að þyngja beri dóma á Íslandi. Þar sagði hann að það væri eins og það væri manninum eðlislægt að vilja hefnd, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og velti því fyrir sér hvort það væri rétta leiðin í átt að fækkun glæpa í samfélaginu. Þar tók hann Bandaríkin sem dæmi. Það er eitt af fáum vestrænum ríkjum sem leyfir dauðarefsingar. Dómar þar eru þungir en samt er hvergi hærri morðtíðni á vesturlöndum og glæpatíðni er há. Málið er nefnilegast að ef þú ætlar að gera eitthvað af þér þá spáirðu ekki mikið í því hver refsingin er - aðeins hvernig þú getur komist hjá henni. Hvort að refsingin sé léttvæg eða þung skiptir ekki máli - þú ætlar bara ekkert að nást.
Forsenda þessa leiðara var dómurinn yfir strákunum sem drápu Ísfirðingin. Sá dómur sjokkeraði samfélagið - mig þar á meðal - og fólk var slegið yfir því að þeir skyldu ekki fá þyngri dóm. En þessi leiðari fékk mig til að hugsa. Hvernig viljum við fá þessa stráka út í samfélagið aftur? Á bara að senda þá á Hraunið sem lengst svo þeir verði bara enn klikkaðri þegar þeir koma út?? Skila þyngri dómar sér í minni glæpatíðni?? Ég persónulega vil sjá þessa stráka verða nýta þjóðfélagsþegna sem sleppa því að berja mann og annan í framtíðinni. Ég sé það ekki alveg gerast eftir að þeir hafa dvalið nokkur ár á Hrauninu. Mér finnst ekki forsvaranlegt að dæma fólk fyrir glæpi, stinga því í fangelsi, láta það dúsa þar í ákveðinn tíma og verða svo hissa þegar þetta fólk brýtur af sér aftur þegar það er komið út í samfélagið á ný.
Innan sálfræðinnar er fag sem kallast Atferlisfræði og gengur það m.a. út á hvernig er hægt að stjórna hegðun. Frægustu uppgötvanir þessarar greinar hafa flestir heyrt um, hundarnir hans Pavlov og slefið og Skinner og rotturnar. Lengi vel var talið að refsingar skiluðu sínu við stjórnun hegðunar en í dag er ekki mælt með því að þær séu notaðar. Refsingar skapa nefnilegast oft fleiri vandamál heldur en þær leysa. Í dag er algengast að styrkja æskilega hegðun en hunsa þá óæskilegu. Ég hef reyndar aldrei verið mikill atferlissinni en ég tel samt að við getum lært heilmikið af þessum fræðum og nýtt t.d. í afbrotafræðum. Það væri skynsamlegra að auka endurhæfingu innan fangelsa á Íslandi frekar heldur en að þyngja bara dómana. Ég sé ekki alveg pointið í því að dæma einhvern í 10 ára fangelsi fyrir hræðilegan glæp ef hann kemur helmingi verri út úr fangelsinu og fremur jafnvel enn verri glæp næst þegar hann kemur á göturnar. Þá er honum kannski stungið inn í 15 ár og kerfið búið að búa til krimma.
En það þarf ekki bara að búa til betra kerfi í kringum þá sem eru það ólánsamir að þeir lenda í afbrotum og þurfa hjálp við að lenda á réttri braut. Á Íslandi vantar allan stuðning við þá sem lenda í ofbeldisverkum og aðstandendur þeirra. Það fólk þarf líka að vinna úr sínum málum og læra það að hefndin er ekki allt. Fæstir af þeim sem brjóta af sér eru samviskulausir, andfélagslegir persónuleikar. Það er bara fólk eins og ég og þú og það tók ranga stefnu í lífinu. Vissulega skilur maður aðstandendur sem vilja ofbeldismanninum allt hið illa. En hverju skilar það? Hatrið og vanlíðanin minnkar ekki neitt við það að ofbeldismanninum sé refsað. En ef maður er í þeim sporum að einhver hefur gert e-ð á manns hlut eða e-s sem stendur manni nálægt þá er hjálpin ekki beint í hverju horni og það er auðvelt að festast í vanlíðan og hatri.
Svo ég taki þetta nú saman þá held ég að við ættum að fara varlega í því að óska eftir því að dómar á Íslandi verði þyngdir. Hins vegar er full ástæða til þess að skoða þá stefnu sem er ríkjandi í fangelsismálum okkar. Hvaða endurhæfing fer fram innan veggja fangelsisins? Er það markmið að fá betri þegna út í samfélagið að lokinni fangavist að nást? Einnig þarf að huga að aðstandendum bæði ofbeldismanna og þolenda ofbeldisins. Það hlýtur að vera okkar persónulegi réttur að félagslega kerfið hugi að okkur ef við lendum í þessum aðstæðum. Fyrir utan það að það ætti einfaldlega að vera skylda samfélagsins að bregðast við þegar svona aðstæður koma upp. Í vor hefur komið upp mikil umræða um að það vantaði eitthvað athvarf/hóp eða þess háttar fyrir aðstandendur ofbeldis. Ég vona bara að sá bolti sé farinn að rúlla og að íslenska ríkið komi að því dæmi almennilega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli