Jæja, þá er best að fara að setja eitthvað hérna inn. Kveikti ekki á tölvu alla helgina. Var að vinna og auk þess að leika við Njál og Karen. Njáll gisti hjá mér á laugardaginn og Rakel kom vestur seint á laugardagskvöldið. Ég og amma fórum með krakkana í siglinguna á laugardaginn og svo fór ég með þau í sund á eftir. Við fórum svo öll í svið til ömmu og lágum síðan í nammi og snakki um kvöldið og horfðum á James Bond. Á Sjómannadaginn var ég að vinna í 12 tíma - en ég náði samt að horfa á formúluna, fara niðrá bryggju og sjá hátíðahöldin og fara í sjómannadagskaffið á milli vakta! Enda var ég alveg búin á því þegar ég kom úr vinnunni í gærkvöldi. Í morgun var svo vinna í skólanum. Við erum á skyndihjálparnámskeiði. Í kvöld voru svo skólaslitin. Ég klára skyndihjálparnámskeiðið á miðvikudaginn og þá er ég búin í skólanum fyrir utan námskeiðin sem ég fer á í sumar. Það verður ágætt að vera í vinnu sem maður tekur ekki með sér heim - og fá að sofa út einstaka sinnum á morgnana!! Ég á næst helgarfrí 20.-22. júní fyrir þá sem vilja skella sér vestur til mín - blikkblikk agga-!!!!!
Fyrir helgina var verið að dæma þá sem drápu Ísfirðinginn í fyrra. Ég er ekki alveg að skilja út á hvað dómurinn gengur. Tveggja og þriggja ára frangelsi fyrir að lemja gaur það mikið í spað að hann dó. Og það var tekið fram að það var verið að dæma annan gaurinn fyrir tvær aðrar líkamsárásir - þess vegna fékk hann þriggja ára fangelsi. Ég ætla bara rétt að vona að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar og hann þyngdur verulega!!
Atvikið sem Kolla lenti í á leiðinni vestur hefur verið aðeins í fréttum yfir helgina. Þar er sagt að fatlaður maður hafi verið á bílnum og hann beðið starfsmann bátsins að leggja bílnum fyrir sig án þess að segja honum frá því að bílnum hefði verið breytt þannig að bensíngjöfin væri vinstra megin (tengdapabbi Kollu er einfættur). Það er sorglegt að sjá svona fréttaflutning þegar maður veit staðreyndir málsins. Þegar Njáll (tengdapabbinn) var að keyra bílnum inn í bátinn og ætlaði að leggja honum þá er starfsmaður inn í bátnum sem vísar hvar maður á að leggja. Njáll átti að leggja mjög þröngt og starfsmaðurinn sagði honum að hann gæti bara farið út farþegamegin því þar var meira pláss. Njáll er einfættur og notar hækjur og því ekki hlaupið fyrir hann að gera það og hann bendir starfsmanninum á það. Sá segir þá að hann skuli bara leggja bílnum fyrir hann. Njáll biður hann um að fara varlega því að bensíngjöfin sé vinstra megin en gaurinn var greinilega ekkert að hlusta og stígur á fullum krafti á bensíngjöfina þegar hann kemur inn í bílinn og klessir hann og þrjá aðra bíla. Fréttin kemur frá rekstraraðilum Baldurs sem vilja greinilega fría sig ábyrgð í þessu máli. Ég vona bara að það gangi vel hjá Njáli og Kollu að fá bílin bættan og bílaleigubílinn sem þau þurftu að taka borgaðan!
Dagný og Haukur eru líklegast búin að redda íbúð fyrir mig fyrir næsta vetur. Hún er í Erluhólum!! Mikið búið að hlægja að því. Þau ætla að skoða þetta nánar í vikunni, skoða íbúðina og svona. Ég vona bara að þetta gangi upp - ákveðinn léttir þegar maður verður búinn að finna íbúð og græja það allt. Svo ætlar ein sem er að vinna með mér á Skýlinu að benda tengdapabba dóttur sinnar á mig en hann er að leigja út nokkrar íbúðir. Þetta hlýtur að reddast allt saman!
Jæja, er búin að vera alveg dauð í dag og er barasta að spá í að fara að sofa snemma fyrst að ég get það!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli