03 júní 2003

Jæja, þá fer ég loksins að klára þetta skyndihjálparnámskeið. Hef átt frekar erfitt með að halda mér vakandi á því hingað til.. Bara þrír tímar á morgun og þá er ég búin. Ætla að koma með kökur og brauðtertur á eftir og klára svo að ganga frá stofunni. Er svo á kvöldvakt annað kvöld og á svo bara frí fram að helginni. Á næturvaktir alla helgina en það er reyndar spurning með hvort það verði kennaradjamm - og þá hvenær. Ætla að redda mér fríi svo ég geti farið á það. Ætla ekki að missa af því að sjá allt liðið djamma!!

Ég hef sjaldan heyrt annað eins bull og að það eigi að koma íslenskt American Idol. Það er ekki eins og það sé svo erfitt að verða ,,heimsfrægur" á Íslandi.. Allt landið er eins og eitt hverfi í borg í BNA og ekki alveg hægt að áætla að þetta gangi upp hér þó svo þetta gangi upp í henni Ameríku.

Í dag var verið að hleypa af stað verkefninu Þjóð gegn þunglyndi. Þótt fyrr hefði verið segi ég bara. Ég hef aldrei skilið af hverju forvarnir gegn geðsjúkdómum eru ekki meiri í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta verkefni var kynnt í Íslandi í dag í kvöld. Þar komu fram geðlæknir og geðhjúkrunarfræðingur. Ég er náttúrulega vel upp alin í sálfræðinni og var ekki alveg sammála þeim. Tryggingastofnun greiðir niður tíma hjá geðlækni en ekki hjá sálfræðingi - sem er alveg fáránlegt. Ef svona verkefni er sett af stað verður það að vera hluti af því að sálfræðiþjónustan fari inn í tryggingakerfið. Það verður að gera alla þá hjálp sem fólki býðst sýnilega og aðgengilega. Heilsugæslustöðvarnar eiga að vera aðalmiðstöðvarnar í þessu verkefni sem mér finnst ekki nógu gott. Hluti af þeirri ástæðu að við Íslendingar eigum heimsmet í notkun geðlyfja er sú að fólk fer til síns heimilislæknis og fær þunglyndislyf þar. Læknirinn hefur nánast engan bakgrunn í sálfræði og pælir ekki í því að hægt væri að leysa málið öðruvísi en með lyfjagjöf. Þess vegna hefði ég viljað sjá þátt sálfræðinga stærri þarna. Flestir sálfræðingar leggja meiri áherslu á að leysa málin með öðrum hætti en lyfjagjöf. Vissulega getur hún verið nauðsynleg en oft er hægt að nota aðrar leiðir.

Málefni Raufarhafnar eru mikið í fjölmiðlum þessa dagana. Ég fæ alveg sting þegar ég heyri af þessu. Þetta fær mann til að hugsa hvað ef þetta gerist hér? Í Víkinni minni?? Ég vona bara að stjórnvöld fari nú að sýna einhverja alvöru byggðastefnu og geri eitthvað róttækt í þessu máli. Það er engum í hag ef öll byggð færist yfir á suðvesturhornið. Bæði kostar það helling fyrir byggðarlögin þar í uppbyggingu og er slæmt fyrir þjóðarbúið því að þessi litlu sjávarpláss hafa verið að skila miklum peningum þangað - þó svo að allt of margir sjái það ekki. Meðal annars með bættum samgöngum hefur tekist að snúa svona byggðaþróun við í öðrum löndum og ég er alveg viss um að það takist hér líka. Íbúarnir þurfa samt líka að sýna ákveðið frumkvæði í atvinnusköpun en þá þarf ríkisvaldið náttúrulega að skapa þeim grundvöll til þess.

Jæja, var í ljósum áðan og á eftir að fara í sturtu. Ætla svo að henda mér í háttinn.

Engin ummæli: