Jæja, ætlaði bara að láta vita að ég væri á lífi. Er búin að vera að vinna soldið mikið undanfarið og bara verið að njóta góða veðursins sem hefur verið viðvarandi hérna í Víkinni og verður vonandi áfram. Ég er að vinna alla helgina en á frí næstu helgi. Ég vinn bara aðra hverja helgi í júlí, fæ frí á verslunarmannahelginni og vinn svo þrjár helgar í röð - og er svo hætt. Þá fer ég að huga að því að koma suður og koma mér almennilega fyrir þar.
Í augnablikinu er ég að leita mér að íbúð. Ef ég fæ ódýra tveggja herbergja þá stekk ég á hana en annars var ég að ræða við hann Jóa vin minn hvort við ættum að leigja saman. Ætla að heyra í honum betur yfir helgina. Held að það gæti alveg gengið upp sko. En þetta kemur allt betur í ljós síðar.
Kolla er að koma vestur með púkana sína. Þau eru núna á fótboltamóti í Borgarnesi og annað hvort Njáll eða Sigurgeir kemur vestur með Önnu og Bjarna á sunnudaginn. Restin kemur svo með Baldri á þriðjudaginn og ég ætla að fá mér rúnt í Brjánslæk að sækja þau. Bara gaman að því. Mamma ætlar svo að reyna að koma á næstu helgi og þá verður eflaust eitthvað skemmtilegt brallað. Hina fríhelgina mína í júlí verð ég að aðstoða í brúðkaupi hérna í bænum. Frænka mín og samkennari er að fara að gifta sig. Maðurinn hennar er írskur og við hinir enskukennararnir ætlum að taka að okkur að þýða ræðurnar sem verða fluttar í veislunni og hjálpa til við ýmislegt. Það verður bara gaman.
Já, og þá eru allar fríhelgar mínar þetta sumarið planaðar! Alveg rosalega mikið líf eitthvað!! En ég þarf að fara að byrja að pakka niður því ég verð að vinna frekar mikið í ágúst. Ætla að láta mömmu taka eitthvað af dóti þegar hún kemur og pabba líka næst þegar hann kemur. Annars eru allir velkomnir - svona af því að ég hef fengið svo margar heimsóknir hingað - hingað í lok ágúst til að hjálpa mér að flytja ;) Af því að það er alltaf svo vinsælt..
Engin ummæli:
Skrifa ummæli