Alveg er heppnin að leika við mig núna. Námskeiðinu sem ég átti að vera á í dag og á morgun var aflýst og því er ég bara búin að vera að slæpast. Það var reyndar bara gott að eiga frí. Ég var orðin dáldið þreytt eftir síðustu vinnutörn. Svaf bara út í morgun og var svo bara að slæpast með ömmu. Ég er að spá í að vakna snemma á morgun og þrífa hjá mér og drífa mig svo í göngutúr. Ég nennti ekki með gönguhópnum í dag svo ég ætla að bæta það upp á morgun. Röggi er að spá í að koma á helginni. Hann á frí núna eins og ég. Hann vill endilega kíkja á eitthvað djamm. Mér skilst að það sé bokkuball í Súðavík á laugardaginn annars held ég að það sé ekkert um að vera. Enda stórt ball á síðustu helgi og annað á þeirri næstu. 16. júní er samt á mánudaginn og þá er hefð fyrir djammi hér. Krakkadjamm á Suðureyri og vonandi eitthvað skemmtilegt ball á Ísafirði. En það kemur allt saman í ljós. Ég reyni að finna mér eitthvað skemmtilegt til dundurs!
Það eru bara 50 dagar í Þjóðhátíð!! Það er kominn enginn smá fiðringur í mig. Er alveg farin að plana allt í huganum. Er búin að ákveða hvað ég gef Kidda og Hildi í ár og hvað ég ætla að leggja af mörkum í matarkostinn í hvíta tjaldinu. Ég vona bara að Agga og Hjördís mæti á svæðið. Hjördís er búin að láta panta fyrir sig og bara má ekki beila!! Ég ætla að reyna að kynda undir Öggu - þjóðhátíðin yrði ekki söm án hennar!! Fyrir þá sem vilja fylgjast með þjóðhátíðarundirbúningnum bendi ég á síðuna hans Bigga - dalurinn.is. Hún er góð og kemur manni í gírinn.
Formúla í Montreal á sunnudaginn. Ég er orðið opinbert formúlunörd. Pantaði mér McLaren úlpu af mclaren.com og fékk hana í vikunni. Hún er rosa flott - þó svo ég segi sjálf frá and I wear it with pride :-)
Daddara, mér leiðist! Er að bíða eftir svari frá Kennó og ef það verður jákvætt þá byrja ég strax á því að dunda mér við að pakka niður í kassa. Ekki það að Víkin mín sé eitthvað ömurleg. Mér líður rosalega vel hérna og ég kvíði því að fara suður. Það er bara takmarkað hvað maður getur verið einn, vinalaus og fjölskyldulaus lengi... Ég er samt alveg rosalega fegin að ég ákvað að vera hérna í vetur. Ég er búin að þroskast heilmikið og læra alveg heilan helling. Það sem mestu skiptir er að ég er búin að læra það að vera ein. Eitthvað sem ég hef aldrei getað. Það er ekkert vandamál það stórt að ég ráði ekki við það. Það hefur verið erfiðast að fást við umtalið hérna. Það er ekki beint alltaf talað vel um kennarana hérna. Það gleymist stundum að kennarar eru líka fólk. En ég er samt sátt við seinasta vetur. Ég gerði alltaf eins vel og ég gat hverju sinni - og þá er ekki hægt að fara fram á meira.
En ég ætlaði ekki að fara að kryfja síðasta vetur núna. Það er eflaust best að fara að koma sér í háttinn fyrst ég ætla að vakna snemma á morgun. Já eða ég ætla allavegana að reyna...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli