Ég er hálfnuð í prófunum! Var í þroskasálfræði í morgun og það gekk bara furðanlega vel, svona miðað við það að ég fékk algjört panikkast í gær, fannst ég ekkert kunna og engu geta svarað. Ég ætlaði svo að vakna snemma í morgun og lesa aftur yfir allar glósurnar mínar áður en ég fór í prófið. Ég svaf hins vegar lítið í nótt og fór ekki fram úr fyrr en hálftíma fyrir próf. Það var eitthvað lið í stigaganginum mínum að koma heim af djammi kl. hálf 4 í nótt og það voru geðveik læti í þeim. Ég vaknaði náttla og var vakandi til 5. Ekki sniðugt. En prófið bjargaðist og það var fyrir öllu.
Í dag höfum við svo verið að fá úr ýmsum ritgerðum og verkefnum. Minn hópur fékk 8 fyrir málstofuna í uppeldisvísindum, 8 fyrir ritgerðina í menningu og samfélag (sem ég var farin að halda að við myndum falla á) og svo fékk ég 7,5 fyrir ritgerðina í þroskasálfræði. Ég er bara mjög sátt við þetta allt saman. Þessi verkefni gilda öll 30% á móti lokaprófinu í hverjum kúrs - og þá er náttla bara að brillera á prófunum líka!
Annars er nú bara mest lítið að frétta af mér. Maður er bara að læra og sofa. Svo vinn ég aðeins líka reyndar. Ég er farin að grennast eitthvað núna, er komin í buxur sem ég hef ekki passað í heilt ár! Það versta við það er að einu gallabuxurnar sem hafa passað á mig almennilega eru eiginlega orðnar of stórar. Ég þarf að fara að gera eitthvað í þessu, athuga hvort það sé hægt að plata pabba til að gefa mér buxur í jólagjöf. Annars langar mig líka í kort í ræktina, hmm, spurning hvort maður á að biðja um.
En jæja, ég ætla að fara að lesa í uppeldisvísindum. Ekki svo mikill tími sem maður hefur fyrir það próf. En ég er allavegana ekki að frumlesa efnið og þetta er nú að mörgu leyti keimlíkt uppeldisfræðinni úr menntó svo maður ætti nú að geta bjargað sér eitthvað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli