Jæja, þá er maður mættur í höfuðborgina. Ég keyrði suður í gær og var að fram á nótt að taka upp úr kössum, raða húsgögnum og fleira skemmtilegt. Ég komst ansi langt í gær og ætla að klára þetta í dag eða á morgun. Nenni hreinlega ekki að vera að stússast í þessu endalaust!
Það verður nú að segjast eins og er að það var ansi erfitt að fara í gær. Amma greyið alveg brotnaði og grét og grét þegar ég fór. Tárin láku nú hjá mér líka og ég blótaði mér fyrir að hafa ekki verið búin að taka bensín áður en ég fór og kvaddi ömmu. Ég setti hins vegar bara upp sólgleraugun - að hætti sumra :p - áður en ég fór á sjoppuna að taka bensín.
Allavegana, ég byrja ekkert að vinna eða í skólanum fyrr en eftir helgi og verð að mestu heima við ef einhverjum langar að kíkja í heimsókn. Ég bý núna á Bólstaðarhlíð 46, segi ekkert á hvaða hæð :p Ætla að fara að drífa mig heim að gera eitthvað. Var að koma úr klippingu og litun. Mamma segir að ég sé eins og golsótt rolla - en ég held að ég sé samt fín sko....
28 ágúst 2003
23 ágúst 2003
Hellú! Var að koma heim úr vinnunni. Bara 4 vaktir eftir!! Ég ætla að stelast til að sofa heima hjá pabba næstu 2 nætur. Mamma kom vestur í gær og við ætluðum að deila rúminu hennar ömmu en hún ætlaði að sofa í stofunni. Ég svaf hins vegar lítið í nótt. Mamma tók nánast allt plássið á þvervegin sem þýddi það að ég gat ekkert rétt almennilega úr mér því að rúmið hennar ömmu er svo stutt! Annars er nú bara mest lítið að frétta af mér. Ég er bara alveg rosalega löt þessa dagana, er held ég bara ennþá að jafna mig eftir þessa næturvaktatörn. Ég gerði mest lítið á miðvikudaginn. Fór í ljós og sund og hafði það bara huggulegt. Kíkti svo á rúntinn með Hrafnhildi um kvöldið. Það var rosa gaman að hitta hana aðeins - allt of langt síðan við höfum hist. En við bætum nú úr því þegar ég verð komin suður. Í gær var svo komið að því að senda allt dótið mitt suður. Eftir að dótið var komið í flutningabílinn gerðum við amma mest lítið. Ég pakkaði niður restinni af fötunum mínum - og komst að því að ég á alveg fuuullt af engu til að vera í :-/ Og svo tæmdi ég baðskápana mína og fyllti með því 2 kassa - þegar ég var búin að setja í snyrtitöskurnar... Ekki spurja mig hvað var í þeim... Amma byrjaði eitthvað á því að þrífa og svo fórum við heim að borða - og gerðum ekkert meira :p
Mamma kom svo og við sátum þrjár og höfðum það huggulegt. Fengum okkur bjór og Dooleys. Mér finnst ég svo ekkert vera búin að gera í dag. Fór smá rúnt með mömmu hérna og innfrá og fór svo bara að vinna. Ég hef aðallega verið að stressa mig á þessum flutningum mínum en það átti að ná í dótið í dag og koma því í nýju - vonandi æðislega fínu - íbúðina mína - og Jóa :p Það var nú ekki litla stressið og vesenið að redda þessu öllu - mamma gekk í málin þegar hún var komin og bjargaði þessu alveg. Kippti öllu í liðin þannig að það varð þetta líka spennufallið hjá mér. Ég hefði barasta aldrei klárað þetta mál án hennar og ömmu. Það er munur að eiga svona góða að til að hjálpa sér þegar á þarf að halda!! Kossar og knús fyrir allt báðar tvær :*
Jæja, ég ætla að fara að sofa í hausinn á mér. Klukkan að ganga eitt og ég á að mæta í vinnu kl. 8 í fyrramálið.. Næst seinasta morgunvaktin.....
Birt af Erla Perla kl. 12:38 f.h. 0 skilaboð
20 ágúst 2003
Næturvakt 5
Seinasta vaktin!!! Það var einhvern vegin miklu léttara að mæta í vinnuna áðan af því að ég veit að ég þarf ekki að koma aftur næstu nótt :) Ég ætla nú ekkert að fara að tuða eitthvað núna, nenni því ekki. Ætla bara að fá mér að borða og koma mér vel fyrir inn í stofu. Ég tók Fast and the Furious og Loser. Ég ætlaði að taka Taxi en hún var ekki inni. Einhver hefur lesið hérna að ég ætlaði að taka hana í kvöld og nappað henni á undan mér úti á Tröð.. Eða eitthvað :p
Annars er ég búin að vera á fullu í dag við það að pakka inn dótinu mínu ásamt ömmu, Grétu og Bjarna Ben. Núna er allt tilbúið til flutnings nema þvottavélin mín, en það verður gengið frá því á morgun. Þetta verður svo sent á fimmtudaginn og komið suður á föstudaginn og þá ætlaði ég að fá einhverja góða vini mína til að aðstoða hann bróður minn (því ég verð ekki komin suður) við að koma dótinu upp í íbúðina mína. Það á reyndar ekki að vera svo mikið mál. Jói ætlar að redda lyftu og bíl frá Byko og svo verður allt flutt í gegnum svalirnar þannig að það er ekkert verið að bera upp stiga eða neitt svoleiðis. Ég held að þessir góðu vinir mínir viti alveg hverjir þeir eru en þeim verður boðið í pizzu og bjór (já eða diet kók :p) fyrir hjálpina ef þeir mögulega sjá sér fært að hjálpa mér. Reyndar yrði það ekki fyrr en ég verð komin suður, ég ætla nú að baka pizzurnar sjálf og gera þetta almennilegt ;) Þeir eiga þetta þá líka inni hjá mér þegar þeir flytja að heiman - þó svo ég bjóðist frekar til að þrífa og pakka í kassa heldur en að bera eitthvað þungt :p
Anyhow, ég bara verð að setja inn eina snilldarsögu af henni Illu ömmusystur og kannski leiðrétta söguna af Addý og Dengsa síðan í gær. Ég tók víst ekki nógu vel eftir - það er víst soldið síðan þetta gerðist og Dengsa var víst illt í bakinu en ekki höfðinu.. En eins og ég var búin að segja hérna þá var árleg berjaferð ömmusystkinna minna á síðustu helgi. Á laugardagskvöldinu eru þau þrjú út í skúr hjá Illu að hreinsa berin og hakka þau og búa til berjasaft. Illa fer eitthvað inn til sín og þegar hún kemur aftur er hún öll hvít í framan. Amma og Gummi segja ekki neitt strax en að lokum spyr amma hvurn andskotann hún hafi eiginlega verið að gera og sækir spegil svo Illa geti séð hvernig hún lítur út. Þá var Illa að taka inn magamjólk en ekki vildi betur til en svo að hún hellti henni niður á borðið. Nýtnin í þessu liði er ekki einleikin og þar sem ekki mátti neitt fara til spillis af magamjólkinni þá beigði Illa sig yfir borðið og saug upp því sem hún náði... Og varð þar af leiðandi svona hvít í framan.....
Jæja, ætla að fara að gera eitthvað af viti. Ætla bara svona rétt í lokin að benda ykkur á að fara yfir smáauglýsingarnar í Mogganum í dag (19. ágúst sko). Það er ansi skondin auglýsing þar!
Birt af Erla Perla kl. 12:56 f.h. 1 skilaboð
19 ágúst 2003
Hann karl faðir minn er rúmlega fimmtugur í dag. Til hamingju með daginn pabbi!! :)
Birt af Erla Perla kl. 3:08 f.h. 0 skilaboð
Næturvakt 4
Jæja, þá er bara ein næturvakt eftir - þegar þessi er búin. Og svo á ég bara eftir að vinna 7 vaktir áður en ég hætti!! Nei, heyrðu, ég á bara 5 eftir!!! Svakalega hljómar það miklu betur!!!
Ég var í lundaveislu áðan hjá Dísu og Pétri. Addý, Dengsi og amma voru líka. Það var alveg svakalega gaman. Mikið hlegið eins og við var að búast. Þar heyrði ég eina mestu snilldarsögu sem ég hef nokkurn tíman heyrt. Addý og Dengsi voru einhvern tíman að fara að sofa og Dengsi var alveg að drepast í höfðinu (man ekki alveg hvort þetta var á Þjóðhátíðinni, það var e-r hausverkur að hrjá Dengsa þá, hehe smá einka húmor). Addý hugsar náttúrulega vel um sinn mann og fer og finnur fyrir hann verkjatöflur. Þegar HÚN rennir niður töflunum man hún að hún var að sækja þær fyrir Dengsa... Hún hugsar sem sagt svo vel um hann að hún tekur inn lyfin hans fyrir hann... Algjör snilld!!
Jæja, það er alveg fullt í gangi í samfélaginu en aldrei þessu vant er ég voðalega lítið að spá í því og missi eiginlega bara alltaf af fréttum núna. Það kemst í lag þegar næturvaktirnar verða búnar. Það eina sem ég man eftir úr fréttunum er að hrefnuveiðar eru byrjaðar aftur. Mér líst bara vel á það. Ég hálf vorkenni fólkinu sem er svona svakalega mikið á móti þessu. Sérstaklega þessum fanatísku útlendingum sem ferðast heimshorna á milli til að mótmæla þessu. Ég held að þetta lið ætti að líta sér nær og athuga hvort það geti ekki bætt einhverja hluti í sínu eigin samfélagi - eins og heimilisleysi, fátækt o.s.frv. - áður en það fer að rífa sig yfir einhverjum hvalveiðum lengst út í ballarhafi sem snerta líf þeirra ekki neitt! Vissulega ber að fara varlega út í svona veiðar, sérstaklega ef dýrin eru í útrýmingarhættu og allt það, en ég er samt ekki alveg að ná svona fanatísku fólki. Maður hefur einhvern vegin á tilfinningunni að það að stoppa þessar veiðar sé líf þess og yndi. Ég vona bara að þetta fólk eigi ekki börn - því þau eru þá eflaust vanrækt þessa stundina - og ef það á maka þá er eins gott að hann hafi sama áhugann á þessu málefni..
Æi, ég er kannski komin út í vitleysu hérna en svona öfgar fara mikið í mig, sama hvaða nafni þær nefnast og að hverju þær snúa. Maður gerir heiminn nefnilegast ekki að betri stað nema maður hugsi vel um sig og sína og komi vel fram og af virðingu við aðra. Svona fólk er alltaf að reyna að breyta heiminum og mótmæla en hugsar aldrei um neitt meira en rassgatið á sjálfu sér og ber enga virðingu fyrir neinum. Þoli ekki svona fólk - ef það fór eitthvað fram hjá ykkur :p Maður bítur samt alltaf í tunguna á sér ef maður hittir svona týpur því það er vita vonlaust að ætla sér að eiga viti bornar samræður við það..
Annars getur maður svo sem sagt sína meiningu án þess að vera dónalegur. En stundum er best að þegja. Ég lærði það í kennslunni í vetur. Maður þurfti stundum - sem betur fer alls ekki oft - að láta ótrúlegasta skít yfir sig ganga. Því miður er ákveðið fólk hérna í bænum sem ég get ekki litið sömu augum og áður eftir þennan vetur - en maður lærir það að maður ber ekki ábyrgð á hegðun annarra.
En vá hvað ég er neikvæð eitthvað. Hef greinilega þurft að fá útrás fyrir eitthvað röfl!! Eða þá að mig vantar að kúra hjá ákveðnum aðila... Anyhow, ætla að fara að horfa á eitthvað skemmtilegt. Later..
Birt af Erla Perla kl. 3:08 f.h. 0 skilaboð
18 ágúst 2003
Næturvakt 3
Þá er maður að verða hálfnaður með þessar blessuðu næturvaktir. Bara 2 eftir þegar þessi er búin. Seinustu nótt var ég bara að horfa á vídeó. Miss Congeniality var á Stöð 2 um nóttina og svo horfði ég á Wayne´s World. Hún var á Stöð 2 fyrr um kvöldið en ég lét taka sjónvarpsdagskrána upp fyrir mig svo ég gæti horft um nóttina. Það er ár og öld síðan ég sá Wayne´s World síðast en það var bara nokkuð gaman að sjá hana aftur. Ég hló allavegana mikið að henni. Ég er svo með fullt af gömlum myndum sem ég ætla að horfa á í nótt og næstu nótt. Tók líka upp Shallow Hal í gær en veit ekki hvort ég nenni að horfa á hana. Á þriðjudagsnóttina er ég að spá í að leigja mér spólu. Fast and the Furious og Taxi eða eitthvað álíka. Alltaf gaman að þeim myndum ;)
Annars á ég mér ekkert líf og enga vini þessa dagana. Ég bara vinn á nóttunni og sef á daginn. En ég á bara 7 vaktir eftir hérna og þá fer maður að eiga sér meira líf - vonandi! Gummi Baldur - bróðir ömmu - var hérna yfir helgina í árlegri berjaferð með systrum sínum. Það er stundum alveg kostulegt að fylgjast með ömmu og hennar systkinum. Það var mikið að gera hjá ömmu og Illu að plana allt nestið, hver ætti að koma með hvað og svona. Ég held að þau hafi haft nesti með sér sem hefði dugað heila þjóðhátíð.. En það er gaman að þeim. Það er búið að vera algjört bíó stundum í vetur að fylgjast með ömmu, Boggu og Illu.
Menningarnóttin var víst í gær. Ég get ekki beint sagt að ég hafi grátið það að vera ekki í bænum þá helgina. Svona mikill fólksfjöldi er ekki alveg fyrir mig. Eflaust var margt skemmtilegt um að vera en æi, ég veit ekki. Mér líður bara illa í svona margmenni.
Teljarinn minn hefur ekki verið að virka undanfarið og ég ákvað að vera hugrökk og kíkja inn á Bravenet og athuga hvort ég gæti lagað þetta. Og viti menn, haldiði ekki að ég hafi ekki bara reddað þessu!! Ji, stundum er ég bara svo klár :p
Jæja, er alveg tóm í haus - samt ekkert tómari en vanalega :p Er að spá í að finna mér eitthvað að borða og koma mér vel fyrir inn í stofu. Ble ble
Birt af Erla Perla kl. 1:41 f.h. 0 skilaboð
16 ágúst 2003
Kræst hvað mér leiðist!!!! Er á næturvakt og er alveg að drepast úr leiðindum!! Hjördís er samt aðeins að halda í mér lífinu á msninu en vá hvað ég er ekkert að nenna þessu. Og ég á ,,bara" 4 næturvaktir eftir þegar þessi er búin!! Ég skil ekki hvernig mér datt í hug að þetta yrði ekkert mál... Ég er ekkert að nenna að fara að horfa á vídeó, nenni ekki að lesa, nenni barasta ekki neinu! Mig langar bara að kúra mig hjá Ingþóri og hafa það öfga huggulegt. Ég væri alveg til að fara eitthvert út í buskann þar sem við gætum fengið að vera bara tvö í friði í nokkra daga. Enginn Auðunn eða neitt.
Annars verður gott að hafa hann hjá sér þegar ég fer suður. Ég held að það eigi eftir að vera pínu erfitt að fara héðan. Kveðja ömmu og Víkina mína. Ég dauðkvíði því allavegana að fara suður, er alltaf að horfa á fjöllin mín og drekk í mig ferska loftið í hvert skipti sem ég fer út. Ég held að ég sé ekki alveg laus við Vestfjarðaveikina, enda færði ég ekki lögheimilið mitt suður. Get einhvern vegin ekki hugsað mér það strax. Ég var að stússast í þessu í dag og færði það bara heim til pabba hérna. Á að vísu eftir að segja honum það - en ég veit að það er allt í lagi. Hann kom við í dag áður en hann fór suður og tók fullt af kössum fyrir mig. Það var alveg rosalega gott að losna við þetta - þó svo ég þurfi að taka upp úr þessu öllu aftur þegar ég kem suður! Hann kom líka með föt sem hann keypti á mig út í BNA. Það er alveg mesta furða hvað kallinn getur. Hann keypti peysu, bol og pils og þetta passaði allt saman og er bara alveg ljómandi fín föt!! Ég var mest ánægð með pilsið því að það er í stærðinni SMALL og það barasta passaði!!! My ass isn´t that big after all :p
Ég sótti Eyjamyndirnar í framköllun í dag. Alveg ljómandi fínar myndir bara. Gleamingly fine, yes. Ég held ég hafi aldrei fengið svona margar góðar myndir eftir Þjóðhátíð. Ég fer svo í lunda til Dísu og Péturs á mánudaginn ásamt hinum Víkurunum sem voru á Þjóðhátíð. Þá fær maður að skoða eyjamyndirnar hjá þeim öllum og ég ætla að taka eyjadiskana með. Þeir eiga svo eftir að liggja í dvala næstu mánuðina. Mamma ætlar svo að koma á fimmtudaginn - ef það stenst hjá henni.. Það verður því nóg að gera þangað til að ég fer suður. Gummi Baldur bróðir hennar ömmu ætlar að taka eins mikið dót og hann getur þegar hann fer suður á sunnudaginn og þá fer maður að sjá hvað þarf að senda með flutningabíl.
Hmm, það er bara frekar mikil umferð úti eins og er. Það mætti bara halda að það hefði verið ball innfrá eða eitthvað.. Það var nú samt bara diskótek inn í Sjalla.. Daddara, Bolungarvík aðfararnótt laugardags.. Allt morandi í lífi og fjöri sem ég get fylgst með.. Reyndar er ég búin að vera að heyra einhver skrýtin hljóð í alla nótt, eins og einhver sé á ferli en samt eru allir sofandi.. Spooky!! Kannski er köttur inn á skoli eða einhvers staðar þar sem ég þorði ekki að kíkja inn :p Æi, bleh, ætla að fara að kíkja á liðið og lesa eða eitthvað... Ble..
Birt af Erla Perla kl. 4:04 f.h. 0 skilaboð
15 ágúst 2003
Djö.. ég ýtti á einhvern helv... takka og það datt allt út sem ég var búin að skrifa. Og hvernig í ósköpunum á gullfiskurinn ég að muna hvað það var!!! Ég man reyndar að ég ætlaði að pirra mig á því að ég get ekki séð skilaboðin í shout outinu. Ég er orðin öfga forvitin að sjá hver var að tjá sig þar um þjóðhátíðarsöguna mína. En ég skal komast að því fyrr eða síðar!!
Hmm, hvað var ég annars að röfla áðan...? Góð spurning.. Jú, ég var eitthvað að tala um að ég er búin að vera öfga löt. Ég bara sef og sef og sef þegar ég er ekki að vinna eða pakka. Ég hefði alveg verið til í að hafa Ingþór hjá mér í þessu letikasti til að knúsa mig en við verðum að bæta hvoru öðru það upp þegar ég kem suður - já eða þegar hann kemur vestur til að fara með mér suður! Þó svo ég ætli ekki að sofa einhvers staðar á leiðinni suður (hehe, eins og sumir ;) þá væri ég alveg til í að dúllast í Djúpinu, skoða Litla Bæ þar sem að Magga amma fæddist og bara dútlast eitthvað. Við Ingþór hljótum að geta látið okkur detta eitthvað í hug til að skoða og dúllast við á leiðinni :p
En já, áður en ég babla mig út í eitthvað sem á ekki alveg heima hér ætla ég að snúa mér að einhverju öðru. Hmm, eins og hverju.. Veðrinu kannski. Aldrei þessu vant var rigning í Bolungarvík í kvöld. Ótrúlegt en satt. Það er bara svo fréttnæmt þegar það rignir hérna að ég barasta verð að blogga um það! Það var samt öfga hlýtt þegar ég var að labba heim úr vinnunni áðan. Sem er kannski ekki alveg eins fréttnæmt því það hefur verið mjög hlýtt hérna í sumar. Jamm og jæja, ég er í alvörunni að tjá mig um veðrið hérna. Ég held að það sé ekki allt í lagi með mig. Kannski hefði ég þurft að eiga gullfisk til að tala við seint á kvöldin þegar ég nenni ekki að fara að sofa. Ég hefði aldrei nennt að eiga kött eða hund. Enda er ég hrædd við hunda þannig að það er eiginlega ekki möguleiki. Það er líka öfga mikið vesen að eiga kött, kynntist því þegar hann bróðir minn átti Pamelu Anderson. Blessuð sé minning hennar. Það væri eiginlega best að hafa bara Ingþór hjá sér núna. Miklu skemmtilegra að tala við hann heldur en einhvern gullfisk. Eða kött. Það er heldur ekki hægt að kúra hjá fiskinum. Reyndar er hægt að kúra hjá kettinum en.. Vá, núna er ég komin út í tóma vitleysu!!! Ég er farin að trúa Öggu vinkonu þegar hún segir að ég geti röflað um allan fjandann endalaust. Þess vegna er bloggið svona fínt. Þá þarf enginn að hlusta á röflið í mér frekar en einhver vill. Paradís fyrir Öggu - nú hringi ég aldrei í hana til að tala um gullfiska og ketti :p Bara eitthvað sem er í alvörunni merkilegt eins og strákamál og eitthvað svoleiðis :p
Jæja, Erla Kristinsdóttir, nú hættir þú þessu röfli og ferð að sofa áður en allir halda að þú eigir ekkert líf og enga vini.....
Birt af Erla Perla kl. 1:11 f.h. 0 skilaboð
12 ágúst 2003
Jæja, þá er maður að verða búin að jafna sig eftir þjóðhátíðina. Ég hef nákvæmlega ekkert gert síðan ég kom heim nema unnið og sofið. Jú og sett í þvottavél. Var orðin alveg fatalaus þegar ég kom heim. Ingþór og Auðunn voru hérna á helginni, voru með hoppukastalana inn í Súðavík. Ég var líka að vinna og fékk ekki að sjá Ingþór nema rétt yfir blánóttina en maður reynir að pirra sig ekki á því. Við bætum bara úr því þegar ég verð komin suður.
Amma kom í dag og hjálpaði mér að pakka niður eldhúsdótinu mínu. Það gekk alveg ljómandi vel hjá okkur og er ekki mikil vinna eftir. Ég byrjaði svo á því að pakka niður þeim fötum sem ég sé ekki fram á að nota alveg á næstunni. Það er líka allt að verða búið úr stofunni svo að ég er að vona að mesta vinnan sé búin. Ég verð alveg öfga fegin þegar þetta er allt búið og ég komin suður. Ég á bara eftir að vinna í hálfan mánuð og ætti að vera komin suður eftir 15 daga. Ég er reyndar komin með í magann yfir því að vera að fara héðan. Mér finnst ég varla vita út í hvað ég er að fara, hef ekki einu sinni séð íbúðina sem ég er að fara að búa í. En æi, þetta á allt eftir að bjargast einhvern vegin.
Úff, ég er alveg tóm í haus. Var á næturvakt í nótt og var vöknuð frekar snemma til að pakka og er bara alveg dauð. Ég er að spá í að fara bara snemma að sofa til tilbreytingar..
Birt af Erla Perla kl. 10:14 e.h. 0 skilaboð
07 ágúst 2003
Þá er maður loksins komin heim eftir alveg hreint frábæra Þjóðhátíð. Veðrið var alveg frábært og allt í föstum skorðum - fyrir utan brekkusönginn.
Ég var mætt í Herjólf kl 11 á föstudagsmorgninum og við tók þriggja tíma veltingur.. Að venju varð ég sjóveik. Þegar til Eyja var komið fór ég beint í Dalinn og fór í setningarkaffi á Sjómannasund 9. Var mætt á undan Kidda og Hildi.. Surprise, surprise.. Sumt breytist aldrei ;) Eftir kaffið var brunað heim í djammblokkina þar sem við lögðum okkur fyrir átök kvöldsins. Um kvöldið var að sjálfsögðu farið í Dalinn og hápunkurinn var á miðnætti þegar kveikt var í brennunni á Fjósakletti. Hún var glæsileg að venju. Eftir brennuna var farið með púkana heim og sest að sumbli í stofunni hjá Kidda og Hildi. Við Steini misstum okkur aðeins út í stjórnmálaumræðu en henni var hætt áður en við vorum komin út á hálann.. Það var nú einu sinni Þjóðhátíð. Síðan var aftur brunað í Dalinn og djammað til 6 - en þá vildi Kiddi endilega fara heim og ég og Hildur létum undan. Drífa ákvað að vera samfó og við ákváðum að finna okkur skemmtilegan bekkjarbíl til að fara í heim. Drífa var með gítarinn um öxl og ekki vildi betur til en svo að yours truly labbaði á hann og var illt í gagnauganu það sem eftir lifði þjóðhátíðar.. Ekki er hægt að kenna áfengisneyslu um þessar ófarir þar sem lítið var drukkið þetta kvöld af einhverjum ástæðum. Ég er víst bara svona mikill klaufi! Það verður svo víst að taka það fram að þegar við fórum heim kl. 6 var Steini ennþá sprell lifandi!! Enda var tekin mynd af því til að skjalfesta það :p
Á laugardeginum var ég vöknuð hress og spræk í hádeginu (að vísu hálf raddlaus, hálsbólgan eitthvað að láta vita af sér). Kiddi og Hildur fóru með púkann inn í Dal til að sjá brúðubílinn en ég ákvað að fara með hana ömmu mína í bíltúr í góða veðrinu. Við keyrðum upp á Stórhöfða og skoðuðum allt sem okkur datt í hug að skoða á eyjunni. Ekki spillti fyrir að skyggnið var frábært og sást vel upp á land. Þegar heim var komið var kominn tími á síðdegislúrinn. Þegar við vöknuðum var kíkt yfir í næstu íbúð þar sem ég fékk hárið á mér sléttað fyrir kvöldið (veitti ekki af eftir fastaflétturnar sem ég var með á föstudagskvöldinu). Um kvöldmatarleytið var okkur svo boðið í reyktan lunda á neðri hæðinni. Lundinn smakkaðist bara ljómandi vel. Að þessu sinni var farið frekar seint í Dalinn þar sem Hildur ætlaði að vera búin að svæfa Magnús áður en við færum. Það var því setið að sumbli fram eftir kvöldi. Við Hildur rétt náðum inn í Dal áður en að flugeldasýningin byrjaði. Hún er alltaf flott - en samt verð ég að viðurkenna að mér finnst brennan alltaf tilkomumeiri. Þetta kvöld var pirraða kvöldið mitt. Mér var illt í hálsinum og hausnum, nánast alveg raddlaus og alltaf verið að segja mér að þegja eða hlægja að mér. Það kom samt ekki til greina að láta það eyðileggja kvöldið svo ég dró Drífu og Hildi með mér á danspallinn og rölt um dalinn. Eitthvað fjör hefur verið hjá okkur því ég fór ekki heim fyrr en hálf 8 og Hildur kom heim kl. 10... Drífa vakti Steina til að fara heim kl. 8 - já, hann sofnaði víst á beddanum inn í hvíta tjaldinu aldrei þessu vant :p
Á sunnudeginum vorum við ekki alveg eins spræk (ég alveg raddlaus) þegar við vöknuðum en drifum okkur samt með Magnús inn í Dal. Dagskráin var að mestu búin þegar við komum en við Hildur tókum til í hvíta tjaldinu áður en við röltum heim á leið. Þar sem við erum öll orðin svo gömul lögðum við okkur þegar heim var komið til að geta djammað almennilega seinasta kvöldið. Ég tuggði og tuggði hálstöflur og drakk panodil hot í von um að geta sungið eitthvað í brekkusöngnum um kvöldið. Að þessu sinni fór Magnús í pössun en við vorum samt öfga sein að drífa okkur í Dalinn. Ég var komin upp í brekku til ömmu og þeirra um hálf ellefu leytið. Það var mikill spenningur í mannskapnum eftir að sjá hver yrði með brekkusönginn, þyrlupallurinn frægi jók mjög á þá eftirvæntingu. Klukkan rúmlega 11 kom þyrlan fljúgandi við mikinn fögnuð og kastaði út pakka frá Johnsen. Bréfið frá honum var lesið upp og Róbert Marshall kynntur sem brekkusöngvari. Hann stóð sig vel - en var enginn Johnsen.. Það verður brekkusöngur allra tíma á næstu Þjóðhátíð þegar Árni snýr aftur! Röddin mín gerði mér þann greiða að geta sungið í brekkusöng en hún hvarf reyndar fljótlega aftur. Eftir brekkusönginn var farið í hið árlega pulsupartý í hvíta tjaldinu. Eftir það hélt ég til á stóra danspallinum. Var þar þar til stelpurnar vildu fara að rölta eitthvað um 5-6 leytið. Kl. 7 var djammúthaldið mitt búið og ég rölti heim á leið. Ég var öfga sátt eftir skemmtilega þjóðhátíð þegar ég stoppaði á leiðinni heim og horfði yfir dalinn. Ekki spurning um að ég mæti aftur að ári :)
Mánudagurinn var svo bara ÞYNNKUDAGUR. Legið og horft á Friends. Ég fór út að borða með öllu liðinu að vestan á veitingastað sem heitir Fjólan og er á Hótel Þórshamri í Eyjum. Mæli alveg með honum. Á þriðjudagsmorgninum var svo mætt í Herjólf rétt fyrir 8 og við amma vorum komnar í bæinn um hálf 12. Amma var á einhverju útstáelsi og lagði sig aðeins en Ingþór kom í heimsókn til mín. Alltof stutta heimsókn að vísu en það var öfga gott að fá að kúra sig aðeins hjá honum. Við lögðum svo af stað vestur rétt fyrir kl 4 og vorum komnar heim um hálf 11. Ég mætti svo í vinnu í morgun og aftur núna í kvöld. Ég ætla að nota næstu daga til að hvíla mig eftir helgina en síðan verður farið á fullt í að pakka og pakka.. Eftir 20 daga ætla ég víst að vera komin suður!
Birt af Erla Perla kl. 3:21 f.h. 0 skilaboð