19 ágúst 2003

Næturvakt 4

Jæja, þá er bara ein næturvakt eftir - þegar þessi er búin. Og svo á ég bara eftir að vinna 7 vaktir áður en ég hætti!! Nei, heyrðu, ég á bara 5 eftir!!! Svakalega hljómar það miklu betur!!!

Ég var í lundaveislu áðan hjá Dísu og Pétri. Addý, Dengsi og amma voru líka. Það var alveg svakalega gaman. Mikið hlegið eins og við var að búast. Þar heyrði ég eina mestu snilldarsögu sem ég hef nokkurn tíman heyrt. Addý og Dengsi voru einhvern tíman að fara að sofa og Dengsi var alveg að drepast í höfðinu (man ekki alveg hvort þetta var á Þjóðhátíðinni, það var e-r hausverkur að hrjá Dengsa þá, hehe smá einka húmor). Addý hugsar náttúrulega vel um sinn mann og fer og finnur fyrir hann verkjatöflur. Þegar HÚN rennir niður töflunum man hún að hún var að sækja þær fyrir Dengsa... Hún hugsar sem sagt svo vel um hann að hún tekur inn lyfin hans fyrir hann... Algjör snilld!!

Jæja, það er alveg fullt í gangi í samfélaginu en aldrei þessu vant er ég voðalega lítið að spá í því og missi eiginlega bara alltaf af fréttum núna. Það kemst í lag þegar næturvaktirnar verða búnar. Það eina sem ég man eftir úr fréttunum er að hrefnuveiðar eru byrjaðar aftur. Mér líst bara vel á það. Ég hálf vorkenni fólkinu sem er svona svakalega mikið á móti þessu. Sérstaklega þessum fanatísku útlendingum sem ferðast heimshorna á milli til að mótmæla þessu. Ég held að þetta lið ætti að líta sér nær og athuga hvort það geti ekki bætt einhverja hluti í sínu eigin samfélagi - eins og heimilisleysi, fátækt o.s.frv. - áður en það fer að rífa sig yfir einhverjum hvalveiðum lengst út í ballarhafi sem snerta líf þeirra ekki neitt! Vissulega ber að fara varlega út í svona veiðar, sérstaklega ef dýrin eru í útrýmingarhættu og allt það, en ég er samt ekki alveg að ná svona fanatísku fólki. Maður hefur einhvern vegin á tilfinningunni að það að stoppa þessar veiðar sé líf þess og yndi. Ég vona bara að þetta fólk eigi ekki börn - því þau eru þá eflaust vanrækt þessa stundina - og ef það á maka þá er eins gott að hann hafi sama áhugann á þessu málefni..

Æi, ég er kannski komin út í vitleysu hérna en svona öfgar fara mikið í mig, sama hvaða nafni þær nefnast og að hverju þær snúa. Maður gerir heiminn nefnilegast ekki að betri stað nema maður hugsi vel um sig og sína og komi vel fram og af virðingu við aðra. Svona fólk er alltaf að reyna að breyta heiminum og mótmæla en hugsar aldrei um neitt meira en rassgatið á sjálfu sér og ber enga virðingu fyrir neinum. Þoli ekki svona fólk - ef það fór eitthvað fram hjá ykkur :p Maður bítur samt alltaf í tunguna á sér ef maður hittir svona týpur því það er vita vonlaust að ætla sér að eiga viti bornar samræður við það..

Annars getur maður svo sem sagt sína meiningu án þess að vera dónalegur. En stundum er best að þegja. Ég lærði það í kennslunni í vetur. Maður þurfti stundum - sem betur fer alls ekki oft - að láta ótrúlegasta skít yfir sig ganga. Því miður er ákveðið fólk hérna í bænum sem ég get ekki litið sömu augum og áður eftir þennan vetur - en maður lærir það að maður ber ekki ábyrgð á hegðun annarra.

En vá hvað ég er neikvæð eitthvað. Hef greinilega þurft að fá útrás fyrir eitthvað röfl!! Eða þá að mig vantar að kúra hjá ákveðnum aðila... Anyhow, ætla að fara að horfa á eitthvað skemmtilegt. Later..

Engin ummæli: