07 ágúst 2003

Þá er maður loksins komin heim eftir alveg hreint frábæra Þjóðhátíð. Veðrið var alveg frábært og allt í föstum skorðum - fyrir utan brekkusönginn.

Ég var mætt í Herjólf kl 11 á föstudagsmorgninum og við tók þriggja tíma veltingur.. Að venju varð ég sjóveik. Þegar til Eyja var komið fór ég beint í Dalinn og fór í setningarkaffi á Sjómannasund 9. Var mætt á undan Kidda og Hildi.. Surprise, surprise.. Sumt breytist aldrei ;) Eftir kaffið var brunað heim í djammblokkina þar sem við lögðum okkur fyrir átök kvöldsins. Um kvöldið var að sjálfsögðu farið í Dalinn og hápunkurinn var á miðnætti þegar kveikt var í brennunni á Fjósakletti. Hún var glæsileg að venju. Eftir brennuna var farið með púkana heim og sest að sumbli í stofunni hjá Kidda og Hildi. Við Steini misstum okkur aðeins út í stjórnmálaumræðu en henni var hætt áður en við vorum komin út á hálann.. Það var nú einu sinni Þjóðhátíð. Síðan var aftur brunað í Dalinn og djammað til 6 - en þá vildi Kiddi endilega fara heim og ég og Hildur létum undan. Drífa ákvað að vera samfó og við ákváðum að finna okkur skemmtilegan bekkjarbíl til að fara í heim. Drífa var með gítarinn um öxl og ekki vildi betur til en svo að yours truly labbaði á hann og var illt í gagnauganu það sem eftir lifði þjóðhátíðar.. Ekki er hægt að kenna áfengisneyslu um þessar ófarir þar sem lítið var drukkið þetta kvöld af einhverjum ástæðum. Ég er víst bara svona mikill klaufi! Það verður svo víst að taka það fram að þegar við fórum heim kl. 6 var Steini ennþá sprell lifandi!! Enda var tekin mynd af því til að skjalfesta það :p

Á laugardeginum var ég vöknuð hress og spræk í hádeginu (að vísu hálf raddlaus, hálsbólgan eitthvað að láta vita af sér). Kiddi og Hildur fóru með púkann inn í Dal til að sjá brúðubílinn en ég ákvað að fara með hana ömmu mína í bíltúr í góða veðrinu. Við keyrðum upp á Stórhöfða og skoðuðum allt sem okkur datt í hug að skoða á eyjunni. Ekki spillti fyrir að skyggnið var frábært og sást vel upp á land. Þegar heim var komið var kominn tími á síðdegislúrinn. Þegar við vöknuðum var kíkt yfir í næstu íbúð þar sem ég fékk hárið á mér sléttað fyrir kvöldið (veitti ekki af eftir fastaflétturnar sem ég var með á föstudagskvöldinu). Um kvöldmatarleytið var okkur svo boðið í reyktan lunda á neðri hæðinni. Lundinn smakkaðist bara ljómandi vel. Að þessu sinni var farið frekar seint í Dalinn þar sem Hildur ætlaði að vera búin að svæfa Magnús áður en við færum. Það var því setið að sumbli fram eftir kvöldi. Við Hildur rétt náðum inn í Dal áður en að flugeldasýningin byrjaði. Hún er alltaf flott - en samt verð ég að viðurkenna að mér finnst brennan alltaf tilkomumeiri. Þetta kvöld var pirraða kvöldið mitt. Mér var illt í hálsinum og hausnum, nánast alveg raddlaus og alltaf verið að segja mér að þegja eða hlægja að mér. Það kom samt ekki til greina að láta það eyðileggja kvöldið svo ég dró Drífu og Hildi með mér á danspallinn og rölt um dalinn. Eitthvað fjör hefur verið hjá okkur því ég fór ekki heim fyrr en hálf 8 og Hildur kom heim kl. 10... Drífa vakti Steina til að fara heim kl. 8 - já, hann sofnaði víst á beddanum inn í hvíta tjaldinu aldrei þessu vant :p

Á sunnudeginum vorum við ekki alveg eins spræk (ég alveg raddlaus) þegar við vöknuðum en drifum okkur samt með Magnús inn í Dal. Dagskráin var að mestu búin þegar við komum en við Hildur tókum til í hvíta tjaldinu áður en við röltum heim á leið. Þar sem við erum öll orðin svo gömul lögðum við okkur þegar heim var komið til að geta djammað almennilega seinasta kvöldið. Ég tuggði og tuggði hálstöflur og drakk panodil hot í von um að geta sungið eitthvað í brekkusöngnum um kvöldið. Að þessu sinni fór Magnús í pössun en við vorum samt öfga sein að drífa okkur í Dalinn. Ég var komin upp í brekku til ömmu og þeirra um hálf ellefu leytið. Það var mikill spenningur í mannskapnum eftir að sjá hver yrði með brekkusönginn, þyrlupallurinn frægi jók mjög á þá eftirvæntingu. Klukkan rúmlega 11 kom þyrlan fljúgandi við mikinn fögnuð og kastaði út pakka frá Johnsen. Bréfið frá honum var lesið upp og Róbert Marshall kynntur sem brekkusöngvari. Hann stóð sig vel - en var enginn Johnsen.. Það verður brekkusöngur allra tíma á næstu Þjóðhátíð þegar Árni snýr aftur! Röddin mín gerði mér þann greiða að geta sungið í brekkusöng en hún hvarf reyndar fljótlega aftur. Eftir brekkusönginn var farið í hið árlega pulsupartý í hvíta tjaldinu. Eftir það hélt ég til á stóra danspallinum. Var þar þar til stelpurnar vildu fara að rölta eitthvað um 5-6 leytið. Kl. 7 var djammúthaldið mitt búið og ég rölti heim á leið. Ég var öfga sátt eftir skemmtilega þjóðhátíð þegar ég stoppaði á leiðinni heim og horfði yfir dalinn. Ekki spurning um að ég mæti aftur að ári :)

Mánudagurinn var svo bara ÞYNNKUDAGUR. Legið og horft á Friends. Ég fór út að borða með öllu liðinu að vestan á veitingastað sem heitir Fjólan og er á Hótel Þórshamri í Eyjum. Mæli alveg með honum. Á þriðjudagsmorgninum var svo mætt í Herjólf rétt fyrir 8 og við amma vorum komnar í bæinn um hálf 12. Amma var á einhverju útstáelsi og lagði sig aðeins en Ingþór kom í heimsókn til mín. Alltof stutta heimsókn að vísu en það var öfga gott að fá að kúra sig aðeins hjá honum. Við lögðum svo af stað vestur rétt fyrir kl 4 og vorum komnar heim um hálf 11. Ég mætti svo í vinnu í morgun og aftur núna í kvöld. Ég ætla að nota næstu daga til að hvíla mig eftir helgina en síðan verður farið á fullt í að pakka og pakka.. Eftir 20 daga ætla ég víst að vera komin suður!

Engin ummæli: