30 mars 2004

Mér skilst að sumum sé farið að langa að vita hvað ég sé að bralla þannig að það er best að bæta úr bloggleysinu. Á mánudaginn í síðustu viku byrjaði æfingakennslan og það hefur því verið lítið um annað en vinnu og skóla hjá mér síðan þá. Helgin var meira að segja bara róleg. Var sofnuð kl. hálf 10 á föstudagskvöldið. Kíkti svo í vídeógláp til vinar míns á laugardagskvöldið. Á sunnudaginn fórum við Kiddi í Húsdýragarðinn. Ég kíkti svo til Öggu að fá lánuð föt og var bara að dúllast. Í dag á svo að skíra hann Fjólmund. Það eru víst allir farnir að vona að hann fái nú loksins almennilegt nafn greyið..

29 mars 2004

Hún mamma gamla á afmæli í dag. Til hamingju með daginn mamma mín! Hafðu það öfga gott í dag :)

27 mars 2004

Hægri hér! Sódóma er snilld ;)

24 mars 2004

Jæja, þá er maður búinn að vera æfingakennari í heila 2 daga - og maður lifir enn! Ekki það að ég byggist við því að lifa ekki þessar tvær vikur af, það er allt hægt fyrst ég meikaði heilan vetur fyrir vestan. En þetta er allt öðruvísi. Bæði er maður að kenna allt önnur fög og svo eru þetta yngri krakkar en ég er vön að kenna. Maður er búinn að vera ansi þreyttur eftir síðustu daga en maður harkar það af sér og fer og bókar í nokkra tíma og undirbýr svo kennslu næsta dags á kvöldin. Ég held ég verði að bíða með ræktina þangað til eftir æfingakennslu, það passar bara varla meira inn í stundaskrána hjá mér núna.

Annars er maður undirlagður af kennsluáætlunum og gerir lítið þessa dagana. Það fór samt ekki fram hjá mér bílslysið sem var í Ártúnsbrekkunni á mánudaginn. Ég var alveg orðlaus á öllu fólkinu sem var búið að safnast saman í kringum slysstaðinn til að sjá þegar var verið að klippa út úr bílnum. Hefur fólk alveg glatað virðingu fyrir fólkinu í kringum sig???

Fyrst ég er nú byrjuð að böggast verð ég að viðurkenna að mér finnst DV hafa farið alveg yfir strikið með að birta lögregluskýrslur í heild sinni. Vissulega á almenningur rétt á að vita ýmislegt en fólk sem ber vitni í svona málum á líka rétt á ákveðinni nafnleynd. Hagsmunir heildarinnar eru langt frá því að vera meiri en hagsmunir þeirra einstaklinga. Ég vona bara að það verði tekið almennilega á þessu máli og svona sorpblaðamennska nái ekki fótfestu á Íslandi.

Ég horfði á Árna Johnsen í Kastljósinu á mánudagskvöldið. Hann komst bara ágætlega frá þessu kallinn. Mér finnst frábært að sjá hann vekja athygli á því í hve slæmu fari fangelsismál Íslendinga eru. Ég hef aldrei getað skilið hver hagnaður samfélagsins er af því að reka fangelsi sem eru hreinar og klárar krimmaframleiðslur. Í þættinum kom fram að Árni lumaði á trompi sem hann ætlaði að spila út síðar. Hvað svo sem það er þá fagna ég öllu sem verður til þess að bæta stöðu þessa málaflokks. Þó fyrr hefði verið.

22 mars 2004

Jæja, þá er æfingakennslan byrjuð og útlit fyrir lítið líf fram yfir prófin í maí. Mentorverkefnið sem ég hef verið að taka þátt í er líka að klárast og í næstu viku fer ég á sambandsslitanámsskeið þar sem rætt verður um hvernig best sé að slíta tengsl við mentorbarnið sitt þannig að áfallið verði sem minnst fyrir það. Þar þarf ég líka að skila 6-8 blaðsíðna ritgerð á næstunni sem bætist ofan á allt annað í skólanum hjá mér þannig að páskarnir verða undirlagðir í prófundirbúning og ritgerðaskrif.

Á föstudaginn var smá djamm í vinnunni en ég var bara róleg á því og var driver fyrir gamla liðið. Ég fór svo snemma í háttinn og mætti í vinnu á laugardagsmorguninn. Það stórkostlega afrek gerðist svo eftir vinnu að ég fór í ræktina í þriðja skiptið þá vikuna!! Reyndar ákváðum við að fara ekki í Hreyfingu því veðrið var svo gott svo í staðin fórum við í langan göngutúr í Fossvoginum. Ég er svo mikið að pæla hvort ég eigi að kaupa mér kort í Hreyfingu eða vera dugleg að fara í göngutúra í sumar og kaupa bara kort í haust. Kannski maður sendi fyrirspurn til þeirra hvað kortið kosti - ég hef einhvern vegin á tilfinningunni að ef það verði leiðinlegt veður þá drífi maður sig ekki í göngutúr... Á maður ekki að vera hreinskilinn við sjálfan sig í þessu! Allavegana, stelpurnar komu í mat á laugardaginn og við djömmuðum um kvöldið. Í gær var svo frænkudagur. Kristinn Breki átti þann dag. Hann kom með þá ósk að fara á kaffihús - af því að það var svo langt síðan hann hafði farið svoleiðis. Hann var afar kúltiveraður á Brennslunni, drakk kakóið sitt og litaði. Sagði svo mjög pent þegar hann var búinn að fá nóg, ,,Jæja, eigum við ekki að fara að gefa öndunum brauð?" Alltaf jafn yndislegur púkinn.

En jæja, verð að fara að kíkja yfir stærðfræðina sem ég á að kenna á morgun. Einhvern vegin finnst manni að það ætti að vera auðvelt námslega séð að kenna 10 ára púkum, að maður ætti nú að kunna námsefnið, en rúmfræðin hefur eitthvað skolast til síðan ég var í grunnskóla :-/ Þarf að taka smá upprifjun!

17 mars 2004

Jamms og jæja, minnz er enn á lífi. Er að drukkna í vinnu núna við undirbúning kennsluverkefnisins okkar. Mestur tíminn undanfarnar tvær vikur er búinn að fara í það. En það verður tilbúið á hádegi á föstudaginn og öll helgin fer sko í að halda upp á að það sé búið!! Þá er stefnan á að leyfa Kidda með í sund með mér og Valdimari mentorbarni. Síðan verður víst eitthvað smá húllumhæ í vinnunni seinnipartinn á föstudaginn. Á laugardagsmorguninn verður svo vaknað snemma og horft á tímatökur, farið beint í vinnuna, svo er það ræktin, lagt sig, sturta, góður matur og svo förum við Kennóvinkonurnar á djammið til að halda upp á skilalok verkefnisins. Það verður svo ekki farið að sofa fyrr en eftir formúluna á sunnudagsmorguninn. Good plan right ;)

Annars er það stóra fréttin að ég fór í ræktina í gær!!! Svaka dugnaður. Við vinkonurnar áttum gjafakort í Hreyfingu í nokkra daga og ákváðum að nýta okkur það og sjá hvernig okkur litist á. Þá var stefnan tekin á að kaupa árskort ef stöðin félli í kramið. Ég verð nú að segja að við urðum fyrir miklum vonbrigðum með þjónustuna þarna og þó svo við ætlum að nýta okkur þetta nokkurra daga kort þá veit ég ekki hvert framhaldið verður. Ég er eiginlega mjög skúffuð því þetta er svo góð staðsetning fyrir mig, bæði nálægt heima og líka stutt frá vinnunni. Okkur býðst reyndar ágætis díll í Baðhúsið og Sporthúsið en ég er ekkert voðalega spennt fyrir því að fara þangað. Þannig að ef einhver getur mælt með góðri líkamsræktarstöð fyrir mig þá er orðið laust...

12 mars 2004

Nokkrir góðir frasar, yes here = ja hérna ;)


The raisin at the end of the hot-dog = Rúsínan í pylsuendanum.

I measure one-pulled with it = Ég mæli eindregið með því.

Now there won't do any mitten-takes = Nú duga engin vettlingatök.

I come completely from mountains = Ég kem alveg af fjöllum.

Thank you for the warm words into my garden = Þakka þér fyrir hlý orð í minn garð.

Everything goes on the back-legs = Það gengur allt á afturfótunum.

He's comepletely out driving = Hann er alveg úti að aka.

It lies in the eyes upstairs = Það liggur í augum uppi.

She gave me under the leg = Hún gaf mér undir fótinn.

He stood on the duck = Hann stóð á öndinni.

I teach in breast of him = Ég kenni í brjósti um hann.

On with the butter!!! = Áfram með smjörið!

Að ógleymdum Gauja Þórðar frösunum:

I will find him in the beach = Ég skal finna hann í fjöru

Let´s show them were David bought the bear = Sýnum þeim hvar Davíð keypti ölið.

smá viðbót:

farðu hnetur = go nuts

það er mjöðm að vera ferningur = it´s hip to be square

10 mars 2004

Ég er búin að vera að læra með stelpunum í vikunni við undirbúning æfingakennslunnar okkar. Það er þröngt á þingi niðrí Kennó þessa dagana út af ráðstefnu sem kennararnir eru á svo við fórum á kaffihús að læra í dag. Við fórum á Brennsluna og ég verð að viðurkenna að þó svo ég hafi oft farið þangað þá er ég ennþá að reyna að skilja hver tilgangurinn er með hjólastólaklósettinu þar. Ég fatta eiginlega ekki húmorinn á bak við það. Fyrir þá sem ekki hafa farið á Brennsluna þá er kaffihúsið 2 pallar en upp á efri pallinn liggur frekar þröngur stigi sem ekki er fræðilegur að koma hjólastól upp. Maður þarf síðan að labba yfir efri pallinn og fara svo niður þröngan stiga niður í kjallara til að fara á klósettið. Þar er svo extra stórt hjólastólaklósett... Það þarf varla að taka fram að það er ekki sjens að koma hjólastól þarna niður - ja ekki nema það væri enginn í honum..

Annað sem er merkilegt á Brennslunni líka, það er að hafa reyk og reyklaus borð nánast hlið við hlið. Einu sinni var neðri pallurinn alltaf reyksvæði og efri reyklaus en núna virðist það vera bara happa glappa á hvaða borðum megi reykja og hvar ekki. Þannig í rauninni er ekkert reyklaust svæði þarna! Er það ekki lögbrot í dag?

08 mars 2004

Leiðarbók smeiðarbók arrgg!! Ég á að skila leiðarbók í hinu bráðskemmtilega námskeiði NKS í dag og mér er ekkert að ganga að klambra henni saman aldrei þessu vant. Helena fær alveg þúsund þakkir fyrir að hafa nennt að lesa hana yfir fyrir mig!!

07 mars 2004

Annars er nú bara mest lítið að frétta af þessum bænum. Minnz er alveg ónýtur eftir vöku helgarinnar - aldurinn greinilega eitthvað farinn að segja til sín :p Næsta vika verður undirlögð af gerð kennsluáætlunar fyrir æfingakennsluna. Ég vona bara að það gangi samt fljótt hjá okkur - við hljótum að geta smellt saman einni 15 bls áætlun á nokkrum dögum! Þar næsta vika fer þá í gerð kennslugagna fyrir þemaverkefnið okkar, verður ágætt ef við náum að vera ekki í stresskasti með þetta.

Ég sá í fréttunum að menntamálaráðuneytið áminnti MÍ fyrir að vera með of marga nemendur, þe. fleiri nemendur en fjárlagaramminn segir til um. Mér hryllir við svona fréttum. Þó svo að mér finnist það ekki eiga að vera markmið kennara að koma sem flestum nemendum í gegnum stúdentspróf þá vil ég að þjóðfélagið okkar sjái sóma sinn í því að gera þeim nemendum sem vilja mennta sig kleift að gera það. Þorgerður Katrín er búin að setja tóninn fyrir það hvernig hún mun stjórna þessu ráðuneyti og mér finnst það skelfilegt. Þetta er ekki það sem íslenskt menntakerfi þarf á að halda, alveg sama á hvaða stigi námið er. Einn kennarinn minn í Kennó hefur oft sagt að í íslensku menntakerfi séu oftast voðalega flottar byggingar en svo sé alltaf miklu minna lagt upp úr faglega hlutanum og því hvað eigi að eiga sér stað innan veggja þessara flottu bygginga. Það er nokkuð ljóst að það á ekkert eftir að breytast í þeim málum næstu árin. Þorgerður hefur hreykt sér af því að sjálfstæðismenn séu þeir einu í pólitík sem kunni að fara með peninga. Hún mætti hætta að pæla svona mikið í peningamálunum og fara að pæla aðeins í faglegri hlutum í menntamálum. Ekki veitir af í íslensku menntakerfi í dag.

Jæja, þá er fyrsta formúla ársins búin. Verð að viðurkenna að þetta var með leiðinlegri keppnum sem ég hef séð - alveg burtséð frá afar slöku gengi minna manna. Ég vona bara að þetta sé ekki fyrirboðinn fyrir tímabilið þá á maður alveg eftir að hætta að nenna að horfa á þetta. Ég hefði viljað sjá Shuma hringa Montoya, er ekki alveg að skilja að hann skildi ekki hafa gert það. Hvað þá að hann hafi leyft Button að afhringa sig. Vissulega var skynsamlegt að hlífa bílnum í restina en fyrr má nú aldeilis... Það hefði alveg bjargað keppninni - hefði verið það eina markverða sem gerðist! Maður biður bara um að Williams og McLaren nái að vinna almennilega í sínum bílum fyrir næstu keppni og við fáum virkilega skemmtilegt tímabil!!

04 mars 2004

pure
Congrats! Your a Pure Angel! Angels, as far as most
of them go, are all compatabile creatures, but
Pure ones simply are symbols of God. Pure
Angels always appear when a child is born, when
a rainbow is seen, or when someone shares their
first kiss. They never grow old, an can appear
in the shape of a naked woman with white, bold
wings. Pure angels are the carriers of god, and
show their love to everyone in the world.


What Kind of ANGEL are you? (For Girls only) This Quiz has amazingly Beautiful Pictures!
brought to you by Quizilla


Ef einhver hefur efast um það þá er hér staðfesting á því að ég er algjör engill ;)

03 mars 2004

Minnz er í áheyrn í Rimaskóla þessa dagana. Í morgun var ég að hjálpa til í matreiðslustofunni. Það eru þemadagar í gangi og okkur kennaranemunum var skipt niður á stöðvar til að hjálpa til. Það gekk mun betur að aðstoða krakkana í seinna hollinu þegar ég var svona nokkurn vegin búin að læra sjálf hvernig maður bakar skúffuköku.. Ég er nú ekki mikið fyrir svona kökur og sætabrauð og hef því ekki lagt neina áherslu á að læra að baka en ég var orðin fínasti skúffukökubakari í restina!!