24 mars 2004

Jæja, þá er maður búinn að vera æfingakennari í heila 2 daga - og maður lifir enn! Ekki það að ég byggist við því að lifa ekki þessar tvær vikur af, það er allt hægt fyrst ég meikaði heilan vetur fyrir vestan. En þetta er allt öðruvísi. Bæði er maður að kenna allt önnur fög og svo eru þetta yngri krakkar en ég er vön að kenna. Maður er búinn að vera ansi þreyttur eftir síðustu daga en maður harkar það af sér og fer og bókar í nokkra tíma og undirbýr svo kennslu næsta dags á kvöldin. Ég held ég verði að bíða með ræktina þangað til eftir æfingakennslu, það passar bara varla meira inn í stundaskrána hjá mér núna.

Annars er maður undirlagður af kennsluáætlunum og gerir lítið þessa dagana. Það fór samt ekki fram hjá mér bílslysið sem var í Ártúnsbrekkunni á mánudaginn. Ég var alveg orðlaus á öllu fólkinu sem var búið að safnast saman í kringum slysstaðinn til að sjá þegar var verið að klippa út úr bílnum. Hefur fólk alveg glatað virðingu fyrir fólkinu í kringum sig???

Fyrst ég er nú byrjuð að böggast verð ég að viðurkenna að mér finnst DV hafa farið alveg yfir strikið með að birta lögregluskýrslur í heild sinni. Vissulega á almenningur rétt á að vita ýmislegt en fólk sem ber vitni í svona málum á líka rétt á ákveðinni nafnleynd. Hagsmunir heildarinnar eru langt frá því að vera meiri en hagsmunir þeirra einstaklinga. Ég vona bara að það verði tekið almennilega á þessu máli og svona sorpblaðamennska nái ekki fótfestu á Íslandi.

Ég horfði á Árna Johnsen í Kastljósinu á mánudagskvöldið. Hann komst bara ágætlega frá þessu kallinn. Mér finnst frábært að sjá hann vekja athygli á því í hve slæmu fari fangelsismál Íslendinga eru. Ég hef aldrei getað skilið hver hagnaður samfélagsins er af því að reka fangelsi sem eru hreinar og klárar krimmaframleiðslur. Í þættinum kom fram að Árni lumaði á trompi sem hann ætlaði að spila út síðar. Hvað svo sem það er þá fagna ég öllu sem verður til þess að bæta stöðu þessa málaflokks. Þó fyrr hefði verið.

Engin ummæli: