Jæja, þá er æfingakennslan byrjuð og útlit fyrir lítið líf fram yfir prófin í maí. Mentorverkefnið sem ég hef verið að taka þátt í er líka að klárast og í næstu viku fer ég á sambandsslitanámsskeið þar sem rætt verður um hvernig best sé að slíta tengsl við mentorbarnið sitt þannig að áfallið verði sem minnst fyrir það. Þar þarf ég líka að skila 6-8 blaðsíðna ritgerð á næstunni sem bætist ofan á allt annað í skólanum hjá mér þannig að páskarnir verða undirlagðir í prófundirbúning og ritgerðaskrif.
Á föstudaginn var smá djamm í vinnunni en ég var bara róleg á því og var driver fyrir gamla liðið. Ég fór svo snemma í háttinn og mætti í vinnu á laugardagsmorguninn. Það stórkostlega afrek gerðist svo eftir vinnu að ég fór í ræktina í þriðja skiptið þá vikuna!! Reyndar ákváðum við að fara ekki í Hreyfingu því veðrið var svo gott svo í staðin fórum við í langan göngutúr í Fossvoginum. Ég er svo mikið að pæla hvort ég eigi að kaupa mér kort í Hreyfingu eða vera dugleg að fara í göngutúra í sumar og kaupa bara kort í haust. Kannski maður sendi fyrirspurn til þeirra hvað kortið kosti - ég hef einhvern vegin á tilfinningunni að ef það verði leiðinlegt veður þá drífi maður sig ekki í göngutúr... Á maður ekki að vera hreinskilinn við sjálfan sig í þessu! Allavegana, stelpurnar komu í mat á laugardaginn og við djömmuðum um kvöldið. Í gær var svo frænkudagur. Kristinn Breki átti þann dag. Hann kom með þá ósk að fara á kaffihús - af því að það var svo langt síðan hann hafði farið svoleiðis. Hann var afar kúltiveraður á Brennslunni, drakk kakóið sitt og litaði. Sagði svo mjög pent þegar hann var búinn að fá nóg, ,,Jæja, eigum við ekki að fara að gefa öndunum brauð?" Alltaf jafn yndislegur púkinn.
En jæja, verð að fara að kíkja yfir stærðfræðina sem ég á að kenna á morgun. Einhvern vegin finnst manni að það ætti að vera auðvelt námslega séð að kenna 10 ára púkum, að maður ætti nú að kunna námsefnið, en rúmfræðin hefur eitthvað skolast til síðan ég var í grunnskóla :-/ Þarf að taka smá upprifjun!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli