11 janúar 2007

Heilsumanía

Jæja, þá er fyrstu vikunni á Rope yoga námskeiðinu lokið og ég lifi enn. Það er nánast lygilegt hvað ég er í lélegu formi og hvað það þarf mikið átak hjá mér til að halda smá spennu í kviðvöðvunum. Það er eins og það sé ekkert þar sem vöðvarnir eiga að vera :-/ En mér finnst þetta skemmtilegt og ég er harðákveðin í að koma mér í betra form. Ef eitt námskeið dugir ekki til þá verður bara drifið sig á annað ;)

Ég fékk bókina um endometriosu og mataræði og heildrænar lækningar loksins í gær. Ég byrjaði auðvitað strax að lesa og þetta er svakalega áhugaverð bók. Það verður spennandi að sjá hvort að þetta eigi eftir að hjálpa mér eitthvað. Ég er svo sem löngu farin að pæla í mataræðinu og það þarf ekki svakalega umbyltingu hjá mér en það er margt sem ég get gert betur. Kjarninn er hreinn matur, þe. lífrænt ræktað, rautt kjöt í algjöru lágmarki og mikið af ávöxtum og grænmeti - svona ef einhver vill bjóða mér í mat ;)

Markmið morgundagsins er svo að skrá mig á
NLP námskeið sem verður haldið í febrúar. Í stuttu máli lærir maður að hafa stjórn á huganum og að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum á svona námskeiði og það gerir öllum gott að læra það. Svona námskeið eru ekki gefins en það reyndist auðveldara að fjármagna það en ég hélt. Fræðslusjóður VR kemur þar sterkur inn.

Þannig að þegar 11 dagar eru liðnir af nýja árinu er heilsumanían á hraðri uppleið. Ekki það að það hafi verið strengd einhver áramótaheit á þessum bænum, rakettan mín hafði bara svona blússandi áhrif.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú bara mætir með matinn í poka ef þér er boðið í mat :)

Erla Perla sagði...

Hehehe, það er ekki eins gaman! Ætlar þú að koma með mat í poka á eftir??

En annars bara vei - skilaboðakerfið virkar :)