16 janúar 2007

Hljóð eða óhljóð?

Ég lá upp í rúmi í fyrrakvöldi og hugsaði, svona eins og maður gerir stundum. Ég fór að velta fyrir mér hljóðunum sem heyrast á milli íbúða í fjölbýlishúsum. Mér hefur nefnilega fundist heyrast svolítið mikið á milli íbúða hérna í blokkinni minni að undanförnu. Kannski er það ekkert meira en venjulega, ég er kannski bara farin að taka meira eftir því. Ég hef náttúrulega alltaf orðið vel vör við mæðgurnar á efri hæðinni eins og hefur verið sagt frá hér áður. Ég hugsa að það breytist seint. Ég held samt að ég sé að senda góða strauma upp því að ég mætti þeim í Heilsuakademíunni í gær. Mamman var að koma úr Rope yoga. Ekki í hnésokkunum góðu samt.

Svo eru það hjónin á neðri hæðinni. Hef svo sem aldrei séð þau - og aldrei heyrt í neinni konu svona þegar ég spái í því - en ég held samt að þetta séu hjón. Þetta er allavegana pottþétt gamall kall. Þau hlusta á fréttirnar á gömlu gufunni og hlustuðu á messurnar öll jólin. Svo hlýtur hann að vera eitthvað lasinn kallinn því hann hóstar svo mikið þegar hann fer að sofa. Og þegar hann vaknar - og stundum alla nóttina líka. Ég var að spá í að fara niður og bjóða honum hóstasaft í fyrrakvöldi en kunni svo ekki við það.

Svo er það stelpan við hliðina á mér. Ég held að hún eigi kall einhvers staðar út í bæ því hún er aldrei heima. Ég sé stundum kettina hennar tvo sem eru búnir að læra það að koma ekki of nálægt mínum hýbýlum. Sé hundinn eiginlega aldrei en heyri hann væla stundum. Svo heyri ég stundum síma hringja hátt og snjallt. Held samt að hann tilheyri mæðgunum víðfrægu á efri hæðinni.

Svo er það sá sem að pissar svo hátt og snjallt á morgnana - og stundum á kvöldin líka. Hlýtur að vera karlmaður því einhver er fallhæðin. Það fær mig alltaf til að glotta út í annað því að eitthvert skiptið kvörtuðu kellingarnar í Miðholtinu yfir því hvað það heyrðist hátt þegar bróðir minn pissaði á nóttunni. Það er spurning hvort að þetta sé hóstandi kallinn á neðri hæðinni. Læt það samt vera að reyna að komast að því.

Svo er auðvitað spurning hvaða ægilegu hljóð heyrist úr minni íbúð. Ég held nú samt að ég sé auðveldur nágranni, alltaf í vinnunni og kem bara heim til að sofa. Hlusta stundum á Sálina og gospel á kvöldin en aldrei eftir 10. Er svo vel upp alin. Ætli vekjaraklukkan mín sé ekki mest pirrandi, svona þegar ég er búin að snooza í tuttugasta skipti... Það er spurning. Ætli ég vilji nokkuð vita svarið við henni....

Engin ummæli: