30 júní 2004

Það er mikið um afmæli þessa dagana.

Njáll varð 14 ára í gær. Til hamingju með daginn elskan mín. Vonandi hafðirðu það öfga gott!

Hrafnhildur er svo 25 ára í dag. Til hamingju með daginn - hafðu það öfga gott í dag :)

29 júní 2004

Undur og stórmerki gerðust í morgun. Agga ræsti mig klukkan 7 og við skelltum okkur í Árbæjarlaugina að synda fyrir vinnu. Tímasetningin var reyndar aðeins off hjá okkur og ég var soldið sein í vinnuna en við bætum úr því næst. Stefnan er sett á Árbæjarlaugina klukkan 7 í fyrramálið, er einhver með okkur í sund? ;)

28 júní 2004

Minnz er bara þreyttur. Það ætti að banna að láta mæta í vinnu fyrir hádegi á mánudögum. Helgin var bara nokkuð róleg hjá mér. Á föstudaginn fór ég í göngutúr með mömmu og svo bara snemma í háttinn. Laugardagurinn fór nánast allur í þrif, bæði á sameigninni og íbúðinni. Ég lagðist svo í afslöppun yfir boltanum og kíkti svo aðeins út á lífið með Öggu um kvöldið. Við höfum bara sjaldan farið á jafn rólegt og ódýrt djamm saman. En það var gaman :)

Í gær var ég bara í leti - enda búin að öllu sem þurfti að gera. Það er reyndar kominn tími á að þrífa bílinn - sem er nú ekki mín sterkasta hlið. Kannski ég plati einhvern til að hjálpa mér við það á næstunni..

25 júní 2004

Þetta var nú meiri leikurinn í gær. Ég verð að viðurkenna að ég var að vona að Englendingarnir myndu merja þetta en Portúgalarnir áttu þetta samt fyllilega skilið. Tími Englendinga á stórmóti er greinilega ekki kominn ennþá.

Annars hefur vikan nú bara verið róleg. Ég hef setið heima og horft á EM og saumað út yfir leikjunum. Kláraði allan krosssauminn í gær og á því bara eftir að setja inn útlínurnar og þá er myndin tilbúin. Bara gaman að því. Þá fer maður að leita að mynd til að sauma fyrir Arnar Pál. Helgin verður eflaust bara róleg aftur. Agnes er að fara á færeyska daga í Ólafsvík, ég nennti ekki með. Tveggja daga fyllerí var einhvern vegin ekkert að heilla mig - ellimerki?

Það eru meira að segja komnir bakþankar með þjóðhátíðina. Ég ákveð það eftir helgi hvort ég borga miðann í dallinn eða ekki. Kiddi og Hildur eru líka tvístígandi, ætla kannski bara að koma upp á land, en mér heyrist á Pétri og Geira að þeir ætli. Kannski maður fari bara á sunnudeginum eða eitthvað.. Það kemur bara í ljós.

Hversu heimskt getur fólk eiginlega verið.....

24 júní 2004

Já, ég held að það vorkenni ekki margir Ítölunum....

23 júní 2004

Hver sér um þrif á kaffistofunni á þínum vinnustað??

Hérna á höfðanum á ekki að vera neinn í því starfi og ætlast er til þess að fólk gangi frá eftir sig sjálft og haldi kaffistofunni skikkanlegri. Það þarf kannski ekki að taka það fram að það gera það fæstir. Uppvaskið venjulega hleðst upp, ruslið yfirfyllist og liðið meira að segja bíður eftir því að einver annar lagi kaffi fyrir það. Nýjast hjá þeim er að raða könnunum sínum upp í röð við hliðina á kaffivélinni - án þess þó að nokkrum detti í hug að setja hana af stað.

Mér finnst þetta alveg ótrúlegur sóðaskapur og síðan ég byrjaði hérna allan daginn hef ég alltaf vaskað upp í hádeginu, skipt um rusl og gengið aðeins frá. Náttla það besta sem fyrir sóðana gat komið! En af hverju gengur fólk svona illa um? Er fólki bara orðið sama um allt í kringum sig og treystir á að aðrir þrífi upp eftir sig??

Ég sannfærist alltaf meira og meira um það að fólk er fífl!!

22 júní 2004

Jæja, þá er maður búinn að kjósa og koma atkvæðinu af stað vestur. Ég held ég geti sagt að ég hafi kosið skásta kostinn af þremur slæmum. Ákvað að það borgaði sig ekki að skila auðu. Mér finnst líka að forsetinn eigi að hafa málskotsrétt og ákvað því að styðja grísinn. Ég skil ekki alveg þau rök að forsetinn eigi ekki að vera pólitískur. Hefur hann ekki alltaf verið það upp að vissu marki? Frambjóðendur hafa í gegnum tíðina alltaf verið eyrnamerktir ákveðnum stjórnmálaflokkum, Pétur Kr. Hafstein var t.d. frambjóðandi íhaldsins 1996. Ég vil ekki hafa neina puntudúkku á Bessastöðum og þó svo ég væri svo sem kát með að sjá annan en Ólaf Ragnar þar þá er hann að gera margar þarfar breytingar á embættinu.

Með málskotsréttinn þá má samt alveg breyta formi hans í stjórnarskránni þannig að fleiri aðilar en forsetinn hafi þennan rétt. Mér líst vel á að hafa þetta líkt og í Danmörku þar sem ákveðinn fjöldi þingmanna getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um viss málefni. Ég held að það sé engum til ama að þessi réttur sé í stjórnarskrá á sem fjölbreyttastan máta - á meðan hann er ekki misnotaður. Við verðum að hafa einhvern varnagla til þess að þingið ofmetnist ekki í völdum sínum og það má ekki bjóða upp á þær aðstæður að einhverjir herrar á þinginu geti tekið allt löggjafarvaldið í sínar hendur. Það er staðan núna og það er engin trygging fyrir því að það skapist ekki svipað ástand í samfélaginu seinna meir (hver svo sem er í stjórn) ef ekki er skýr málskotsréttur í stjórnarskrá.

Umræðurnar um þessi mál eru því miður oft á fremur lágu plani og einkennast af hálf gerðum sandkassaleik. Davíð og Ólafur Ragnar hafa báðir dottið í þá gryfju gagnvart hvor öðrum. Það þarf að færa þær á hærra plan. Þetta á ekki að snúast um Davíð og Ólaf heldur hvernig fólk vill sjá lýðræðið virka í framtíðinni.

18 júní 2004

Ég lenti í soldið furðulegum aðstæðum á miðvikudagskvöldið. Það var smá rauðvínsteiti heima hjá mömmu fyrir vinnufélagana. Voða gaman og allt það nema að Ægir kvartar við mömmu að ég sé að áreita hann og Þórð kynferðislega af því að ég klæði mig alltaf í svo þröng föt. Hann vildi því óska eftir því að mamma léti mig vera í víðum mussum í vinnunni... Ég skil það ekki alveg, ég er aldrei í magabolum og sjaldan í einhverju flegnu og eiginlega aldrei í pilsi - mér finnst ég vera bara í ósköp venjulegum fötum.. En hvað segir fólk um þetta? Er þetta kynferðisleg áreitni? Má ég ekki klæða mig eins og mér finnst flott???

Jæja, þá er aftur að koma helgi. Það er naumast hvað tíminn líður hratt. Maður verður byrjaður aftur í skólanum áður en maður veit af. Ég fór í bæinn í gær með Dagnýju og fjölskyldu. Ég hugsa að það verði ekki endurtekið að ári. Ekki beint það skemmtilegasta að troðast í mannþrönginni og þurfa að bíða í röð ef maður ætlar að gera eitthvað. Kiddi greyið fór alveg í baklás yfir öllu fólkinu held ég bara. Arnar Páll svaf hins vegar á sínu græna þrátt fyrir öll lætin. Hann vaknaði nú samt aðeins til að brosa fyrir frænku sína - hinn eldri sagði hins vegar bara að hún væri með stóran rass. Maður þarf víst að passa hvað maður lætur út úr sér í nálægð við litla púka...

Þegar ég kom heim frá mömmu í gærkvöldi mætti ég Valdimari mentorbarni í Bólstaðarhlíðinni. Hann vildi endilega fá mig í heimsókn svo ég kíkti aðeins þangað. Átti þar ágætis spjall við mömmu hans og bróður - en Valdimar hafði náttla enga einbeitingu í að sitja undir svona spjalli og var fljótur út að leika aftur.

Ég ætla að fá að skjótast úr vinnunni á eftir til að kjósa í forsetakosningunum. Ég var að fatta það að ég þarf víst að gera það sem fyrst. Valið stendur á milli að kjósa Ólaf Ragnar eða skila auðu. Ég er ekki alveg búin að gera upp við mig hvað ég geri. Kemur í ljós í kjörklefanum. Þarf svo að koma atkvæðinu vestur - spurning hvort að pabbi verði á ferðinni í næstu viku.

Annars hefur vikan bara verið róleg. Ég hef reynt að fylgjast með EM eftir mætti. Horfði á Svíana vinna glæsilega en rétt náði að sjá lokin á leik Ítala og Dana. Það er svo formúla á helginni þannig að það er nóg að horfa á í imbanum. Annars ætla ég bara að vera róleg, verð að hjálpa Öggu Pöggu að flytja.

14 júní 2004

Eitt sem ég gleymdi - það átti að draga mig á djammið á laugardagskvöldið en um miðjan dag fékk ég sms; djamminu er frestað í kvöld vegna veðurs. Ég leit nú út um gluggann til að athuga hvort það væri komin einhver stórhríð en svo reyndist nú ekki vera. Það var bara hefðbundið Reykjavíkurveður - rok og rigning - úti. Ása og Anna Þóra verða hér eftir uppnefndar Pappírs Pésar! Það er náttla óþarfi að taka fram að í borg óttans, þar sem veðrið breytist á klukkutíma fresti, var komið hið fínasta veður um kvöldið. Djamminu frestað vegna veðurs.... Fuss og svei segi ég bara!


(ekki það að ég hafi verið í djammgírnum - en þá nennir maður bara ekki út, frestar ekki djammi vegna veðurs!)

Jæja, þetta var nú meiri rólegheita helgin. Ég fór í bíó með Öggu og Agnesi á föstudagskvöldið. Við sáum Harry Potter að sjálfsögðu. Ég var ekkert yfir mig hrifin af myndinni, mér fannst óþarfi að skálda inn í atburðarrásina og svo fannst mér vanta ákveðin atriði sem auðveldlega hefði verið hægt að hafa í samræmi við bókina. Þessi mynd náði allavegana síst minni upplifun af bókunum. Emma Thompson var hins vegar frábær sem prófessor Trelawney. Nýr Dumbledore var samt engan vegin að gera sig, náði ekki sama valdmannslega brag og hinn gamli. Ég held líka að það geti verið erfitt fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina að fatta allt í myndinni, söguþráðurinn byggir á því að fólk þekki bókina. Það pirraði mig soldið að mikið af samtölunum var beint upp úr bókinni en atburðarrásinni í kringum þau oft breytt óþarflega mikið. Þetta er samt must mynd að sjá en það er ástæða fyrir því að ég hef lítinn áhuga á að eiga Harry Potter myndirnar...

Á laugardaginn kíktum við Agnes í Ikea og puntuðum aðeins heima hjá okkur. Ég var svo að hjálpa Öggu Pöggu að mála nýju íbúðina. Við erum snilldar málarar!

Í gær var bara legið í leti. Horft á formúlu (pleh, won´t go there, minnz kláraði allavegana og það í stigasæti!) og snilldar leik á EM. Maður hálf vorkenndi Englendingunum eftir að hafa verið miklu betri aðilinn allan leikinn að tapa þessu svona. En þeir kláruðu ekki allan leikinn, héldu að þetta væri búið eftir 90 mínúturnar. Ég fór svo snemma upp í rúm og lá límd yfir The Da Vinci Code. Öfga spennandi bók - mæli með henni!!

11 júní 2004

Minnz er barasta orðinn gamall. Ég er alveg hreint búin að vera að kálast í bakinu þessa vikuna. Hef varla getað gengið og læti. Fór í nudd til Mæju í gær og er svona aðeins að koma til. Ætla allavegana að reyna að vera dugleg að hjálpa Öggu og Halldóri í nýju íbúðinni yfir helgina. Ég beilaði á þeim á miðvikudaginn og í gær því ég bara var að deyja í bakinu. Uss, ég held ég fari bara að leggjast í kör, ég er að fá hrukkur í kringum augun, alzheimer light og bakið að gefa sig!

09 júní 2004

Á laugardaginn leitaði ég út um allt að svörtu flíspeysunni minni. Ætlaði að vera í henni innan undir jakkanum um kvöldið því það var frekar kalt úti. Ég leitaði bókstaflega út um allt heima hjá pabba og skildi hreinlega ekkert í því hvað hafði orðið af peysunni, taldi mig muna nákvæmlega að ég hefði pakkað henni niður. Hefði meira að segja ætlað í henni út á föstudagskvöldið. Það er skemmst frá því að segja að þegar ég kom suður og var að ganga frá fötunum mínum fann ég peysuna hangandi inn í skáp. Ég hafði víst hætt við að taka hana með... Svona er maður sniðugur...

07 júní 2004

Jæja, þá er minnz kominn til byggða eftir alveg frábæra helgi fyrir vestan. Föstudagskvöldið var bara rólegt, ég kíkti með Hrafnhildi á rúntinn og fékk update á bæjarlífinu. Á laugardaginn vaknaði ég snemma og sótti Jóa, Badda og félaga þeirra inn á völl. Þeir voru að keppa í fótbolta við Víkarana og Ísfirðingana á helginni. Við fórum á seinni hálfleik og svo beint niðrá bryggju að horfa á hátíðahöldin. Mér fannst þetta hálf slappt eitthvað, lítil þátttaka í tunnuhlaupinu og því. Mér fannst heldur ekki við hæfi að sjá fólk fá sér í glas þarna. Ég fór svo í sund og flatmagaði í nuddpottinum langa lengi. Amma var svo búin að elda fyrir mig fiskibollur - nammi namm!! Langt síðan ég hef fengið svoleiðis!

Um kvöldið sótti ég strákana og sýndi þeim bæjarlífið í Bolungarvík. Ég held að þetta hafi verið soldið menningarsjokk fyrir þá en þeir skemmtu sér konunglega á ballinu. Bara gaman að því. Ég var víst ekki svakalega góður gestgjafi, þurfti að heilsa upp á svo marga - en það sýnir líka hvernig lífið er öðruvísi á svona litlum stað. Ég nennti svo ekki í messu á sjómannadaginn en fór í kaffið og á ljósmyndasýninguna. Mæli alveg með henni ef fólk á leið um víkina í sumar. Það var gaman að skoða myndir af mannlífinu heima í gegnum tíðina - sérstaklega fannst mér gaman að sjá myndir af Hafnargötunni og hvernig allt var einu sinni.

Í gærkvöldi fórum við amma í heimsókn til Dísu og Péturs. Þau eru alltaf jafn yndisleg og gott að koma til þeirra. Ég fékk að kíkja aðeins upp á 15 í gömlu íbúðina mína. Þar er búið að parketleggja og gera allt fínt. Það var soldið skrýtið að koma þangað aftur, fékk smá nostalgíu, verð að viðurkenna það. Ég kíkti svo á rúntinn með Hrafnhildi og var komin allt of seint heim náttúrulega. Kom svo bara suður núna í morgun. Frábært að fljúga - annað en á föstudaginn.

Annars verður nóg að gera næstu daga og vikur. Er að fara á Harry Potter í kvöld með Öggu og Agnesi. Agga Pagga er svo að fara að flytja og ég verð næstu kvöld að hjálpa henni að pakka niður. Svo þarf að þrífa nýju íbúðina og taka allt í gegn og ég ætla að hjálpa til við það líka.

Annars eru allar einkunnir komnar inn. Ég fékk 7,5 í síðasta prófinu - námskrárfræði og námsmat. Er bara ánægð með það. Hefði viljað gera betur en ég held ég geti bara verið sátt miðað við hvað ég hafði lítinn tíma fyrir skólann í vetur.

03 júní 2004

Minnz er að fara vestur á morgun. Pabbi bauð mér vestur svo ég gæti haldið sjómannadaginn hátíðlegan í heimahögunum. Jói vinur minn er að fara vestur á helginni til að keppa í fótbolta og það verður gaman að sýna honum bolvíska menningu! Eins gott að það verði nóg af sætum stelpum á ballinu fyrir hann og fótboltaliðið! :p

02 júní 2004

Ja há. Þá hefur forsetinn gefið það út að hann muni ekki staðfesta fjölmiðlalögin. Það verður afar forvitnilegt að fylgjast með atburðarásinni næstu daga. Mér fannst yfirlýsingin hans góð og skilmerkileg. Það er bara vonandi að ráðamenn taki á þessu máli af skynsemi og að umræðan um lög af þessu tagi sem og um vinnubrögð þingsins verði málefnaleg.

Hún Ása Gunnur er 23 ára í dag. Til hamingju með daginn skvís! Hafðu það öfga gott í dag :)