07 júní 2004

Jæja, þá er minnz kominn til byggða eftir alveg frábæra helgi fyrir vestan. Föstudagskvöldið var bara rólegt, ég kíkti með Hrafnhildi á rúntinn og fékk update á bæjarlífinu. Á laugardaginn vaknaði ég snemma og sótti Jóa, Badda og félaga þeirra inn á völl. Þeir voru að keppa í fótbolta við Víkarana og Ísfirðingana á helginni. Við fórum á seinni hálfleik og svo beint niðrá bryggju að horfa á hátíðahöldin. Mér fannst þetta hálf slappt eitthvað, lítil þátttaka í tunnuhlaupinu og því. Mér fannst heldur ekki við hæfi að sjá fólk fá sér í glas þarna. Ég fór svo í sund og flatmagaði í nuddpottinum langa lengi. Amma var svo búin að elda fyrir mig fiskibollur - nammi namm!! Langt síðan ég hef fengið svoleiðis!

Um kvöldið sótti ég strákana og sýndi þeim bæjarlífið í Bolungarvík. Ég held að þetta hafi verið soldið menningarsjokk fyrir þá en þeir skemmtu sér konunglega á ballinu. Bara gaman að því. Ég var víst ekki svakalega góður gestgjafi, þurfti að heilsa upp á svo marga - en það sýnir líka hvernig lífið er öðruvísi á svona litlum stað. Ég nennti svo ekki í messu á sjómannadaginn en fór í kaffið og á ljósmyndasýninguna. Mæli alveg með henni ef fólk á leið um víkina í sumar. Það var gaman að skoða myndir af mannlífinu heima í gegnum tíðina - sérstaklega fannst mér gaman að sjá myndir af Hafnargötunni og hvernig allt var einu sinni.

Í gærkvöldi fórum við amma í heimsókn til Dísu og Péturs. Þau eru alltaf jafn yndisleg og gott að koma til þeirra. Ég fékk að kíkja aðeins upp á 15 í gömlu íbúðina mína. Þar er búið að parketleggja og gera allt fínt. Það var soldið skrýtið að koma þangað aftur, fékk smá nostalgíu, verð að viðurkenna það. Ég kíkti svo á rúntinn með Hrafnhildi og var komin allt of seint heim náttúrulega. Kom svo bara suður núna í morgun. Frábært að fljúga - annað en á föstudaginn.

Annars verður nóg að gera næstu daga og vikur. Er að fara á Harry Potter í kvöld með Öggu og Agnesi. Agga Pagga er svo að fara að flytja og ég verð næstu kvöld að hjálpa henni að pakka niður. Svo þarf að þrífa nýju íbúðina og taka allt í gegn og ég ætla að hjálpa til við það líka.

Annars eru allar einkunnir komnar inn. Ég fékk 7,5 í síðasta prófinu - námskrárfræði og námsmat. Er bara ánægð með það. Hefði viljað gera betur en ég held ég geti bara verið sátt miðað við hvað ég hafði lítinn tíma fyrir skólann í vetur.

Engin ummæli: