22 júní 2004

Jæja, þá er maður búinn að kjósa og koma atkvæðinu af stað vestur. Ég held ég geti sagt að ég hafi kosið skásta kostinn af þremur slæmum. Ákvað að það borgaði sig ekki að skila auðu. Mér finnst líka að forsetinn eigi að hafa málskotsrétt og ákvað því að styðja grísinn. Ég skil ekki alveg þau rök að forsetinn eigi ekki að vera pólitískur. Hefur hann ekki alltaf verið það upp að vissu marki? Frambjóðendur hafa í gegnum tíðina alltaf verið eyrnamerktir ákveðnum stjórnmálaflokkum, Pétur Kr. Hafstein var t.d. frambjóðandi íhaldsins 1996. Ég vil ekki hafa neina puntudúkku á Bessastöðum og þó svo ég væri svo sem kát með að sjá annan en Ólaf Ragnar þar þá er hann að gera margar þarfar breytingar á embættinu.

Með málskotsréttinn þá má samt alveg breyta formi hans í stjórnarskránni þannig að fleiri aðilar en forsetinn hafi þennan rétt. Mér líst vel á að hafa þetta líkt og í Danmörku þar sem ákveðinn fjöldi þingmanna getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um viss málefni. Ég held að það sé engum til ama að þessi réttur sé í stjórnarskrá á sem fjölbreyttastan máta - á meðan hann er ekki misnotaður. Við verðum að hafa einhvern varnagla til þess að þingið ofmetnist ekki í völdum sínum og það má ekki bjóða upp á þær aðstæður að einhverjir herrar á þinginu geti tekið allt löggjafarvaldið í sínar hendur. Það er staðan núna og það er engin trygging fyrir því að það skapist ekki svipað ástand í samfélaginu seinna meir (hver svo sem er í stjórn) ef ekki er skýr málskotsréttur í stjórnarskrá.

Umræðurnar um þessi mál eru því miður oft á fremur lágu plani og einkennast af hálf gerðum sandkassaleik. Davíð og Ólafur Ragnar hafa báðir dottið í þá gryfju gagnvart hvor öðrum. Það þarf að færa þær á hærra plan. Þetta á ekki að snúast um Davíð og Ólaf heldur hvernig fólk vill sjá lýðræðið virka í framtíðinni.

Engin ummæli: