18 júní 2004

Jæja, þá er aftur að koma helgi. Það er naumast hvað tíminn líður hratt. Maður verður byrjaður aftur í skólanum áður en maður veit af. Ég fór í bæinn í gær með Dagnýju og fjölskyldu. Ég hugsa að það verði ekki endurtekið að ári. Ekki beint það skemmtilegasta að troðast í mannþrönginni og þurfa að bíða í röð ef maður ætlar að gera eitthvað. Kiddi greyið fór alveg í baklás yfir öllu fólkinu held ég bara. Arnar Páll svaf hins vegar á sínu græna þrátt fyrir öll lætin. Hann vaknaði nú samt aðeins til að brosa fyrir frænku sína - hinn eldri sagði hins vegar bara að hún væri með stóran rass. Maður þarf víst að passa hvað maður lætur út úr sér í nálægð við litla púka...

Þegar ég kom heim frá mömmu í gærkvöldi mætti ég Valdimari mentorbarni í Bólstaðarhlíðinni. Hann vildi endilega fá mig í heimsókn svo ég kíkti aðeins þangað. Átti þar ágætis spjall við mömmu hans og bróður - en Valdimar hafði náttla enga einbeitingu í að sitja undir svona spjalli og var fljótur út að leika aftur.

Ég ætla að fá að skjótast úr vinnunni á eftir til að kjósa í forsetakosningunum. Ég var að fatta það að ég þarf víst að gera það sem fyrst. Valið stendur á milli að kjósa Ólaf Ragnar eða skila auðu. Ég er ekki alveg búin að gera upp við mig hvað ég geri. Kemur í ljós í kjörklefanum. Þarf svo að koma atkvæðinu vestur - spurning hvort að pabbi verði á ferðinni í næstu viku.

Annars hefur vikan bara verið róleg. Ég hef reynt að fylgjast með EM eftir mætti. Horfði á Svíana vinna glæsilega en rétt náði að sjá lokin á leik Ítala og Dana. Það er svo formúla á helginni þannig að það er nóg að horfa á í imbanum. Annars ætla ég bara að vera róleg, verð að hjálpa Öggu Pöggu að flytja.

Engin ummæli: