01 nóvember 2006

Læknar og spítalar

Ég hef aldrei verið hrifin af læknum og enn síður af spítölum en hef því miður talsvert þurft að nýta mér þjónustu þeirra þetta árið. Mér hefur oft verið hugsað til frasans ,,við erum með besta heilbrigðiskerfið í heiminum". Það er nefnilegast langt í frá að svo sé og það er ég búin að reka mig á aftur og aftur. Ég myndi hins vegar hiklaust halda því fram að starfsfólkið innan heilbrigðisgeirans væri með því besta sem gerist og það er að vinna frábært starf við oft ansi ömurlegar aðstæður.

En það eru undantekningar á því eins og á öllu öðru. Á mánudagskvöldið þurfti ég að fara niðrá Læknavaktina á Smáratorgi og var þjónustan þar svo innilega fyrir neðan allar hellur að ég get bara ekki annað en sagt frá því. Ég hringdi þangað fyrst til að leita ráða vegna afar slæms höfuðverkjar sem var að hrjá mig og indæl hjúkka sagði mér að koma strax til þeirra sem ég og gerði. Mamma fór með mér því ég var í engu ástandi til að keyra sjálf. Það var enginn að bíða í móttökunni svo við fórum strax til ritarans og var mér þá svo illt að ég hálf grét og stóð varla í lappirnar. Ekki var það nógu áríðandi til að ég fengi afgreiðslu strax og konan fór að kalla upp fólk sem var að greiða fyrir læknisvottorð og eitthvað þvíumlíkt. Mamma lét mig því setjast og beið eftir að kæmi að okkur. Þegar ég kom svo inn til læknisins var hausinn við það að springa og flökurleikinn bætti ekki úr skák og ég leit heldur illa út. Gat ekki setið upprétt í stólnum og var bókstaflega við það að leka niður. Læknirinn hins vegar skammaðist bara út í mig hvað ég hefði tekið af verkjalyfjum um daginn og ætlaði nú bara ekkert að gera. Mamma var hins vegar frek og vildi vita hvort þetta væru einkenni blóðtappa en honum fannst þetta augljóslega hið mesta vesen í okkur en tók blóðþrýstinginn til að friða mömmu. Sendi okkur svo bara út aftur og sagði mér að fara niðrá slysó. Spurði ekki að neinu og gerði ekki neitt.

Á slysó fór ég framfyrir í röðinni og var farið nánast beint með mig inn á skoðunarherbergi þar sem ég fékk að leggjast niður og hjúkkan tók blóþrýstinginn. Svo tók við bið. Og bið. Ég fékk verkjalyf eftir 2 tíma og var í rauninni bara sprautuð niður og þá voru líka teknar blóðprufur. Og þá tók við ennþá meiri bið eftir niðurstöðunum úr þeim. En þrátt fyrir alla biðina á slysó þá var starfsfólkið frábært - þegar það var á staðnum. Það svaraði þolinmótt öllum okkar spurningum og upplýsti okkur mjög vel um það sem stóð til að rannsaka og hvað það þýddi allt saman.

Ég skil ekki ennþá af hverju læknirinn á Læknavaktinni spurði engra spurninga og af hverju hann gerði ekki neitt. Ég veit bara að ég fer ekki þangað inn fyrir dyr aftur og þó svo ég þurfi að bíða í marga klukkutíma þá fer ég bara beint niðrá slysó næst þegar eitthvað bjátar á.

Engin ummæli: