18 nóvember 2006

Stolt af kallinum

Það er ekkert gefið í pólitík og það hefur sést greinilega í prófkjörum undanfarið. Pabbi hlaut ekki brautargengi í prófkjörinu í gær og auðvitað eru það vonbrigði fyrir hann. Ég hef aldrei viljað vera flokksbundin og hef alls ekki alltaf verið sammála karli föður mínum en ég hef alltaf borið virðingu fyrir því starfi sem hann hefur unnið af hendi. Þrátt fyrir úrslit gærdagsins er ég stolt af kallinum. Hann hefur alltaf staðið á sínu þrátt fyrir að á móti hafi blásið og það er meira en hægt er að segja um margan þingmanninn sem skiptir oft um lið eftir vindáttum. Eins og einhver vitur maður sagði eitt sinn, þá er einn djarfur maður oft meirihlutinn.

En pólitíkin er hins vegar tík og ég á ekki eftir að gráta það ef hann ákveður að hætta í stjórnmálum. Eftir að stjórnmálaumræða færðist í meira mæli inn á netið þá gleymist það æ oftar að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Oft verður persónulegt skítkast meira ráðandi í umræðu þeirra sem tjá sig á netinu þar sem viðkomandi er ekki í aðstöðu til að svara fyrir sig. Það er nú samt þannig að það er gott fólk að vinna á öllum vígstöðvum í pólitík og þrátt fyrir að maður sé ekki sammála þeirra vinnubrögðum og/eða skoðunum þá hefur maður engan rétt á því að vaða með skít og drullu yfir persónu þeirra - þó svo að málefnaleg gagnrýni standi alltaf fyrir sínu. Því eins og áður sagði skal aðgát höfð í nærveru sálar og fátt er eins meiðandi og einmitt orð.

Umræðan um pabba hefur oft verið óvægin og ég reyni oftast að leiða hana hjá mér. Hans eigin flokksmenn hafa oft gengið hart fram og hafa haft í frammi ummæli sem segja meira um þá sjálfa en pabba. Ekki það að ég sé viðkvæm fyrir gagnrýni á pabba eða hans störf, við systkinin erum alin upp á mjög pólitísku heimili þar sem er langt í frá gefið að allir séu sammála. Ég hef ávallt verið foreldrum mínum þakklát fyrir það að hafa ekki troðið sínum skoðunum upp á okkur heldur frekar alið okkur upp til þess að hafa okkar eigin skoðanir. Maður væri hins vegar gerður úr steini ef það kæmi ekki við mann þegar einhver sem stendur manni nærri er beinlínis rakkaður niður í fjölmiðlum. Og það er einmitt mergur málsins. Hvort sem það er í stjórnmálum eða annars staðar í samfélaginu þá skal aðgát höfð í nærveru sálar. Það er vonandi að sem flestir taki það sér til fyrirmyndar.

Engin ummæli: