19 nóvember 2003

Ég skil ekki fólk sem gerir bókhald að ævistarfi. Er alveg orðin mygluð og tóm eftir vinnu í bókhaldi dagsins. Gæti alveg hugsað mér að vera á Flórída núna í afslöppun eins og sumir sem ég þekki...

Ég er búin að ákveða að eyða jólunum í heimahögunum. Pantaði flug vestur í gær. Ég ætla að fara heim 22. des og kem aftur suður 27. des. Maður ætti því að ná smá djammi með Ellu og Hrafnhildi. Loksins - það er sko alveg löngu komin tími á það!

Pabbi er aldeilis aktívur í frumvörpunum núna. Búinn að leggja fram frumvarp um línuívilnun og um stofnun Háskóla á Ísafirði. Ég held bara að maður verði að styðja kallinn í þessum málum. Svo er hann víst líka með frumvarp um breytingu á störfum ráðherra, þe. að þeir verði ekki sitjandi þingmenn. Mér hefur lengi þótt það mjög óeðlilegt að ráðherrar séu jafnframt þingmenn. Það er bara vonandi að það verði hljómgrunnur fyrir þessu hjá kallinum.

Ég las aftan á Fréttablaðinu núna um daginn að nýjasta trendið í barnanöfnum í Bandaríkjunum sé að skíra eftir þekktum vörumerkjum. Þannig hafi t.d. tveir drengir þar verið skírðir ESPN eftir hinni frægu íþróttastöð.. Ég vona bara að þessi tískusveifla komi ekki hingað til lands!

Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í 4. og 7. bekk voru birtar í dag. Það var gaman að sjá að Vestfirðir komu bara ágætlega út. Annars er ég algjörlega á mót þessum prófum og hvernig þau eru notuð í skólakerfinu í dag. Kennslan í 10. bekk t.d. einkennist alveg svakalega af þessum prófum og námið líður alveg svakalega fyrir það. Á meðan Aðalnámsskrá segir að skólar eigi að einkennast af einstaklingsmiðuðu námi þá verður að endurskoða þessi próf. Í raun ætti kennsla á unglingastigi að einkennast að einhverju leyti af áfangakerfi, svipuðu og framhaldsskólarnir hafa. Þá væri vonandi hægt að komast hjá þessum áherslum á meðalnemandann og allt það bölvaða kjaftæði sem allt of margir hafa fengið að líða fyrir.

Engin ummæli: