Jæja, ég er víst ekkert búin að röfla hérna í heila viku. Það er nú svo sem lítið búið að gerast. Ég var í vettvangsnámi í Rimaskóla á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag. Það var svaka gaman að fá að sjá starf í svona stórum skóla. Maður gæti jafnvel hugsað sér að kenna þar. Kom mér soldið á óvart. Skólinn hefur nefnilegast frekar neikvætt orðspor á sér en það var sko langt í frá að maður fyndi fyrir neikvæðu andrúmslofti þarna. Skólastjórinn var alveg frábær og tók alveg rosalega vel á móti okkur. Alls staðar mætti okkur jákvætt og hlýtt viðmót, bæði hjá starfsfólki og nemendum.
Ég var svo bara að læra í vikunni. Kláraði mennsam ritgerðina með Ásu og Sigrúnu. Fæ báðar ritgerðirnar úr yfirlestri í dag og á þá bara eftir að binda þær inn og ganga frá þeim og skila þeim á morgun. Það áttu líka að vera leiðabókarskil á morgun en við fengum þeim frestað fram á næsta föstudag. Ætla samt að gera leiðabókina mína á eftir og senda kennaranum hana. Nenni ekki að eiga það eftir. Ég á svo eftir að gera 4 verkefni í upplýsingatækni. Þarf að sjá hvað ég kemst yfir mikið af því í dag og klára það svo í vikunni.
Næstu 2 vikur eiga eftir að einkennast af vinnu og aftur vinnu. Verð að vinna 6 daga báðar vikurnar auk þess að vera í skólanum. Næstu helgi ætla ég að byrja að læra fyrir prófin í stærðfræði og þroskasálfræði. Er orðin pínu stressuð fyrir þessi próf, finnst ég þurfa að læra alveg heilan helling fyrir þau þannig að það er eins gott að byrja strax! Seinasti kennsludagur er svo 28. nóv og fyrsta prófið er 3. des. Seinasta prófið er 17. des.
Á föstudaginn elduðum ég og Agnes fyrir mig, hana, Öggu og Jóa. Smá Kaffi Rvk reunion. Það var svaka gaman. Við elduðum kjúklingarétt sem heppnaðist bara nokkuð vel held ég. Ég og Agnes kíktum svo aðeins út á lífið. Fórum fyrr heim en við ætluðum því að yours truly datt í stiganum á Sólon. Var eitthvað mikið annað að hugsa og bara hrundi niður. Best að taka það fram strax að þetta var bara Erla að vera klaufi en orsakaðist ekki af mikilli áfengisneyslu. Við hlógum nú mikið að þessu fyrst og skelltum okkur á röltið í bænum. Fórum á Glaumbar. Þegar þangað var komið var mér orðið frekar mikið illt í fætinum og hætt að geta stigið í hann. Það var því bara tekinn taxi heim. Það var ekkert svakalega gaman að þurfa að hoppa á einum fæti upp fjórar hæðir.. en það hafðist. Í gær var ég svo ennþá alveg að drepast og fór upp á slysó að ráði góðra vina. Ég er ekki brotin en það blæddi inn á liðböndin skildist mér. Ég tók því bara rólega í gærkvöldi. Horfði á vídeó með Rakel og fór svo bara snemma að sofa. Ég er svo öll að koma til núna.
En jæja, ætla að fara að læra eitthvað og gera eitthvað af viti hérna. Bleble
Engin ummæli:
Skrifa ummæli