04 nóvember 2003

Minnz er þreyttur. Ég var öfga dugleg að læra yfir helgina og ef svo fram heldur sem horfir þá get ég farið að djamma á laugardaginn!! JEI!!! Það er naumast að það þarf lítið til að gleðja mann þessa dagana :p en þegar maður lifir og hrærist í skólabókum og bókhaldi í vinnunni þá held ég að það sé ekkert skrýtið að maður þrái smá tilbreytingu um helgar!

Fyrsti snjórinn kom fyrir alvöru í Reykjavík í dag. Mér finnst alltaf jafn fyndið að fylgjast með þessu netta panikki sem verður. Helmingurinn af liðinu ekki komin á vetrardekk og svo tekst liðinu að festa sig í alveg ótrúlega smáum ,,sköflum". Ég veit það alveg að það er ekkert hægt að bera þetta saman við fyrsta snjóinn í Bolungarvík en mér finnst þetta samt alltaf jafn fyndið. Þetta gerist á hverju einasta hausti, venjulegast á svipuðum tíma en kemur fólki samt alltaf jafn mikið á óvart. En ég held að fólk geti ekki þrætt fyrir það að Reykvíkingar (hehe og Vestmannaeyingar) kunna ekki að keyra í snjó.

Ég þurfti að fara inn í Kringlu á laugardaginn til að kaupa mér linsur og ég verð að viðurkenna að mér brá heldur betur í brún. Allt jólaskrautið komið upp. Ég var að velta því fyrir mér hvort að þeir hefðu litið eitthvað vitlaust á dagatalið og haldið að það væri komin 1. des.. En mér skilst að það sé ekki rétt. Ég skil eiginlega ekki hvað er málið. Maður verður komin með algjört ógeð á þessu skrauti þegar jólin loksins koma. Mér finnst allt í lagi að hafa meiri ljós þegar fer að dimma og svona. Lífga upp á svartasta skammdegið en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Ég á allavegana eftir að sniðganga verslunarmiðstöðvarnar þangað til um mánaðarmótin. Ég er engan vegin tilbúin fyrir eitthvað jóladót strax.

Það er mikið búið að vera að ræða börn í mínu umhverfi undanfarið. Mamma var að rifja upp um daginn að þegar hún var jafn gömul og ég er í dag var hún 2ja barna móðir og ja gott ef ekki orðin ólétt að því þriðja. Ég sé mig ekki beint í anda með nokkra gríslinga í eftirdragi. Veit ekki einu sinni hvað eggjahljóð eru. Jú jú víst eru þessi kríli voðalega sæt en alveg er það víst að mig langar ekki í eitt slíkt. Á meðan að mér finnst ennþá gott að skila þá ætla ég mér ekkert að hugsa um barneignir!

En jæja, þá er ég búin að fá útrás og tuða smá. Nú get ég farið heim og lesið Harry Potter!

Engin ummæli: