27 febrúar 2004

Ég var soldið spennt að sjá hvernig nýr menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, myndi standa sig. Mér hefur fundist hún sköruleg og röggsöm sem þingmaður og sem kennaranemi og áhugamanneskja um menntakerfi þjóðarinnar fannst mér komin tími til að við fengjum almennilega menntamálaráðherra. Því miður verð ég að segja að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með nýja ráðherrann. Hún fylgir orðum Davíðs í algjörri blindni eins og allt of margir sjálfstæðismenn. Það virðist vera stór synd í þeim flokki að hafa sjálfstæðar skoðanir og vilja. Einræðisherrafyrirkomulagið er alls ráðandi í öllu sem viðkemur Sjálfstæðisflokknum. Þingmennirnir og ráðherrarnir búa allt of oft í pólitískum skýjaborgum með nákvæmlega engri tengingu við raunveruleikann. Viðhorf Þorgerðar Katrínar til Háskóla Íslands sýna það glöggt. Samkvæmt hennar orðum er Háskólinn alls ekki blankur og það má greina pirring í orðum hennar þegar hún ræðir þessi mál. Maður hefur á tilfinningunni að henni finnist orð þeirra sem segja annað vera eintómt væl. En þú þarft ekki nema að ræða við deildarstjóra Háskólans og nemendur hans og það sem þetta fólk finnur fyrir er tóm blankheit og niðurskurður. Miðað við þessa umræðu hugsa ég til þess með hryllingi hvernig hún á eftir að taka á grunnskólakerfinu. Það verða lágmark 3 ár þangað til við sjáum byltingu á þessum bænum og ég bið til guðs að íslenskir kjósendur kjósi þá eitthvað annað en sjálfstæðishrokann sem hefur stjórnað undanfarin ár. Kannski eru þeir bestir til að sjá um fjármálin eins og þeir vilja sjálfir halda fram en það er löngu orðið ljóst að þeir eru sísti kosturinn til þess að sjá um félagslega kerfið okkar og menntakerfið.

Engin ummæli: