27 maí 2004

Ég var að lesa pistil á vikara.is eftir Pálma Gests þar sem hann gerir að umræðuefni hvort að Bolungarvík sé skrifuð með eða án r-s. Rökin sem hann færir eru að nafnið af víkinni sé dregið af bolungum sem lágu hér í fjörunni þegar landnámsmenn bar að. Flestir eru sammála um að í nafninu sé verið að vísa til bolunga í fleirtölu og þess vegna vill Pálmi meina að ekkert r eigi að vera í Bolungarvík. En hann gleymir einu. Ef við fallbeygjum orðið bolungur í fleirtölu þá segjum við:

Hér eru (margir) bolungar
um (margra) bolunga
frá (mörgum) bolungum
til (margra) bolunga

R eða ekki r ræðst því ekki á tölu orðsins heldur á falli þess í fleirtölu. Þeir sem skrifa Bolungarvík með r eru með því að vísa til nefnifalls í fleirtölu en þeir sem skrifa það r-laust vísa þá til eignarfalls fleirtölu.

Bolungarvík er þar með samsett orð (bolunga(r)-vík). Ef við skoðum önnur samsett orð, t.d. bílasala, matvöru-búð, fiska-búr þá er augljóst að fyrri hluti orðsins er ávallt í eignarfalli. Það færir rök fyrir því að r-lausi rithátturinn sé réttur.

Ég skrifa alltaf Bolungarvík, efast einhvern vegin um að ég breyti því, maður er fastur í sínum venjum. Ég þekki ekki nógu vel rökin fyrir þeim rithætti en það væri gaman að fá upplýsingar um hann ef einhver þekkir þau rök.

Engin ummæli: