Jæja, ég hef alveg verið að tapa mér í djúpu pælingunum í gær. Maður verður víst að gera það stundum. Ég sendi á vini mína á póstlistanum mínum skoplega útgáfu af fjölmiðlafrumvarpinu í gær eða fyrradag. Það þarf víst ekki að útskýra að þar var verið að skjóta á Davíð. Það kom mér lítið á óvart að fá svar frá honum Bigga vini mínum þar sem hann sagðist vera fylgjandi frumvarpinu. Að pabbi hefði brugðist eins við og Davíð ef persóna hans hefði verið persónugerð fyrir allt hið illa í samfélaginu í fjölmiðlum.
Fyrir heit trúaða sjálfstæðismenn er þetta ekkert óeðlilegt viðhorf. Mér finnst bara sorglegt þegar fólk dettur í þá gryfju að gjörsamlega trúa á eina manneskju. Það stendur engin manneskja undir slíku. Davíð er góður og snjall stjórnmálamaður en vei þeim sem er á móti honum því hann mun gera allt sem í hans valdi stendur til að gera þeirri manneskju lífið leitt. Og það er ekki lítið vald sem maðurinn hefur. Hann hefur misst sig nokkrum sinnum undanfarið á eiginlega óverjandi hátt. Það er hálf sorglegt að horfa upp á heit trúaða liðið hans virkilega reyna að verja hann í algjörlega óverjandi aðstæðum.
Davíð hefur nefnilegast séð um það sjálfur undanfarin ár að sverta persónu sína í fjölmiðlum. Framkoma hans er oft á tíðum svo hrokafull og yfirgengileg að hún dæmir sig algjörlega sjálf. Mér finnst það hálf sorglegt og ég held að í framtíðinni eigi hann ekki eftir að fá góða dóma í sögunni. Hann er búinn að vera við völd of lengi og búinn að missa sig of oft til þess. Hann hefði í raun átt að draga sig í hlé í þar síðustu kosningum - þá var stjarnan hans ennþá það skær að hans hefði verið minnst sem góðs leiðtoga sem stóð sig bara nokkuð vel - þó svo að ég segi frá.
Stjórnunarstíll hans í dag minnir mig of mikið á stíl Berlusconis á Ítalíu - manns sem stjórnar ítölsku samfélagi eins og strengjabrúðum algjörlega eftir eigin höfði. Hann er líka farinn að minna mig á góðvin sinn Bush - þó svo hann megi eiga að hann er klárari en forseti Bandaríkjanna. Ekki að það þurfi mikið til en.. Við erum að sjá nákvæmlega það sama gerast í íslensku samfélagi í dag og á Ítalíu og jafnvel Bandaríkjunum. Orð Davíðs eru lög. Það verður spennandi að sjá hvenær sjálfstæðismenn taka eftir bjálkanum í sínu eigin auga - eða auga Davíðs öllu heldur. Þá virðist nefnilegast skorta sjálfstæðan vilja og sjálfstæða hugsun.
Ég auglýsi hér með eftir sjálfstæðri hugsun stjórnarþingmanna og vona að þeir sýni Davíð að maður getur keypt ölið á fleiri stöðum en hann er vanur að versla það og að þeir felli þetta blessaða frumvarp.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli