02 maí 2004

Og þá eru það framsóknarmenn. Málefnalega séð gæti ég talist framsóknarmanneskja en ég er ekki flokksbundin og mun ekki verða það á næstunni. Framsóknarflokkurinn er nefnilegast að vinna að því hægt og sígandi að stroka sig út hjá íslensku þjóðinni. Halldór er löngu hættur öllu málefnastarfi og vinnur núna ötullega að því að þóknast Davíð til að gulltryggja það að hann verði forsætisráðherra í haust. Mér hefur alltaf fundist Halldór hafa frekar trausta ásjónu stjórnmálamanns - þrátt fyrir að hann sé afar þumbaralegur greyið - en ég verð að viðurkenna að ég ber nákvæmlega ekki neitt traust til Halldórs eða framsóknarflokksins yfir höfuð í dag. Ég virði það við karl föður minn að hafa einn stjórnarþingmanna andmælt fjölmiðlafrumvarpinu opinberlega. Við feðgin erum ekki alltaf sammála í pólitík en hann stendur oftast á sínu sem er alltaf virðingarvert.

Ákall mitt til stjórnarþingmanna í gær var jafn mikið ákall - og jafnvel meira - til þingmanna framsóknar eins og þingmanna sjálfstæðisflokksins. Þeir eru nefnilegast verri en íhaldið oft á tíðum í að þóknast duttlungum Davíðs. Ég skal fyrirgefa sjálfstæðismönnunum og skilja þá, þetta er nú einu sinni formaðurinn þeirra. En hver er afsökun framsóknarmanna að ílengjast svona sem stuðningsmenn Davíðs???? Valdagræðgi er það fyrsta sem kemur upp í hug margra. Ég skil það upp að vissu marki en finnst það ákveðin skammsýni. Eftir að samfylkingin varð að stórum stjórnmálaflokki breyttust möguleikar til stjórnarmyndunar hér á landi. Vinstri grænir verða aldrei stórt afl held ég en framsókn og samfylking gætu myndað góða stjórn að mínu mati.

Staðan í samfélaginu er orðin þannig að fólk vill fella ríkisstjórnina og þeir sem kusu hana áfram í síðustu kosningum sjá margir hverjir eftir því. Fall stjórnarinnar yrði þó bara fall sjálfstæðisflokksins, framsókn hefur þá sérstöku stöðu að geta lent í oddaaðstöðu að loknum kosningum. En það er spurning hvað verður ef þeir gæta ekki að sér. Ef þeir fara ekki að standa á sínu og hætta að hlaupa eftir duttlungum Davíðs. Það er spurning hvort þeir myndu þurrkast út eins og Kvennalistinn gerði hérna um árið.

Þetta eru svo sem bara mínar pælingar og var ekki ætlunin að fá neina niðurstöðu í þær núna. En ég held að framsóknarmenn verði að gæta að sér og sínum. Með áframhaldandi undirlægjuhætti verða þeir kannski í stjórn þetta kjörtímabil en hvað svo? Er framtíðarsýnin svona stutt í íslenskum stjórnmálum? Er allt farið að snúast um völd í stað hugsjóna? Eru íslenskir stjórnmálamenn farnir að búa í sínum eigin pólitíska heimi án nokkurrar tengingar við raunveruleikann? Er þetta það sem kjósendur vilja sjá????

Engin ummæli: