Bíll sem kemst upp brekkur!
Jú er löngu komin heim en hef ekkert nennt að blogga. Mamma var í sumarbústað þegar ég kom heim og ég var ekki lengi að bregða mér þangað og ná úr mér ferðaþreytunni. Fór reyndar strax að vinna á mánudeginum en það var bara rifið sig upp snemma og farið úr bústaðnum og svo beint þangað eftir vinnu. Kom svo heim á þriðjudagskvöldinu. Er svo búin að vinna mikið, þvo mörg tonn af þvotti, fara á æðislegt námskeið, djamma og vera veik. Svo er ég búin að skila Yarisnum og þessir yndislegu gaurar uppí Toyota gáfu mér engar athugasemdir í söluskoðuninni svo ég fæ allt tryggingaféð til baka. Er ekki lítið sátt með það. Fæ svo endurgreiddar tryggingarnar af bílnum fljótlega og þá er planið að kaupa nýja fartölvu. Já í alvörunni, kaupa nýja fartölvu.
Nú er elsku tölvan mín orðin ansi lúin og kominn tími á að gefa henni frí eftir langt ævistarf. Á hennar mælikvarða allavegana. Mig er farið að langa til að fara í e-ð diplómanám með vinnunni og ég get ekki gert tilvonandi samnemendum mínum það að þurfa að hlusta á hana taka sig á loft með reglulegu millibili. Það hafa ekki allir sama húmor fyrir því og Ása Gunnur ;-) Það þarf svo ekkert að fjölyrða um litinn á nýju tölvunni en að sjálfsögðu er stefnt að því að hún verði bleik þó svo að sumum í kringum mig þyki það ekkert skynsamlegt að velja tölvu eftir lit. En mér er alveg sama, mig langar í bleika tölvu og það þarf ekkert að ræða það frekar.
Svo er ég komin á nýjan bíl. Það var ekki alveg hægt að fara í strætó eftir að Yarisinn var farinn heim í Toyota. Honda Accord árgerð 2005 varð fyrir valinu og ég er öfga ánægð með nýja bílinn. Hef samt ekkert mátt vera að því að fara í almennilegan bíltúr á honum en ég mun gera það við fyrsta tækifæri svona þegar ég er nokkuð viss um að ég missi ekki prófið í leiðinni... Gamli bíllinn minn var með 1000 vél en sá nýji er með 2000 vél svo það mega allir krossa fingur að ég eigi eftir að halda bílprófinu áfram. En svo maður horfi á góðu hliðarnar þá drífur Accordinn hressilega upp brekkur á meðan Yarisinn þurfti stundum sálrænan stuðning til að komast alla leið. Ég mun samt hugsa til hans með pínu söknuði í hvert sinn sem ég fer upp brekkur á Hondunni, hann þjónaði sínum tilgangi þrátt fyrir allt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli