31 október 2008

Hversu skítt er nógu skítt?

Tillögur SÍNE um aðstoð við námsmenn erlendis lágu fyrir í byrjun þessarar viku og Þorgerður Katrín er búin að afgreiða málið. Það má hrósa mönnum fyrir skjót viðbrögð. Ég varð hins vegar fyrir verulegum vonbrigðum með innihaldið en menn mega þó eiga það að það virðist vera í takt við það andrúmsloft sem hefur verið ríkjandi hingað til hjá LÍN. Það er þó óhætt að segja að það andrúmsloft er engum til hróss.

Aðeins lítill hluti af tillögunum miðar að því að bæta hag þeirra sem eru nú þegar í námi. Sækja þarf sérstaklega um aukalán til LÍN og það þarf að sýna fram á ófyrirséða röskun á högum námsmanns. Stjórn LÍN fjallar um hverja umsókn fyrir sig og það er ekki ljóst hvernig námsmenn eiga að rökstyðja röskun á högum og hvaða mælikvarði verður notaður. Hversu skítt er nógu skítt? Miðað við fjármagnið sem er ætlað í þetta verkefni er þó nokkuð ljóst að aðeins er verið að plástra þar sem þörfin er mest. Þeir sem eru ekki komnir út á bjargbrúnina ennþá verða að leita annarra leiða til að bjarga sér.

Tekjuskerðing þeirra sem hefja nám frá og með janúar 2009 lækkar úr 10% í 5%. Mikið fagnaðarefni að það skref hafi verið stigið en það hjálpar ekki þeim sem hófu nám í haust og urðu allir sem einn fyrir ófyrirséðum röskunum vegna kreppunnar á Íslandi. Það hefði verið farsælla hjá stjórnvöldum að lækka tekjuskerðinguna hjá öllum sem hófu nám í haust og aðstoða þar með mun fleiri námsmenn en þá sem koma til með að hljóta samþykki um aukalán hjá stjórn LÍN. Byrgja brunninn áður en fleiri detta ofan í hann.

Ég sé ekki að það sé neitt í þessum tillögum sem kemur til með að létta mér lífið fram að útskrift. Miðað við reynslu mína af þessu blessaða LÍN batterí þá hef ég ekki geð í mér til þess að sækja um aukalán til stjórnar LÍN og láta stjórnarmenn meta það hvort ég hafi það nógu skítt til þess að eiga rétt á framfærsluláni að andvirði eins til tveggja mánaða til viðbótar. Það er minna auðmýkjandi að betla einfaldlega evrur á Louise og ég gæti hreinlega haft meira upp úr því ef ég yrði heppin.

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að leggja áherslu á menntun þjóðarinnar og nú. Það er stjórnvöldum til skammar að henda aðeins út nokkrum björgunarhringjum þegar floti af björgunarbátum hefði verið nær lagi.

30 október 2008

Tilkynning um þjónustubreytingu á fluginu þínu

Við hjá Icelandair erum stöðugt að reyna að koma til móts við gesti okkar og kröfur þeirra. Síðustu mánuði hafa til dæmis staðið yfir umfangsmiklar breytingar á flugvélum okkar. Á þessu ári verða allar vélar Icelandair komnar með nýtt og fullkomið afþreyingarkerfi, ný og glæsileg sæti með auknu fótarými. Auk þess verður nýtt farrými komið í notkun, Economy Comfort.

Eitt af því sem breytist 1. nóvember er maturinn um borð. Við fengum Stefán Viðarsson á Hilton Reykjavík Nordica til að setjast yfir nýjan matseðil með okkur. Niðurstaðan er matseðill sem við hjá Icelandair erum mjög stolt af. Í stað staðlaðra máltíða verður gestum á Economy farrýminu boðið upp á að velja milli nokkurra tegunda af mat á vægu verði. Við höldum einnig lága verðinu á Economy með því að gefa gestum okkar val.

Um leið og við segjum þér af þessum breytingum þá viljum við segja þér að þar sem þú keyptir farmiðann fyrir 1. október er í boði samloka þér að kostnaðarlausu í flugi þínu.Við vonumst til að ferðin með okkur verði ánægjuleg og þú njótir þeirra nýjunga sem við bjóðum upp á.

Ég fékk þennan tölvupóst frá Icelandair í dag. Fékk fyrir hjartað þegar ég las fyrirsögnina því ég hélt að það væri verið að gera breytingar á fluginu sjálfu og það tímasetningin myndi þá ekki henta lestinni frá Brussel. Í staðinn er verið að segja mér það að nú þurfi maður að kaupa matinn um borð hjá Icelandair sem hefur verið innifalinn í verði farmiðans hingað til. En af því ég var svo forsjál að kaupa miðann heim um jólin fyrir 1. október fæ ég fría samloku! Mér finnst ég ekkert smá heppin.....

29 október 2008

Maraþonlestur

Tók mér smá pásu frá lestrinum til þess að vafra aðeins á netinu. Það er þokkalegur maraþonlestur í hagfræði þessa vikuna, 15 kaflar takk fyrir pent. Er búin með 10, ætla að klára einn eftir kvöldmatinn og rest á morgun. Er búin að vera að lesa um gengi gjaldmiðla, viðskiptajöfnuð við útlönd og sitt hvað fleira. Ég hef aldrei stúderað hagfræði áður og eftir svona maraþonyfirsetu er ég nær því að taka orð Björgólfs Thors mér í munn og segja að þetta sé bara bull heldur en að mér finnist þetta meika mikið sense. Það er allavegana óhætt að segja að hagfræði séu ekki hárnákvæm vísindi.

Ég er búin að liggja heima lasin síðan á mánudag. Held að mér sé að hefnast fyrir það að hafa þvælst í skólann sárlasin alla síðustu viku. En svona er lífið víst. Maður harkar samt af sér og reynir að lesa eitthvað fyrir skólann og það hefur gengið ágætlega í dag svo heilsan hlýtur að vera að hrökkva í lag. Fyrsta ritgerð vetrarins er farin að gerjast í kollinum á mér. Á að skila tillögu til kennarans á föstudaginn og ritgerðinni 14. nóvember svo það er ekki mikill tími til stefnu. Á að taka fyrir einhverja menningu og skoða hvernig hún aktar í negotiation. Ég er mikið að spá í að skrifa um Bretland sem ætti varla að koma á óvart.

Nóvember er svo að læðast aftan að mér og það vantar ekki verkefnin framundan. Margt skemmtilegt reyndar eins og ferð til Ypres 11. nóvember, skoðunarferð í Evrópuþingið þann 12. og önnur skoðunarferð þann 19. en þá fæ ég að skoða Nato. Svo eru bandarísku forsetakosningarnar þann 4. nóvember og eins og gefur að skilja ætla krakkarnir í skólanum að hittast og fylgjast með þeim. Svo er auðvitað aðalmálið en það eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Er búin að redda mér miða á þá og á ekki von á öðru en það verði bara gaman.

En jæja, hagfræðin bíður eftir mér töfrandi og spennandi - eða eitthvað. Ætla samt að athuga hvað Madame Örbylgjuofn býður mér upp á í kvöldmatinn áður en ég held lestrinum áfram.

Au revoir frá Brussel.

27 október 2008

Langömmukerran


Jæja, þá er ég loksins búin að fá mér langömmukerru sem fer með mér í búðina og í þvottahúsið. Ég er ekki frá því að ég og Magga amma hefðum tekið okkur vel út saman með kerrurnar okkar.

26 október 2008

Að vera Íslendingur í útlöndum

Það er farið að vera hálf súrrealískt að vera Íslendingur í útlöndum þessa dagana. Það er svo sem engin að böggast en í hvert sinn sem ég segist vera frá Íslandi fæ ég sömu svipbrigðin. Eins og ég hafi verið að segja þeim skelfilegar fréttir og í kjölfarið kemur venjulega ,,I'm sorry". Er hægt að þýða það öðruvísi en ég samhryggist? Meira að segja kennarinn minn í Negotiation sem er með vel þjálfað pókerfeis sýndi mér svipinn. Tók andköf og allan pakkann.

Svo eru það brandararnir. Komdu endilega í mat ef þú átt ekki pening fyrir mat. Á ég að borga fyrir þig leigubílinn heim? Hitti einn gaur sem hélt að ég væri frá Argentínu. Mér fannst það fyndið fyrst en svo kom brandarinn. Ísland, Argentína, sama tóbakið. Ísland væri hvort eð er í sama skítnum og Argentína þegar þeir fengu aðstoð frá IMF.

Mér er hætt að finnast þetta fyndið.

23 október 2008

Litli femínistinn

Ég var að byrja í nýjum kúrs í skólanum. Hann heitir Negotiation and Mediation og fjallar eðlilega um samningaumleitanir, friðarviðræður og þess háttar. Þetta er kennt í þremur lotum og hver lota hefst á sýningu e-s konar kvikmyndar. Í gærkvöldi sáum við heimildarmynd frá Kosovo sem fjallaði um mismunandi afstöðu kynjanna til öryggis og hvernig þau skilgreina hugtakið. Einnig var fjallað um stöðu kvenna í Kosovo og hvaða afleiðingar stríðið hefur haft á þá stöðu.

Konur í Kosovo mega ekki vera einar á almannafæri og ef fjölskyldan hefur ekki efni á því að mennta öll börnin sín þá eru það iðulega strákarnir sem fara í skóla. Stelpurnar eru hins vegar heima og sjá um heimilið. Þetta hefur skapað mörg vandamál eftir stríðið. Ekkjur eru t.d. mjög margar og iðulega ómenntaðar. Staða þeirra er óneitanlega mjög erfið þegar þær mega ekki vera einar á almannafæri og það eykur enn á erfiðleikana við að fá vinnu þegar maður er ómenntaður og á þar að auki ekki mann. Konur taka ekki þátt í friðarumleitunum í héraðinu og þær sem taka þátt í stjórnmálum eru að mestu leyti upp á punt.

Það sem situr í mér eftir kvöldið er að þegar er litið á fjölda kvenna í stjórnmálum og áhrifastöðum á Íslandi þá er staða okkar ekkert mikið betri en kvenna í Kosovo. Hlutfall kvenna á þinginu þar er um 30%, ef mig misminnir ekki er það ekki mikið hærra á Íslandi. Kona hefur aldrei verið forsætisráðherra og þrátt fyrir að við höfum átt fyrsta kjörna kvenforseta heimsins þá verður það að segjast eins og er að áhrif og völd forsetaembættisins eru ekki mikil. Konur í áhrifastöðum í þjóðfélaginu eru ekkert svakalega margar og mæta oft fordómum frá samfélaginu vegna þess að þær eru ekki nógu mikið heima með börnunum sínum. Auðvitað er grunnvinnan á Íslandi komin lengra, sérstaklega lagalega. Konur eru einnig í meirihluta þeirra sem leggja stund á háskólanám. Það á svo eftir að koma í ljós hvort að konur eigi eftir að sækjast í valdamikil og krefjandi störf í auknum mæli í samræmi við menntun sína.

Aukin menntun er lykillinn að auknum framförum. Það væri hægt að stuðla að auknum framförum og bættu samfélagi í Kosovo með því að leggja aukna áherslu á menntun kvenna. Þetta á ekki aðeins við Kosovo heldur mun fleiri lönd í heiminum. Það sem ég væri til í að vinna við það að stuðla að aukinni menntun kvenna og stuðla að fleiri tækifærum þeim til handa. Það væri draumur í dós. En ég hef næsta árið til þess að finna mér vinnu og pæla hvað mig langar til að gera. Ég er samt alveg pottþétt á því að ég er komin á rétta hillu og að ég hafi valið rétt þegar kom að því að velja mér framhaldsnám. Það er nokkuð góð tilfinning.

21 október 2008

Algjört unglamb

Það er allt fínt í fréttum héðan úr Brussel. Afmælisdagurinn var ljúfur og ánægjulegur og svei mér þá ef ég yngdist ekki um eitt árið í viðbót. Fékk íslenskt nammi og pítusósu frá Lindu og Soffíu og það er óhætt að segja að gjöfin hafi slegið í gegn. Núna japla ég á íslensku sælgæti og fæ mér almennilega pítu þegar ég ætla að gera eitthvað spari. Skólinn er kominn á fullt og ég sé fram á að hafa meira en nóg að gera á þeim vígstöðvum þangað til ég kem heim um jólin. Það bætist svo alltaf við það sem er á stefnuskránni þetta haustið. Næst á dagskránni eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Verður fínt að fá smá skammt af vestfirskri orku beint í æð! Svo eigum við Linda alltaf eftir að finna tíma til að skreppa til Amsterdam og fara á jólamarkaðinn í Köln. Möst að gera það fyrir jólin.

Íbúðin mín er svo öll að verða kósý. Bolungarvíkurmyndir komnar á veggina og bara ogguponsulítið smotterí sem mig langar að gera í viðbót til þess að fá meiri hlýju. Fer í Ikea við tækifæri og bjarga því. Annars er gjaldmiðillinn á Hótel Erlu íslensk kokteilsósa og pítusósa. Myndi ekki slá hendinni á móti íslensku nammi heldur og það fást mörg stig í kladdann fyrir þá sem koma með harðfisk og smér. Fyrir þá sem vilja eðaltreatment er gjaldið svo Stella í orlofi á DVD. Það fást náttla ekki betri dílar á gistingu á þessum síðustu og verstu ;-)

Heimþráin hefur soldið verið að segja til sín. Þó svo að það sé yfirdrifið nóg að gera og fullt af skemmtilegu fólki í kringum mann þá er margt sem maður saknar að heiman. Væri alveg til í íslenska náttúru og íslenskt vatn! Skólafélagarnir fá auðvitað að sjá myndir að heiman. Ég er einstaklega hlutdræg og Bolungarvík og Vestfirðir eru þar í aðalhlutverki. Hafa fengið skínandi móttökur að sjálfsögðu. Einn skólafélaginn sagði við mig um daginn að Ísland þyrfti enginn lán til að bjarga efnahagnum, bara senda mig sem víðast með myndir að kynna land og þjóð og ferðamennirnir myndu streyma til landsins. Það er allavegana einn skólafélaginn á leið til Íslands í nóvember svo þetta er allt í áttina hjá mér.

Ég hef því ekki orðið fyrir því að heyra illa talað um Íslendinga hérna úti. Fólk er spurult um ástandið, finnst það alveg skelfilegt og vorkennir okkur Íslendingum. Áttar sig samt á því hvað Íslendingar eru magnað fólk og hvað það er merkilegt að kynnast þeim. Eins og einn gaurinn sagði við okkur Soffíu og Lindu í partýi á laugardaginn: ,,Vá, ÞRÍR ÍSLENDINGAR! Ég hef aldrei hitt svona marga Íslendinga í einu!". Segið svo að það séu ekki sóknarfæri í öllum glundroðanum.

Látum þetta gott heita að sinni. Bestu kveðjur heim.

17 október 2008

Gleymdur hópur

Það er búið að stofna grúppu á Facebook fyrir íslenska námsmenn erlendis. Við heyrum það í fjölmiðlum að Seðlabankinn segir að millifærslur á milli landa séu komnar í lag og SÍNE sagði okkur það á föstudaginn að þetta kæmist allt í lag fljótlega eftir helgi. Það kannast hins vegar enginn af þeim námsmönnum sem eru í grúppunni að millifærslurnar séu komnar í lag. Ekki einu sinni þeir sem eru í viðskiptum við Landsbankann en þar áttu millifærslur að vera komnar í lag fyrir viku. Ég sótti um símgreiðslu til skilanefndar Kaupþings á mánudaginn. Þurfti að veita ítarlegar upplýsingar af hverju ég væri að óska eftir símgreiðslu, til hvers ég ætlaði að nota peninginn og að ég væri námsmaður. Enda er búið að gefa það út að námsmenn erlendis séu í forgangi þegar kemur að erlendum millifærslum. Ég hef ekkert heyrt frá bankanum síðan ég sótti um og ég hef ekki hugmynd um hvað það verður langt þangað til að ég get fært eitthvað af peningunum mínum út.

Pabbi gat reddað mér fyrir horn í gegnum Sparisjóðinn heima en það eru ekki allir svo heppnir og eins og kemur fram á Facebook þá eru sumir orðnir ansi svangir. Maður er farinn að spurja sig hvar okkar málsvarar séu. Hvort að stjórnvöld á Íslandi séu búin að gleyma kjósendum sínum sem eru í námi erlendis. Það er alveg ljóst að yfirlýsingar um að millifærslur á milli landa séu komnar í lag eiga ekki við rök að styðjast. Hvernig væri að ganga í málið af dugnaði og koma þessu í lag? Fólk er virkilega orðið svangt og það er ekki eins og við getum tekið slátur...

16 október 2008

Tilvitnun dagsins á Eyjunni

Tilvitnun dagsins

Maður fer að halda að nú séu bara tvær leiðir út úr þessu - Icelandair og Iceland Express.

Einhver Birgir
Í athugasemd við frétt af 3,5% vaxtalækkun.

15 október 2008

Kattarfár

Undanfarna viku eða svo hefur verið hálfgert kattarfár á veröndinni hjá mér. Einn eftirmiðdaginn kúrðu þeir þrír saman kettirnir beint fyrir utan gluggann hjá mér og virtust hafa það huggulegt. Stundum sitja þeir fyrir utan og mæna á mig á meðan ég læri. Ég veit ekki hvaðan þessi nýtilkomni áhugi á veröndinni minni kemur því þeir hafa látið mig í friði hingað til. Núna get ég ekki opnað út án þess að þurfa að passa upp á að kattarstóðið komi allt inn til mín. Það verður þó að segjast eins og er að þó svo að annarra manna kettir fari almennt alveg svakalega í taugarnar á mér - sérsaklega ef þeir vilja koma inn til mín - þá er nú samt sætt að sjá þá félaga Kasper, Jesper og Jónatan kúra þarna saman.

14 október 2008

Það eru engir peningar í þessum banka...

Ég þurfti að fara í bankann í dag að borga reikninga og var með lausan pening til þess að borga þá. Það var hins vegar ekki hægt! Ég horfði skilningssljó á bankastarfsmanninn sem sagði mér að þetta væri peningalaust útibú og þeir tækju ekki við reiðufé. Ég gat ekki borgað reikningana hjá honum heldur. Hann var með greiðsluvél í andyrinu sem hann kenndi mér á. Ég varð því að taka af leigupeningunum mínum til þess að borga reikningana. Þeir peningar verða heilagri og heilagri eftir því sem það verður erfiðara að fá sendan pening frá Íslandi. Ég er ennþá að klóra mér í kollinum yfir því hvernig ég eigi að geta lagt inn á reikninginn fyrir því sem ég tók út í dag. Einhverjar hugmyndir hvernig maður leggur inn í banka sem geymir ekki reiðufé?

13 október 2008

Vatn í flöskum

Var að fá póst frá skólanum þar sem fólk er hvatt til þess að mæta á fund e-a græningjasamtaka hér í borg þar sem á að mótmæla sölu á vatni í flöskum. Ég var nú alveg komin með það á hreint áður en ég fékk þennan póst að ég væri ekki græn í viðhorfum en ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las auglýsinguna frá þeim sem endaði á upphrópun sem er náttúrulega ekkert annað en skandall. Að veitingahús í Brussel hreinlega neiti að afgreiða fólk með kranavatn!

Mér er svo innilega sama hvað það fara margir lítrar af olíu í framleiðslu á vatni í flöskum, hversu lítið hlutfall skilar sér til endurvinnslu og hvað það er flutt víða um heim með tilheyrandi mengun. Það fær mig ekkert til að drekka kranavatnið hérna í Brussel! Svo einfalt er það. Vatnið hérna er með því skítugasta í allri Evrópu og meira að segja stuttklipptu strákarnir í skólanum tala um það hvað hárið á manni sé öðruvísi eftir að þeir fóru að fara í sturtu hér. Það er ekki öðruvísi til hins betra ef það fór eitthvað á milli mála. Ég þakka bara fyrir að fá ekki kranavatn á veitingahúsunum hérna! Ég á líka bágt með að trúa því að það sé ekki hægt að finna aðra lausn á málefnum flöskuvatns heldur en að drekka bara kranavatnið - alveg sama hversu ógeðslegt það er.

Annars minnir fyrirsögnin mig á frasa sem var stundum fleygt í bekknum mínum í grunnskóla. ,,Sel prump í dósum". Það er svo spurning hvor varan fengi verri útreið hjá græningjum. Vatn í flöskum eða prump í dósum.

12 október 2008

Komin heim frá Rotterdam

Þetta var frábær ferð þrátt fyrir tap íslenska liðsins og engin smá upplifun að horfa á hollenska liðið spila. Okkar menn stóðu sig líka vel og það var svekkjandi að þeir skyldu ekki hafa náð að skora eitt mark. Þeir áttu það svo sannarlega skilið. Við fengum sæti á mjög góðum stað beint fyrir aftan annað markið. Sáum því fyrra mark Hollendinga mjög vel og góðar tilraunir íslenska liðsins til að skora í seinni hálfleik líka. Íslendingarnir á vellinum voru náttúrulega algjörlega kaffærðir af þeim hollensku sem studdu sitt lið dyggilega. Frábært að upplifa stemninguna hjá þeim. Við Íslendingar þyrftum að koma okkur upp svona áberandi lit á landsliðin okkar og stuðningsmennina. Eitthvað sem sker sig alltaf úr eins og appelsínuguli liturinn hjá Hollendingum. Þeir voru margir hverjir kostulegir og hefðu verið flottir í dalnum á Þjóðhátíð!

Það setti smá strik í reikninginn að þegar Hollendingar skoruðu fyrra markið tóku tveir miðaldra karlmenn í íslenska hópnum upp flagg sem þeir höfðu búið til og á stóð: You might win the game but we have your money from Icesave. Þrátt fyrir að ég sjái svo sem húmorinn í þessu þá var þetta hvorki staðurinn né stundin fyrir djók af þessu tagi og flaggið var snarlega fjarlægt af vallarstarfsmönnum. Sumir Íslendingarnir höfðu áhyggjur af því að við yrðum fyrir aðkasti á vellinum vegna Icesave málsins í Hollandi enda verður það að segjast eins og er að ímynd landsins hefur skaðast svaðalega þessa seinustu viku og Íslendingar ekki auðfúsugestir allstaðar. Ég veifaði þó mínu íslenska flaggi af stolti og Hollendingar komu prúðmannlega fram við okkur á vellinum. Eitthvað sem sumir af íslenska hópnum hefðu mátt taka sér til fyrirmyndar...

En jæja, ætla að koma mér í bólið. Reyni að henda inn myndum á Fésbókina og jafnvel á bloggið á morgun.

11 október 2008

Áfram Ísland!

Var að koma heim úr afar skemmtilegu matarboði. Það var stelpukvöld hjá Turi og Swati, sem er indversk, eldaði fyrir okkur dásemdar kræsingar að hætti Indverja. Við vorum frá sex löndum held ég og við Turi, sem er dönsk, erum alveg með það á hreinu að við komum frá frjálslyndustu löndunum. En það er gaman að heyra sjónarmið annarra og hvernig lífið er annars staðar samanborið við klakann. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir allt þá er maður glaður yfir að hafa fæðst á litla Íslandi. Við erum forréttindaþjóð þó svo við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því.

Á morgun er það svo Holland - Ísland. Ég er ekki lítið spennt yfir því að vera að fara á leikinn. Hef alltaf haft gaman af hollenska landsliðinu og það er bara vonandi að okkar menn standi eitthvað í þeim og við fáum skemmtilegan leik. Eða eins og maðurinn sagði; Betra er að fara á kostum en á taugum.

09 október 2008

Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir

Ég er gjörsamlega uppgefin eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi undanfarinnar viku. Það dregur mann hreinlega niður að lesa skoðanir og upphrópanir fólks um menn og málefni. Þrátt fyrir að þetta séu sögulegir tímar og það sé nauðsynlegt að fylgjast með því sem er að gerast þá ætla ég núna að draga línuna við þá sem hafa hóflegasta fréttastílinn. Hætta að lesa miðla þar sem misgáfað fólk segir skoðun sína á málefnum líðandi stundar og þar sem bölsýnin er alsráðandi. Það er lítið sem ég get gert til að breyta því ástandi sem er á Íslandi í dag, ekki frekar en fólkið sem bölsótast yfir því á netinu. Svo ég ætla bara að taka Pollýönnu á þetta. Leika gleðileikinn og pósta inn daglega einhverju jákvæðu, fallegu spakmæli eða einhverju sem ég get verið þakklát fyrir. Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru nefnilegast ekki hlutir.

Ég er þakklát fyrir það að hafa tækifæri til þess að mennta mig í höfuðborg Evrópu með þeim tækifærum sem því fylgir. Þrátt fyrir að það kreppi að og maður þurfi að forgangsraða öðruvísi þá eru það samt sem áður forréttindi að geta nýtt sér svona tækifæri. Svo það er sátt og þreytt stúlkukind sem leggst á koddann í kvöld.

Sá sem rís á fætur í hvert skipti sem hann fellur stendur uppréttur að lokum.

08 október 2008

Krónu fyrir evru?

Seðlabankinn segist ætla að fastsetja gengi krónunnar gagnvart evru í 131 kr. Samt sem áður kostar það mig núna 196 krónur að kaupa 1 evru í bankanum mínum. Ef fram heldur sem horfir slæst ég í hópinn með betlurunum á Louise og býð vegfarendum krónur í staðin fyrir evrur.

07 október 2008

Bjargræðiskort fyrir hnípna þjóð

Sem betur fer erum við Íslendingar svo illa stödd að húmorinn okkar sé horfinn. Ætti ekki að vera komið nóg af góðum sóknarfærum fyrir handritshöfuna Skaupsins í ár? Athugið að þið ættuð að geta klikkað á myndina til þess að sjá hana stærri.

06 október 2008

Áfram Ísland...

Ég held að maður hafi sem fæst orð um atburði dagsins heima á Íslandi. Verð samt að pirra mig yfir þjónustu Ríkisútvarpsins þegar kemur að útsendingum á netinu. Það er hreint óþolandi að þegar maður horfir á fréttir og Kastljós á netinu að það sé klippt á útsendinguna þegar henni á að vera lokið samkvæmt áður auglýstri dagskrá þrátt fyrir að þátturinn sé enn í útsendingu. Sérstaklega þegar dagarnir eru jafn viðburðaríkir og þeir hafa verið undanfarna viku og því oft heitar umræður sem eru í gangi í Kastljósinu þegar klippt er á útsendinguna. Ég trúi því ekki að það sé svo mikið mál að kippa þessu í liðinn.

Til að ljúka þessu á gleðilegri nótum þá má ég til með að upplýsa það að ég er að fara til Rotterdam á laugardaginn til að horfa á leik Íslands og Hollands í knattspyrnu karla. Það fer rúta af Íslendingum á leikinn héðan frá Brussel og ég á von á góðri skemmtun. Þrátt fyrir að Hollendingar eigi nú eflaust eftir að eiga betri dag en við þá held ég að það sé við hæfi að ljúka færslunni á orðunum: Áfram Ísland!

05 október 2008

Vangaveltur á rigningardegi í Brussel

Þá er rólegheita helgi að líða undir lok. Ég dreif mig í Ikea í gær og er afskaplega fegin að því sé lokið. Hef aldrei haft yndi af því að versla í búðum yfirfullum af fólki - eða af stöðum yfirfullum af fólki. Fékk allt sem mig vantaði í Ikea nema myndir á veggina. Plakötin sem voru í boði þarna voru einfaldlega ekki minn stíll. Mig langar líka mest að hafa myndir að heiman á veggjunum, íslenska náttúru eins og hún gerist best. Það fer lítið fyrir svoleiðis hér... Þannig að ef þú átt flotta mynd sem myndi sóma sér vel á veggnum hjá mér í Brussel þá væri ég ekki lítið þakklát ;-)

Á morgun verður almennt verkfall hér í Brussel og koma allar almenningssamgöngur til með að liggja niðri. Ég á að mæta í frönsku klukkan 9 í fyrramálið og þarf víst að leita annarra leiða til að koma mér í skólann. Það er blóðugt að þurfa að taka leigubíl fyrir eina kennslustund svo ég er búin að vera að skoða á korti hvaða leið ég gæti labbað. Planið var að fá sér göngutúr í dag og sjá hvað þetta tekur langan tíma því tilhugsunin um að villast um Brussel á mánudagsmorgni er ekki heillandi. Hér rignir hins vegar eins og hellt væri úr fötu og ég er ekki ennþá búin að hafa mig af stað í göngutúrinn. Við sjáum hvað setur þegar líður á daginn. Ef að rigninginn verður alveg lóðrétt er lítið annað hægt en að taka upp regnhlífina og rölta af stað. Um leið og ég er búin að hlaða ipodinn....

Það hefur ekki verið hægt að sjá það á götum Brussel að það sé fjármálakreppa í heiminum. Miðað við fólksfjöldann í verslunargötunum þá er allavegana ekki samdráttur í verslun hérna á svæðinu. En það skilst mér að sé líka málið heima á Íslandi. Fólkið hópaðist í Korputorg þrátt fyrir fréttir um að allt væri á hausnum. Það er dáldið súrrealískt að fylgjast með fréttaflutningnum í fjarlægð. Múgæsingurinn og móðursýkin er allsráðandi. Ráðamenn virðast vera eins og höfuðlaus her sem veit ekkert hvað hann á af sér að gera og trúin á getu þeirra er takmörkuð. Það sárvantar líka hæfan leiðtoga í stjórnina. Það geta allir komið fram og sagt að allt sé í gúddí fíling þó svo að yfir þá rigni eld og brennisteini. Það eru hins vegar ákveðnir karakterar sem geta fetað þá örmjóu línu að halda ró í mannskapnum og gera það sem þarf að gera. Vera sú föður/móðurlega ímynd sem þjóðin þarf þegar þrengir að. Það er ekki að sjá að slíkur karakter sitji í ríkisstjórn Íslands í dag.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða aðgerðum verður hrint í framkvæmd eftir helgina og hvort að þær eigi eftir að breyta einhverju. Ég held að allir hljóti að vona að þær komi til með að skipta máli og skila árangri, hagsmunir allra velta á því alveg sama hvar menn standa í pólitík. Framtíðarmarkmið hlýtur svo að vera að skapa þannig umhverfi á Íslandi að það verði fýsilegur kostur að setjast þar að. Það er orðið minna mál en áður að flytja út í heim með börn og buru og nóg af frambærilegum löndum sem bjóða upp á betri lífskjör og betri aðstæður fyrir ungt fólk sem er að stofna til fjölskyldu. Ég held að margir hljóti að velta því alvarlega fyrir sér að freista gæfunnar út í hinum stóra heimi við núverandi aðstæður og það er fátt sem freistar hinna, sem eru þegar farnir, að flytja heim aftur - nema þá einna helst nálægð við fjölskyldu og vini.

Ætli það sé ekki tilvalið að hætta á þessum nótum, herða sig upp og fara út í rigninguna. Með regnhlífina í annarri og ipodinn í hinni. Verðlauna sig svo eftir góðan göngutúr með hamborgara og frönskum og restinni af íslensku kokteilsósunni sem fékk að fylgja með í töskunni þegar ég fór út.

04 október 2008

Ef þú átt...

..flotta mynd af Bolungarvík, Vestfjörðum eða íslensku landslagi og getur sent mér á jpg formi á erlakris@gmail.com eða ek89@kent.ac.uk þá væri það innilega vel þegið. Mig vantar fallegar myndir á veggina hjá mér og plakötin í Ikea heilluðu ekki neitt. Mig langar mest að hafa myndir að heiman en á engar slíkar sem henta til stækkunar og upp á vegg.

Hún Agnes á afmæli í dag og er á besta aldri stúlkan. Til hamingju með daginn Agnes mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)

03 október 2008

Þetta litla dýr heitir Tómas Orri og hann á afmæli í dag. Hann er orðinn 2ja ára drengurinn og fær hamingjuóskir í tilefni dagsins frá Brussel. Hafðu það skemmtilegt í dag litla krús!

01 október 2008

Pardon my French

Fyrsti frönskutíminn var í gær. Það voru svo sem engin átök, bara skipt niður í hópa eftir getu. Svo fengum við byrjendurnir að sitja eftir og fengum smá tilsögn í framburði. Ég veit ekki hvort að minn framburður sé afar íslenskur en ég var alltaf með einhver aukahljóð sem maddaman var ekki sátt við. Mér var farið að líða eins og Joey í Friends undir restina. Fu flu fla fleeh... En þetta kemur víst allt með kalda vatninu.

Ég fór að versla skólabækur í dag og það var kannski lán í óláni að tvær bækur af þremur voru ekki til og koma ekki fyrr en eftir 10 daga í fyrsta lagi. Maður krossar allavegana fingur að gengið á þessari blessuðu Evru verði búið að lækka þá. Annars gerir maður allt sem maður getur til að spara og lifa helst bara á vatni og brauði á meðan gengið er svona svaðalegt. Þó svo ég hafi verið búin að safna mér pening sem átti að duga mér til framfærslu í þó nokkurn tíma áður en ég fór út þá eru þeir peningar nánast að verða verðlausir hérna á meginlandinu. En svo maður horfi nú á björtu hliðarnar þá gæti ég verið í verri málum og þetta á nú vafalítið eftir að reddast allt saman. Það verður svo að koma í ljós hvort að íslenskt efnahagskerfi bjóði mann velkominn aftur heim að ári...

Lífið er að komast í fastar skorður hérna í stórborginni. Stundaskráin er nokkurn vegin klár og lærdómurinn að komast á fullt. Það þarf ekki að spurja að því að ég ætla mér að rúlla þessu upp og standa mig með sóma. Ég á enn eftir að láta prenta fyrir mig myndir af mínum nánustu sem fá að fara í ramma og upp á veggi hjá mér og fara í Ikea eftir einhverju smotteríi. Mér finnst vanta dálitla hlýju í íbúðina og það kemur vonandi þegar það er komið eitthvað fallegt á veggina og ég er búin að gera þetta persónulegra.

Ég hef verið að versla allt í matinn í hálfgerðri 10-11 verslun þar sem það eru einu matvörubúðirnar nálægt mér. Ég hef verið að gúgla hvar ég kemst í ódýrari verslun með meira úrvali og þær eru allar aðeins í burtu frá mér. Ég skoðaði eina svoleiðis á einni lestarstöðinni niður í bæ í dag og stóð mig að því að skoða af áhuga svona langömmukerru til þess að nota þegar ég versla í matinn. Pokarnir hérna eru óttalegt drasl ef þeir eru í boði á annað borð og svo er þungt að bera poka langar leiðir svo það getur verið gott að draga bara kerru á eftir sér. Þrátt fyrir að svona kerrur séu mjög praktískar og afar hentug lausn fyrir mig þá finnst mér þær soldið langömmulegar. Ég man að Magga amma átti svona kerru en amma hefur aldrei átt svona svo ég muni til. Kannski þess vegna sem mér finnst þær langömmulegar en ekki ömmulegar...

En jæja, ég er orðin hálfþreytt eftir daginn og ætla að halla mér yfir imbanum. Er með kveikt á Liverpool - PSV í Meistaradeildinni og það er aldrei að vita nema ég nái að skilja eitthvað af lýsingunni sem er á flæmsku að þessu sinni...