Hversu skítt er nógu skítt?
Tillögur SÍNE um aðstoð við námsmenn erlendis lágu fyrir í byrjun þessarar viku og Þorgerður Katrín er búin að afgreiða málið. Það má hrósa mönnum fyrir skjót viðbrögð. Ég varð hins vegar fyrir verulegum vonbrigðum með innihaldið en menn mega þó eiga það að það virðist vera í takt við það andrúmsloft sem hefur verið ríkjandi hingað til hjá LÍN. Það er þó óhætt að segja að það andrúmsloft er engum til hróss.
Aðeins lítill hluti af tillögunum miðar að því að bæta hag þeirra sem eru nú þegar í námi. Sækja þarf sérstaklega um aukalán til LÍN og það þarf að sýna fram á ófyrirséða röskun á högum námsmanns. Stjórn LÍN fjallar um hverja umsókn fyrir sig og það er ekki ljóst hvernig námsmenn eiga að rökstyðja röskun á högum og hvaða mælikvarði verður notaður. Hversu skítt er nógu skítt? Miðað við fjármagnið sem er ætlað í þetta verkefni er þó nokkuð ljóst að aðeins er verið að plástra þar sem þörfin er mest. Þeir sem eru ekki komnir út á bjargbrúnina ennþá verða að leita annarra leiða til að bjarga sér.
Tekjuskerðing þeirra sem hefja nám frá og með janúar 2009 lækkar úr 10% í 5%. Mikið fagnaðarefni að það skref hafi verið stigið en það hjálpar ekki þeim sem hófu nám í haust og urðu allir sem einn fyrir ófyrirséðum röskunum vegna kreppunnar á Íslandi. Það hefði verið farsælla hjá stjórnvöldum að lækka tekjuskerðinguna hjá öllum sem hófu nám í haust og aðstoða þar með mun fleiri námsmenn en þá sem koma til með að hljóta samþykki um aukalán hjá stjórn LÍN. Byrgja brunninn áður en fleiri detta ofan í hann.
Ég sé ekki að það sé neitt í þessum tillögum sem kemur til með að létta mér lífið fram að útskrift. Miðað við reynslu mína af þessu blessaða LÍN batterí þá hef ég ekki geð í mér til þess að sækja um aukalán til stjórnar LÍN og láta stjórnarmenn meta það hvort ég hafi það nógu skítt til þess að eiga rétt á framfærsluláni að andvirði eins til tveggja mánaða til viðbótar. Það er minna auðmýkjandi að betla einfaldlega evrur á Louise og ég gæti hreinlega haft meira upp úr því ef ég yrði heppin.
Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að leggja áherslu á menntun þjóðarinnar og nú. Það er stjórnvöldum til skammar að henda aðeins út nokkrum björgunarhringjum þegar floti af björgunarbátum hefði verið nær lagi.