Vatn í flöskum
Var að fá póst frá skólanum þar sem fólk er hvatt til þess að mæta á fund e-a græningjasamtaka hér í borg þar sem á að mótmæla sölu á vatni í flöskum. Ég var nú alveg komin með það á hreint áður en ég fékk þennan póst að ég væri ekki græn í viðhorfum en ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las auglýsinguna frá þeim sem endaði á upphrópun sem er náttúrulega ekkert annað en skandall. Að veitingahús í Brussel hreinlega neiti að afgreiða fólk með kranavatn!
Mér er svo innilega sama hvað það fara margir lítrar af olíu í framleiðslu á vatni í flöskum, hversu lítið hlutfall skilar sér til endurvinnslu og hvað það er flutt víða um heim með tilheyrandi mengun. Það fær mig ekkert til að drekka kranavatnið hérna í Brussel! Svo einfalt er það. Vatnið hérna er með því skítugasta í allri Evrópu og meira að segja stuttklipptu strákarnir í skólanum tala um það hvað hárið á manni sé öðruvísi eftir að þeir fóru að fara í sturtu hér. Það er ekki öðruvísi til hins betra ef það fór eitthvað á milli mála. Ég þakka bara fyrir að fá ekki kranavatn á veitingahúsunum hérna! Ég á líka bágt með að trúa því að það sé ekki hægt að finna aðra lausn á málefnum flöskuvatns heldur en að drekka bara kranavatnið - alveg sama hversu ógeðslegt það er.
Annars minnir fyrirsögnin mig á frasa sem var stundum fleygt í bekknum mínum í grunnskóla. ,,Sel prump í dósum". Það er svo spurning hvor varan fengi verri útreið hjá græningjum. Vatn í flöskum eða prump í dósum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli