Maraþonlestur
Tók mér smá pásu frá lestrinum til þess að vafra aðeins á netinu. Það er þokkalegur maraþonlestur í hagfræði þessa vikuna, 15 kaflar takk fyrir pent. Er búin með 10, ætla að klára einn eftir kvöldmatinn og rest á morgun. Er búin að vera að lesa um gengi gjaldmiðla, viðskiptajöfnuð við útlönd og sitt hvað fleira. Ég hef aldrei stúderað hagfræði áður og eftir svona maraþonyfirsetu er ég nær því að taka orð Björgólfs Thors mér í munn og segja að þetta sé bara bull heldur en að mér finnist þetta meika mikið sense. Það er allavegana óhætt að segja að hagfræði séu ekki hárnákvæm vísindi.
Ég er búin að liggja heima lasin síðan á mánudag. Held að mér sé að hefnast fyrir það að hafa þvælst í skólann sárlasin alla síðustu viku. En svona er lífið víst. Maður harkar samt af sér og reynir að lesa eitthvað fyrir skólann og það hefur gengið ágætlega í dag svo heilsan hlýtur að vera að hrökkva í lag. Fyrsta ritgerð vetrarins er farin að gerjast í kollinum á mér. Á að skila tillögu til kennarans á föstudaginn og ritgerðinni 14. nóvember svo það er ekki mikill tími til stefnu. Á að taka fyrir einhverja menningu og skoða hvernig hún aktar í negotiation. Ég er mikið að spá í að skrifa um Bretland sem ætti varla að koma á óvart.
Nóvember er svo að læðast aftan að mér og það vantar ekki verkefnin framundan. Margt skemmtilegt reyndar eins og ferð til Ypres 11. nóvember, skoðunarferð í Evrópuþingið þann 12. og önnur skoðunarferð þann 19. en þá fæ ég að skoða Nato. Svo eru bandarísku forsetakosningarnar þann 4. nóvember og eins og gefur að skilja ætla krakkarnir í skólanum að hittast og fylgjast með þeim. Svo er auðvitað aðalmálið en það eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Er búin að redda mér miða á þá og á ekki von á öðru en það verði bara gaman.
En jæja, hagfræðin bíður eftir mér töfrandi og spennandi - eða eitthvað. Ætla samt að athuga hvað Madame Örbylgjuofn býður mér upp á í kvöldmatinn áður en ég held lestrinum áfram.
Au revoir frá Brussel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli